06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég verð að játa, að þessar umr. hafa gefið tilefni til að gefa hv. þm. skýringu á því, hvað er sönnun. Það hefur komið fram hjá öllum, sem hafa talað, og þó skýrast hjá hæstv. forsrh., fullkomin vanþekking á þessu. Það er undravert, að menn skuli láta annað eins út úr sér. Orð hæstv. forsrh. lýstu fullkominni vanþekkingu hans á þessu. Það er eins og umr. byggist á því, að menn geri sér ekki grein fyrir því, hvað dómarinn metur í þessum efnum. Hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Eyf. andmæltu því að velta sönnunarbyrðinni á sakborninginn. En þeir gæta þess ekki, að það er gert með þeirra till. Ég gæti skilið, að þeir væru á móti frv., en ég skil ekki, að þeir séu á móti því að velta sönnunarskyldunni á sakborninginn, því að það kemur fram í till. þeirra sjálfra. — Menn verða að átta sig á því, að „sterkar líkur“ eru ein tegund sönnunar. Í þessu tilfelli eru „sterkar líkur“ sannarlega sterkt tilfelli sönnunar. Ég mun taka mína till. aftur, ef engin önnur till. verður borin fram, en það er auðvitað mönnum í sjálfsvald sett, hvort þeir taka hana upp aftur. Ég vil ekki verða til þess að fella frv. með minni hl. atkv. Ég tek mína till. aftur vegna þess, að hún breytir engu um efni málsins, heldur var hún borin fram til að skýra málið og hverfa frá deilum. Hv. þm. Borgf. er búinn að ná sínu máli fram, þó að till. Ed. verði samþ. Ég hef aldrei vitað, að annað eins ætti sér stað og þetta. Ég þekki illa hv. þm. Borgf., ef hann fylgir ekki sínu máli af miklu kappi. Hann vill, að andstæðingarnir lýsi því yfir, að þeir gefist upp.