23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

185. mál, landshöfn í Rifi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði nú vænzt þess, að af hálfu þeirrar n., sem flytur málið, yrði höfð framsaga fyrir því, og hafði ég því ekki hraðann á um að kveðja mér hljóðs. En mér virtist að því komið, að hæstv. forseti ætlaði að ljúka umr., og vildi ég þá ekki fella það niður að segja nokkur orð um þetta mál, áður en það fer út úr hv. þd.

Ég hygg, að annáll þessa máls verði hv. þm. minnisstæður. Mér virðist, að þetta þing hafi staðið 127 daga, án þess að nokkuð væri um það rætt eða nokkuð fyrir það lagt um landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi. Hinn 14. febr. s.l. er útbýtt í þessari hv. d. frv. til l. um ráðstafanir vegna hafnargerðar á Rifi á Snæfellsnesi. Næsta dag, 15. febr., er málið tekið fyrir til 1. umr. hér í hv. d. og vísað nær umræðulaust til nefndar. Svo líður einn dagur, fundur er þá hér í hv. d. og málið ekki á dagskrá, og mun sjútvn. þá væntanlega hafa notað þann tíma til athugunar á málinu. Síðan liður ein helgi, laugardagur og sunnudagur, að engir fundir eru haldnir. Mánudaginn 19. febr. er útbýtt nýju frv. um landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi. Það frv. er með afbrigðum frá þingsköpum tekið til 1. umr. þann sama dag og vísað til 2. umr. Daginn eftir, þann 20. febr., er þetta frv. um landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi tekið til 2. umr. og vísað til 3. umr. Síðan hafa undanfarna tvo daga verið fundir í Sþ. Og í dag, þann 23. febr., er málið hér til 3. umr. og þar með lokaumr. hér í þessari hv. d., og virðist nú eiga að afgr. það út úr hv. d.

Frv. þessu fylgir mjög stutt grg., sem gefur litlar upplýsingar um málið. Framsaga fyrir málinu hefur nær engin verið við 1. umr., 2. umr. og enn sem komið er ekki heldur við 3. umr. málsins í hv. d. Áætlun frá vitamálaskrifstofunni um kostnað á því mannvirki, sem hér er stefnt að að setja lög um, fylgir ekki með þskj. og liggur alls ekki fyrir hv, þd. Og ýmislegt í málinu er þannig vaxið, að þeim, sem ókunnugir eru, er ekki fyllilega ljóst um ýmis atriði, sem málið snerta.

Til samanburðar við þetta er fróðlegt að rifja það upp. hvernig Alþ. hefur hagað afgreiðslu svipaðra mála að undanförnu. — Til eru lög um landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum. Rétt undir þinglok 1944 var frv., sem samið var af milliþn. um það mál, útbýtt sem handriti til þingmanna, en ekki afgreitt á því þingi. Á öndverðu þingi 1945 var svo flutt af sjútvn. þessarar hv. d. frv. þetta, óbreytt frá milliþn., til laga um landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum. Því frv. fylgdu: Grg. frá samgmrn. skilríki frá hreppsnefndum þeirra hreppa, sem hlut áttu að máli, skilríki frá Útvegsmannafélagi Keflavíkurhrepps, umsögn lögreglustjórans í Keflavík um málið, álitsgerð frá vitamálaskrifstofunni með kostnaðaráætlun um verkið, umsögn frá Fiskifélagi Íslands um staðhætti og aflabrögð á þessum stað. Á milli umr. hér í þessari hv. d. tók sjútvn. málið til athugunar. Það sýna þingtíðindin. Síðan er málið afgreitt út úr þessari hv. d. og fær rækilega athugun í hv. Ed., og 13, marz skilar sjútvn. Ed. áliti um málið, og því fylgir enn að nýju álitsgerð frá vitamálaskrifstofunni, sem lögð er í hendur hv. þingmanna. Síðan kemur málið aftur til þessarar hv. d., svo að þegar búið er að athuga málið gaumgæfilega í þrjá til fjóra mánuði hér í þinginu og safna ýmsum gögnum, sem málið snerta, þá er það frv. lögleitt.

Hér hefur verið fyrir þinginu frv. um landshöfn í Þórshöfn. Það fékk mjög rækilega athugun í n., en náði ekki lögfestingu. Og á undanförnum þingum, nokkrum þingum í röð, hafa verið til athugunar hér á þingi frv. til l. um landshöfn í Hornafirði. Þau hafa fengið rækilega athugun, en aldrei náð lögfestingu, þrátt fyrir það að þau hafa legið fyrir þinginu svo vikum og mánuðum hefur skipt.

Nú fæ ég ekki betur séð en að nokkuð skorti á um það, að hv. þm. gefist kostur á að meta fyllilega þetta mál, sem hér liggur fyrir, og hvað í því er fólgið, þar sem alls ekki liggur fyrir þinginu nein áætlun um málið frá vitamálaskrifstofunni, engin umsögn heiman að úr héraði, engin umsögn t.d. frá Fiskifélagi Íslands eða neinum aðila, því að ekkert liggur fyrir þinginu um málið, nema frv. sjálft og grg. í örfáum orðum. Mér finnst, að það hefði jafnvel ekki verið síður ástæða til þess, að kostnaðaráætlun hefði fylgt þessu frv., þar sem það er þannig upp byggt, að ekki er fyrir fram ákveðin sú heildarfjárhæð, sem verja má til mannvirkisins. Hér er einungis sagt í 2. gr. frv., að ríkisstj. sé heimilað að taka 3 millj. kr. lán og að öðru leyti greiðist kostnaður úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til þessa á fjárlögum. En í lögum um landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum er heildarfjárhæðin lögbundin, sem leggja má fram í verkið. — Í 4. gr. þessa frv. er vikið frá þeirri reglu, sem upp var tekin, þegar lögin voru sett um höfnina í Keflavík og Njarðvíkum, um skipun hafnarstjórnarinnar. Ég skal ekki fella um það dóm, hvort sú skipan, sem hér er ráðgerð, er eðlilegri en sú skipan, sem fylgt er um þetta í Keflavík og Njarðvíkum. En ekki fyndist mér óeðlilegt, að á því væru gefnar einhverjar skýringar, af hverju þessi breyt. er sprottin. — Í 1. gr. frv. þessa er talið upp, hvað teljist til hafnarmannvirkja, og þar segir m.a. svo, að til hafnarmannvirkja teljist lönd, sem höfninni eru nauðsynleg vegna byggingar mannvirkjanna. Nú verður það að viðurkennast, að ég er svo gerókunnugur á þessum stað, að mér er það ekki ljóst, hverjir eru eigendur að þessum löndum, hve stór þau eru og hversu mikið verð er í þeim bundið. Mér virtist ekki óeðlilegt, að eitthvað um þetta kæmi fram, áður en hv. þd. afgr. málið frá sér.

Þegar á þetta er litið, þá verður manni á að spyrja: Hefur atvinnulíf á Snæfellsnesi tekið þeim stakkaskiptum nú á allra síðustu dögum þingsins, að af þeim ástæðum beri nauðsyn til þessara vinnubragða? Eða hefur nauðsyn þess að gera landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi skapazt svo nú á allra síðustu dögum, að það réttlæti þessa málsmeðferð? Mér virðist þetta ekki líklegt, heldur virðist mér þetta benda ótvírætt á það, að hv. þm. séu nú orðnir einhuga um það, að rétt sé að fylgja þeirri stefnu að gera landshafnir þar, sem fiskimið eru góð, en skortir hafnarmannvirki, þótt slík mál hafi átt of litlum skilningi að mæta á undanförnum árum hér í þessari hv. d. Og verður þá að vænta þess, að hér eftir reynist hv. þd. þessari stefnu trú.