18.01.1951
Neðri deild: 52. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

77. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð viðvíkjandi því, sem hv. þm. Mýr. sagði, að nauðsynlegt væri að skrásetja dráttarvélar sökum þess, að jeppanefndin geti ekki fengið nógar upplýsingar um það, hverjir eigi dráttarvélar. Þetta er alveg óskiljanlegt. Þó úthlutað sé dráttarvélum einu sinni á ári, þá ætti nefndin að geta fengið upplýsingar um það hjá hreppstjórum eða oddvitum, hverjir eigi dráttarvélar á hverjum stað. Vandinn er ekki annar en að skrifa hreppstjórum og oddvitum og fá svo á eftir bréf frá þeim um þetta efni. Yrði þetta auðvitað bæði auðveldara og kostnaðarminna en skrásetning og það, sem kemur á eftir henni, trygging og bifreiðarstjórapróf. — Bændum mundi bregða illa við, ef þeir mættu ekki nota unglinga til þess að stjórna dráttarvélunum, og ef til vill væri enginn á bænum, sem hefði bifreiðarstjórapróf, nema húsbóndinn sjálfur.

Ég held, að þau rök, sem fram hafa verið borin, séu harla veigalítil, þegar málið er athugað niður í kjölinn. Vænti ég þess, að till. mín verði samþ. og bændum þannig forðað frá óþarfa kostnaði og óþægindum.