23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

185. mál, landshöfn í Rifi

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vildi segja hér nokkur orð vegna þess, að enda þótt ég sé hlynntur því, að landshöfn sé komið upp í Rifi á Snæfellsnesi, þá finnst mér afgreiðsla þessa máls einkennileg, ef miðað er við afgreiðslu annarra slíkra mála hér í þinginu. Það munu nú vera 5–6 ár síðan hugmyndin um landshöfn kom fram í mþn. 1944 eða 1945, og í samræmi við hana voru svo sett l. um landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum. Síðan voru flutt frv. um landshafnir í Keflavík og Njarðvíkum. Höfn í Hornafirði og Rifi árið 1945, og var ákveðið að koma slíkum höfnum upp á þeim stöðum á landinu, þaðan sem menn af öðrum stöðum þyrftu að stunda útgerð og róðra, þannig að þetta yrðu fyrst og fremst viðleguhafnir fyrir verulegan hluta landsins, eins og t.d. Hornafjörður, þar sem verulegur hluti bátaflota Austurlands hefur aðsetur sitt, þegar hann þarf að sækja til annarra miða en heimamiða. Þegar frv. komu fram í þinginu. áttu þau misjafnlega miklu fylgi að fagna, og ekkert þeirra náði samþykki á þessu þingi, en frv. um landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum náði samþykki á þinginu 1946, en þegar búið var að samþ. það frv., var eins og áhugi stjórnarvaldanna í þessum efnum dofnaði og þýðingarlítið virtist að halda þessum málum til streitu og heppilegast virtist að bíða með þau um stund, en nú virðist vera um stefnubreytingu að ræða hjá hæstv. ríkisstj. og hana ekki svo litla, og svo virðist, eftir því sem hv. þm. Snæf. sagði, að um það hafi verið samið innan hæstv. ríkisstj., að einn þessara staða væri nú tekinn upp á ný og samþ. að byggja þar landshöfn nú á síðustu dögum þingsins. Í stuttri grg., sem fylgir frv., er tekið fram, að sjútvn. flytji frv. að beiðni ríkisstj., en venja er, þegar um slíkan flutning er að ræða, að tekið er fram, að einstakir nm. hafi óbundnar hendur og geti komið fram með brtt. og fylgt brtt., sem fram kunni að koma við frv., en svo virðist sem hv. n. hafi algerlega tekið málið upp á sínar hendur. en n. hefur venjulega verið mjög klofin um slík mál, en ég veit ekki, hvort þessi eining stafar af því, að hæstv. ríkisstj. hafi skipað fylgismönnum sínum að standa með þessu frv., og virðist svo, ef dæma skal eftir orðum hv. þm. Snæf., því að hann sagði, að stuðningsmönnum ríkisstj. væri kunnugt um þetta mál, en ég efa samt sem áður, að öllum stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. hafi verið kunnugt um mál þetta. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég sé á móti þessu máli, og ég er sannfærður um, að full nauðsyn er að koma upp slíkri höfn til að geta nýtt hin góðu fiskimið, sem þarna eru, sem bezt. En þar sem n. hefur tekið þetta mál svona upp á sínar hendur, þá gefur það vonir um, að hún muni verða hliðholl hliðstæðum málum, sem fram kunna að koma. Ég get upplýst í sambandi við þetta, að við hv. þm. A-Sk. höfum skrifað hv. n. og farið þess á leit, að hún sýndi öðrum stað, sem engu síður hefur þörf fyrir landshöfn, Hornafirði, sams konar vinsemd og hún hefur sýnt þessu máli og að n. tæki upp hliðstætt mál fyrir Hornafjörð. Og ég vona, að hv. sjútvn. verði því máli hliðholl og styðji það ekki síður en þetta mál.