22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

138. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar, enda þótt ég hefði talið heppilegra, að þær hefðu komið fram á þskj. Mér skilst af þessum upplýsingum, að sú áætlun, sem gerð var 1946, mundi nú nema 40 millj., ef í engu hefði verið breytt, en með þessum breytingum, sem nú hafa verið ákveðnar, um 54 millj. og með þeim gengisbreytingum og verðhækkunum, sem orðið hafa, nemi hún um 120 millj. En þetta er í sjálfu sér ekkert aðalatriði.

En aftur á móti í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði um brtt. mína á þskj. 487, get ég ekki verið honum sammála, og ég vil leyfa mér að benda honum á það, að með því að fella þá till. er verið að opna leið fyrir allar héraðsveitur á landinu, að ríkið ábyrgist þeim stofnfé 100%, því að það er ekki hægt að neita þeim um þau fríðindi í þessum efnum, eftir að búið er að veita þetta. Það er fullkomlega hliðstætt, þegar þær aðstæður eru athugaðar, að svo er ráð fyrir gert, að ríkissjóður sé meðeigandi. Og í þessu tilfelli er hlutdeild ríkissjóðs ekki meiri en það, að hann á 15%, getur komið til með að eiga 50%, en eins og nú standa sakir á Reykjavíkurbær 85%. Ég tel, að það hefði verið hyggilegra, að ríkissjóður hefði lagt fram 15% og dreift siðan þeim 15% yfir þau ár, sem verið er að byggja fyrirtækið. Og jafnvel það get ég ekki séð að komi í veg fyrir þá kröfu, að Reykjavíkurbær leggi fram höfuðfjármagnið í þetta fyrirtæki, og verði það ekki, sé ég ekki, hvernig hægt verður að neita sömu kröfum frá öðrum sveitum. En hér er meira en verið að veita þau hlunnindi að hækka ábyrgðina úr 85% í 100%, heldur á Reykjavíkurbær að eiga helming fyrirtækisins. Ég býst við, að það séu fleiri sveitarfélög, sem mundu ganga að því, að helmingur rafmagnsveitunnar væri eign ríkisins gegn því, að hinn helmingurinn væri ábyrgztur.

Ég skal svo ekki tefja þetta mál frekar, en ég leyfi mér að benda á það, að verði þessi brtt. felld, er ekki hægt að synja um ábyrgð ríkissjóðs á héraðsrafveitum; það verður ekki með neinni sanngirni hægt að standa á móti því.