25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

160. mál, læknishéruð

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt á vegum heilbrigðisstjórnarinnar, og er það ásamt grg. samið af landlækni. Frv. fer fram á sameiningu tveggja læknishéraða, Hesteyrarhéraðs og Ögurhéraðs, og skal læknirinn hafa aðsetur í Súðavík. Undanfarið hefur verið erfitt að fá lækni til að þjóna þessum héruðum, og stafar það af því, að í Hesteyrarhéraði, en því tilheyra Grunnavíkurhreppur og Sléttuhreppur, hefur íbúunum fækkað svo mjög, að til vandræða horfir. Í ögurhéraði munu enn þá vera 700 manns, en byggðin hefur færzt til og læknissetrið verið á sífelldum flutningi, fyrst var það í Vatnsfirði, svo á Melgraseyri og síðan í Ögri. En nú hefur útgerðin færzt á aðra staði, sem eru orðnir fjölmennari, og læknir þá illa settur þar lengur. Í þessi héruð hefur ekki verið hægt að fá lækni nema um sumarið, en báðum þessum héruðum hefur verið þjónað frá Ísafirði. Þetta er erfitt fyrir þann lækni og með öllu óviðunandi fyrir fólkið. Þess vegna hefur verið reynt að ráða bót á þessu og sameina héruðin með aðsetri læknisins í Súðavík, en það er fjölmennasta þorpið. Ef frv. verður samþ., verður byggður þar læknisbústaður, og er þá bætt úr þörf þorpsins. En héraðslækninum á Ísafirði er skylt að gegna þessu héraði eftir sem áður, og eiga þorpsbúar rétt á þeim lækni. Hv. þm. N-Ísf. og hv. 6. landsk. þm. hafa fallizt á, að þetta væri eina lausnin á málinu. — Þetta mál er flutt af nefnd og því þarflaust að vísa því til nefndar, og mælist ég til, að frv. gangi til 2. umr. og verði hraðað svo, að það geti orðið að lögum á þessu þingi, svo að hægt verði eins fljótt og auðið er að bæta úr þörf fólksins þar vestra að þessu leyti.