23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

76. mál, áfengislög

Hannibal Valdimarason:

Herra forseti. Ef það er rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan, að framkvæmd laganna væri sú sama, hvort orðalagið sem haft væri, hvort sem farið væri fram á sterkar líkur eða sannanir, þá finnst mér ekki ástæða til fyrir þá menn, sem vilja, að bundinn sé endir á það ófremdarástand, sem allir viðurkenna, að ríkir í þessum málum, að vera að knýja fast fram breytingu á því orðalagi, sem komið er frá Nd. í annað sinn. Við vitum allir, að það líður að þinglokum, og ef nú verður knúð fram orðalagsbreyting, án þess að það hafi nokkra verulega þýðingu, eftir því sem ráðh. telur, þá stofnum við frv. í hættu með því. En frv. með hinu ákveðnara orðalagi miðar að því, sem allir eru sammála um, að bundinn sé endir á áfengissölu úr bifreiðum. Verði svo orðalagsbreytingin knúð fram, þá eru miklar líkur til, að það geti ekki orðið að lögum á þessu þingi og við búum áfram við það ástand, sem við höfum búið við til þessa.

Ég er heldur fylgjandi hinu eindregna orðalagi eins og hæstv. menntmrh., svo að ekki sé hægt að skjóta sér þar undan vegna þess. Ef menn eru að burðast með mikinn áfengisforða í bifreiðum á skemmtistöðum, og það menn, sem grunur hvílir á, þá finnst mér ekki of mikið, þó að þeir séu látnir færa sannanir fyrir því, að þeir hafi ekki ætlað það til óleyfilegrar sölu. (BSt: Hvernig er hægt að sanna það?) Ég get t.d. hugsað mér, að maður, sem áfengi finnst hjá og grunaður er um að ætla að selja það óleyfilega, geti t.d. sannað, að hann eigi merkisafmæli daginn eftir, og undirbúningur er undir það á hans eigin heimili. (Dómsmrh.: Þetta er ekki annað en það, sem kallaðar eru sterkar líkur.) En eru svona sterkar líkur ekki stundum teknar sem sannanir? (Dómsmrh.: Jú. ) Þetta bendir til þess, að hæstv. ráðh. hafi rétt fyrir sér um það, að sterkar líkur mundu leiða til sakfellingar í báðum tilfellunum, hvort orðalagið sem væri notað. Eigum við þá að vera að þvæla málinu frá okkur aftur af því, að við viljum knýja fram orðalag, sem ekki hefur neina þýðingu að sé knúið fram, en getur stofnað frv. í hættu? Mér finnst, að við eigum að sætta okkur við það orðalag, sem er á frv. frá Nd., sú deild hefur mikinn áhuga á, að það sé samþ. með þessu orðalagi. Ef Ed. samþ. frv. eins og það er komið frá Nd., verður gerð tilraun með þessa aðferð, þangað til löggjöfin verður endurskoðuð, og sést þá, hvort þetta hefur orðið til bóta á því sviði, er við kemur sölu úr bifreiðum, og ef það tækist, þá væri þetta frv. til stórra bóta. Ég vil því taka undir tilmæli hæstv. menntamálaráðherra, að við samþ. frv. eins og það er komið frá Nd., þó að sumir í deildinni telji orðalagið strangt og einstrengingslegt um of. Það er búið að sýna okkur fram á, að í raun og veru skiptir það ekki miklu, hvort orðalagið er haft, en ef við sendum það aftur frá okkur núna, þá fáum við hvorugt orðalagið.