18.01.1951
Efri deild: 52. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

104. mál, orkuver og orkuveita

Frsm. (Gísli Jónsson):

Út af ummælum hv. 11. landsk. þm. vil ég benda honum á, að frv. hefur legið hér fyrir í frumvarpsformi um tveggja mánaða tíma á þskj. 190, þar sem farið er fram á, að þessi staður sé raflýstur á sama hátt og gert er um aðra staði á landinu. Þess utan er samkv. bráðabirgðaákvæðinu heimilað að koma upp dieselrafstöð á Reykhólum. Það er sumpart vegna þessa bráðabirgðaákvæðis og sumpart vegna þess, að raforkumálastjóri telur, að þetta heyri frekar undir héraðsrafmagnsveitur ríkisins en aðalorkuveitur, — og þá þarf ekki sérstaka löggjöf um málið, — að þetta frv. verður að víkja í þessu máli samkvæmt till. okkar og þess manns, sem ríkisstj. fer eftir á hverjum tíma.

Ég vil svo leiðrétta það, að hér sé um nokkurt formleysi að ræða af minni hálfu. Ég bar málið fram sem fulltrúi ríkisvaldsins, og ef Alþ. vill ekki veita þetta sem ríkisrafveitu, heldur sem héraðsrafmagnsveitu ríkisins, þá get ég sætt mig við þá afgreiðslu. En ef meiri hl. þessarar hv. d. vill fella dagskrána og samþ. frv., þá er ég þakklátur fyrir þá afgreiðslu, en mundi sætta mig við þá afgreiðslu, sem hér er gerð, og tel, að hún sé þingleg og eðlileg, eins og málið stendur nú. Hins vegar vil ég leiðrétta þann misskilning, að hér sé gert nokkuð fyrir mig persónulega. Það er verið að afgr. mál, sem er landsmál, en það er ekki fyrir mig sem þm. Barðstrendinga.