15.01.1951
Efri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að frsm. landbn. gerði grein fyrir, að n. hefði fjallað um brtt. á þskj. 484, um að bæta við nýjum tölul. í frv. um heimild til að selja jörðina Birgisvik í Árneshreppi. Nú tók hæstv. landbrh. það fram síðast, er málið var hér til umr., að það yrði fyrst að tryggja sveitarfélögunum forkaupsrétt að þessum jörðum, og vildi ég þá vita, hvort gengið hafi verið úr skugga um það, að hægt væri að hafa hið sama fororð við þennan lið sem hina fyrri, að sett yrði að skilyrði, að jörðin yrði gerð að ættaróðali. Ég þykist sem sagt sjá nokkurn annmarka á því, að sveitarfélögunum sé sett það að skilyrði fyrir forkaupsrétti sínum að jörðunum, að þær séu gerðar að ættaróðali, þar sem um það er að ræða á annað borð, að sveitarfélögin neyti þess réttar. En það stendur svo í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt að selja eftirtaldar jarðir, að fengnum meðmælum hlutaðeigandi hreppsnefnda og sýslunefnda og skuldbindingu kaupenda um, að þeir geri jarðirnar að ættaróðali ....“ Og svo eru jarðirnar tilgreindar undir 1., 2., 3. og 4. tölulið. Ég bíð eftir skýringum hv. frsm. á því, hvernig þessu verður komið saman. En mig grunar, að sala þessarar eyðijarðar, sem raunar er upplýst, að sé með minni rekajörðum á þessum slóðum, sé dæmi um ranga stefnu í þessum málum; ég tel rétt, að spornað sé við því að koma þeim í eigu einstaklinga og að ríkið eignist þær sem flestar, svo það geti stuðlað þar að sem árangursríkustum nytjum náttúrugæða.