12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

76. mál, áfengislög

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér finnst ekki óeðlilegt, eins og kom fram hjá hæstv. forseta, að þetta mál sé athugað nánar í n., og ég fyrir mitt leyti vil frekar stuðla að því, að svo verði. En ég vil strax segja um þetta nokkur orð og þá í fyrsta lagi, að ég held, að hv. þm. V-Húnv. hafi farið skakka leið í því máli, sem hann virðist vilja tryggja, þ.e.a.s. að koma í veg fyrir vínveitingar á veitingastöðum. Ef hann er heill í málinu, því kemur hann þá ekki með brtt. um að fella niður 11. gr.? Af hverju á eitt veitingahús að hafa þetta leyfi frekar en önnur? Þetta ákvæði var sett fyrir eitt veitingahús, Hótel Borg, til að koma því upp, þegar stóð þannig á, að varla var um nokkurt sambærilegt veitingahús að ræða. En á þeim tíma, sem liðinn er síðan, er kominn fjöldi af veitingastöðum, sem eru sambærilegir við Hótel Borg, og þeir, sem vilja vera einlægir í baráttunni fyrir því að koma í veg fyrir vínveitingar á veitingastöðum, eiga að taka skrefið til fulls um það, að það megi hvergi veita vín, því að það nær engri átt sú sérstaða, að einu veitingahúsi í landinu sé veitt aðstaða til þess að veita vín, en öðrum ekki. Hitt er svo það, að það er mín skoðun, að það sé rangt að verða við þessari brtt. og einnig rangt að fella niður 11. gr., heldur ætti að rýmka gr. og gefa ráðh. heimild til þess að veita veitingahúsum leyfi til vínveitinga, og þá væri það á mati ráðh., hve mörg þau ættu að vera.

Ég geri ráð fyrir, að það verði sagt, að ég sé einn af þeim mönnum, sem vilji veita vínflóðinu yfir landið, en það er alls ekki það, sem fyrir mér vakir. Ég er þeirrar skoðunar, að meðan áfengissala er í landinu og hver maður getur keypt áfengi eins og hann vill, þá verði ekki spornað við vínneyzlu, enda þótt áfengisveitingar séu ekki leyfðar, og reynsla er fyrir því, að áfengisneyzla er í mörgum tilfellum síður en svo minni á þeim stöðum, þar sem ekki eru opinberar vínveitingar; menn hafa áfengi með sér og staupa sig á því á klósettum, og það er ekki til fyrirmyndar, því að á þann hátt skapast sá sóðaskapur í þessum málum, sem er fullkominn blettur á þjóðinni. Ég veit, að hv. þm. vita þetta eins vel og ég og þekkja dæmi um það frá sínum eigin samkomustöðum, þar sem ekki eru opinberar vínveitingar, að þar skortir ekki á, að haft sé um hönd áfengi og menn neyti þess. Ég held því, að það sé ekki til neins að samþ. till. í þá átt að takmarka vínveitingar á veitingastöðum meðan ríkið sjálft selur áfengi.