03.03.1951
Neðri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

192. mál, mótvirðissjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf varðandi skiptingu á hinum innlenda og erlenda kostnaði vegna Sogs- og Laxárvirkjananna, en ég hefði mjög óskað eftir frekari upplýsingum í sambandi við áburðarverksmiðjuna. (Fjmrh.: Ég tók það fram áðan, að mér tókst ekki að fá þær.) Ég hef áður spurzt fyrir um það hér á fundi, hvað margir menn mundu fá vinnu við Sogsvirkjunina, og var gizkað á, að það mundi verða innan við 200 manns, sem raunverulega eru ekki fleiri menn en unnu við gömlu Sogsvirkjunina 1936, og þrátt fyrir hinar miklu framkvæmdir, sem Reykjavíkurbær lagði í um sama leyti í sambandi við hitaveituna, þá var hér samt tilfinnanlegt atvinnuleysi á þessum árum og allt fram til 1941. Ég held, að það fari því ákaflega fjarri því, að þessi vissulega háu framlög, sem hér um ræðir, kalli á svo mikið vinnuafl, að hætta geti orðið á, að vinnumarkaðurinn verði þurrausinn. Við verðum að hafa það í huga, að það fer svo geysilega mikið af þessum kostnaði til kaupa á efni og vélum, og hlutfallslega miklu meira en áður var, vegna þess hvað vinnuaflið er miklu afkastameira en það var áður. Ég tók eftir því hjá hv. 3. landsk. þm. (GÞG), að hann virtist óttast það atriði, að með þessum framkvæmdum yrði stefnt að verðbólgu, en auðvitað eigum við fyrst og fremst að stefna að útrýmingu atvinnuleysisins, og ef ekki er hægt að útrýma því án verðbólgu, sem vitanlega er alltaf æskilegast, þá ber okkur frekar að eiga á hættu verðbólgu en atvinnuleysi. Ég álít, að það sé því rangt af stjórnarandstöðunni að leggja að hæstv. ríkisstj. að fara með gætni í þessum efnum, þar sem ég hygg, að hún hafi þar einmitt tilhneigingu til að vera of gætin, vegna þess að engin ástæða er til að óttast, að þessar framkvæmdir geti haft verðbólgu í för með sér, og ég hygg, að þrátt fyrir þær verði tilfinnanlegt atvinnuleysi bæði í Rvík og á Akureyri. Ég er þeirrar skoðunar, að hæstv. ríkisstj. þurfi að fá viljayfirlýsingu Alþ. almennt, og ekki hvað sízt stjórnarandstöðunnar, um að hún hafi fyllsta stuðning Alþ. til að verja 120 millj. kr. úr mótvirðissjóði einmitt til þessara framkvæmda, því að ég veit, að það verður lagt mjög fast að hæstv. ríkisstj. bæði af innlendum og erlendum aðilum, það er af Landsbankanum og Marshallaðstoðinni, að verja allmiklu af fé mótvirðissjóðs til greiðslu á skuldum ríkissjóðs, en það álít ég mjög óheppilegt. Ég er því á móti brtt. hæstv. fjmrh. um að verja 50 millj. kr. af þessu fé til greiðslu á skuldum ríkissjóðs við Landsbankann, þar sem fjárhagur hans er tiltölulega góður, en áreiðanlega yfirdrifin þörf fyrir þetta fé til þeirra stóru og nytsömu fyrirtækja, sem hér um ræðir. Og það er á vissan hátt eðlileg óánægja sumra hv. þm. út af því að verja svona miklu fé til framkvæmda aðeins á tveimur stöðum á landinu, sem sé í Rvík og Arnessýslu annars vegar og á Akureyri og í Suður-Þingeyjarsýslu hins vegar, og að verja engu af þessu fé til annarra staða á landinu, því að það er ekki vafamál, að atvinnuástandið er þannig, að ekki væri vanþörf á, að arðbærum og nauðsynlegum framkvæmdum úti á landi væri veitt einhver fjárhagsleg aðstoð á slíkan hátt og hér er um að ræða. En ef hins vegar á að verja af fé mótvirðissjóðs til þess að greiða skuldir ríkissjóðs við Landsbankann, þá er gefinn hlutur, að ekki verður farið að taka það fé að láni á sama árinu og hækka þær skuldir aftur.

Ég vil þess vegna eindregið mæla með því, að frv. á þskj. 745 verði samþ. eins og það liggur fyrir, en lýsi andstöðu minni við brtt. á þskj. 783 varðandi greiðslu á skuldum ríkissjóðs við Landsbankann.

Mér þykir leitt, að ekkert hefur komið fram um áætlanir fjárhagsráðs, sem minnzt var á í gær. Það er vitanlegt, að ef fjárhagsráð á að ráða, er ætlazt til þess, að almenn byggingavinna verði mjög lítil á þessu ári samanborið við undanfarin ár, og þess vegna fer því fjarri, að næg vinna verði tryggð handa öllum, þrátt fyrir þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera, og þótt þetta séu að vísu mjög háar tölur hvað framlög snertir, sem á að verja til þeirra. Auk þess sést það af upplýsingum hæstv. fjmrh., að það er engan veginn víst, að þessar 120 millj. kr. eigi að notast allar á þessu ári.

Þá hef ég engar upplýsingar fengið varðandi áburðarverksmiðjuna, sem ég bað um í gær, og verð að lita svo á, á meðan þær koma ekki, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki mótað sér ákveðnar skoðanir í því máli.