06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það ber stundum við, að frv. komi til Sþ., vegna þess að deildirnar hafa ekki getað komið sér saman um einhver ákvæði þess. Í raun og veru er hér ekki mikið, sem í milli ber, en það er niðurlag 1. gr. þessa frv. Með leyfi hæstv. forseta hljóðar mgr. nú svo:

„Nú finnst áfengi í bifreið, þegar svo stendur á sem í næstu mgr. hér á undan segir, og skal þá refsa eiganda þess sem hann væri sekur um ólöglega áfengissölu, nema hann færi sterkar líkur fyrir því, að áfengið sé ekki ætlað til sölu.“

Í upphaflega frv. var svo að orði komizt: „nema hann sanni, að áfengið sé ekki ætlað til sölu“. Hv. Ed. virtist þetta orðalag vera of sterkt, vegna þess að bað væri ekki hægt að sanna það, sem hér um ræðir, heldur væri aðeins hægt að færa að því sterkar líkur. Það er aftur á móti vitað, að flm. frv. og fylgjendur þess í hv. Nd. telja orðalagið, eins og Ed. breytti því, of veikt. Ég benti á það í Ed., að hér væri deilt um keisarans skegg, vegna þess að sú sönnun, sem hér um ræðir, gæti aldrei vegna eðlis málsins orðið með öðrum hætti en með sterkum líkum, og mætti því segja, að með hvoru orðalaginu sem er mundi það koma í einn stað niður fyrir dómstólana og mundi ekki breyta neinu um, hver framkvæmdin á þessu yrði. Ég taldi þó réttara að hafa það orðalag, sem Ed. setti, vegna þess að sönnunarleiðin, sem hér yrði farin, hlyti alltaf að verða „sterkar líkur“. En þar sem fylgjendur frv. í Nd. telja þetta of veikt og hafa sumir hugsað sér að flytja till. um að breyta orðalaginu eins og það var í upphaflega frv., hef ég flutt hér brtt. á þskj. 800 við 1. gr. frv., um að fyrir orðin „nema hann færi sterkar líkur fyrir því“ komi: nema hann sanni með sterkum líkum. — Þarna eru sjónarmið beggja fylgjenda tekin til greina. Það er ætlazt til, að gengið verði svo ríkt eftir þessu, að krafizt verði glöggrar grg. og að fullar sönnur séu færðar fram. En á hitt er bent með orðalaginu, að eftir eðli málsins sé ekki hægt að koma við annarri sönnun en sterkum líkum.

Ég mundi telja það mjög illa farið, ef þetta frv. stöðvaðist hér vegna deilu um orðalag, og þar eð ég hef nokkra ástæðu til að ætla, að ef þetta orðalag yrði samþ., mundu þeir, sem fastast hafa fylgt frv. eftir og vilja út af fyrir sig breyta því í ákveðnari átt, sætta sig við frv. með þessu móti, vil ég leggja til, að frv. verði samþ. með þessari breyt.