17.11.1950
Neðri deild: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Í tilefni af aths. hv. 2. þm. Reykv. í þessu sambandi vil ég segja það, að þær eru að vissu leyti eðlilegar, því að mér skilst, að hann miði meir við hina fjölmennu bæi. Ég aftur á móti miða meir við sveitahreppana. Og það getur vel komið til mála í þessu efni, að um sveitahreppana gildi önnur ákvæði en um kaupstaðina, þ.e. um breyt. á röð og útstrikanir á listum. Það er líka skiljanlegt, að í stærri sveitarfélögum séu erfiðleikar í sambandi við það, að viss aukinn hluti kjósenda krefjist hlutfallskosninga, til þess að þær skuli við hafa. Í kaupstöðum koma ekki aðrar kosningar til greina en hlutfallskosningar við bæjarstjórnarkosningar. En ég hefði helzt kosið, að hlutfallskosningar kæmu ekki til greina í fámennum sveitahreppum, því að venjulega hafa menn þar ekki tilhneigingu til að kjósa í sveitarstjórnir eftir pólitískum flokkum. Þess vegna fyndist mér, að þegar svo stendur á í sveitahreppum, þá væri sanngjarnt, að til þess þyrfti kröfu frá 1/5 kjósendanna, til þess að hlutfallskosningar gætu farið þar fram til sveitarstjórna.

Varðandi hitt atriðið, um útstrikanirnar, þá veit ég dæmi þess og heldur slæm dæmi, að það þarf ekki nema fáeina menn úr andstæðingahópi til þess að fara inn á annan lista en þess flokks, sem þeir fylgja, til þess að strika út og fella efsta mann á þeim lista. Og einmitt af þessum ástæðum er rík ástæða til að breyta þessum ákvæðum. — Hins vegar vil ég segja í sambandi við það, sem hv. 3. landsk. þm. sagði um þetta efni, að hann vildi miða útstrikanirnar við það og útreikning atkvæða í sambandi við skipun sveitarstjórna, hve mörgum mönnum listinn kæmi að, að ég tel það óframkvæmanlegt, því að það þyrftu að gilda sömu hlutfallsreglur í þessu efni um alla listana, án tillits til þess, hversu margir menn kæmust að við kosningarnar af hverjum lista. Þess vegna virðist mér eðlilegt, að útstrikunarhlutföllin séu miðuð við aðalmenn, en ekki við allan varamannahópinn. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál meira að sinni.