04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

28. mál, Stýrimannaskólinn

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ed. hefur gert lítils háttar breytingar á þessu frv. frá afgreiðslu þess hér síðast. Þessar breyt. eru m.a. fólgnar í því, að hv. Ed. hefur ekki getað fallizt á þá till. skólastjóra stýrimannaskólans að fella niður viss ákvæði um inntökuskilyrði í farmannadeildina. Enn fremur vill sjútvn. deildarinnar láta standa, að haldið verði áfram kennslu í þýzku, sem raunar stóð opið að gert yrði, þótt frv. hefði verið samþ. óbreytt. — Hin breyt. er í því fólgin, að sjútvn. þessarar deildar hafði lagt til, að ekki yrði lögfest að þessu sinni að fjölga kennurum í farmannadeildinni. Það hafði ekki í greinargerð fyrir þessu frv. verið gerð nein grein fyrir þessari fjölgun, og þótt sjútvn. Nd. væri kunnugt um, að þetta væri ekki raunveruleg breyting frá núverandi kennslufyrirkomulagi skólans, þá leit hún svo á, að það væri ekki ástæða til að lögfesta fjölgunina. En nú hefur Ed. lagt til, að þetta verði lögfest. Sjútvn. Nd. þykir ekki ástæða til að fara nú að gera breytingu á frv. og hrekja málið með því á milli deilda og vill leggja frv. á vald þessarar hv. deildar eins og það kom frá Ed.