22.01.1951
Neðri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2990)

60. mál, kaup á ítökum

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá hv. Ed., og hefur landbn. nú athugað það og rætt á nokkrum fundum. Það er sammála álit n., að lítið vinnist með samþykkt þessa frv., þótt að vísu megi til sanns vegar færa, að ýmislegt standi þar til bóta. Það er í mörgum tilfellum rétt að gefa eigendum jarða rétt á að kaupa ítök, sem aðrar jarðir eiga í landareign þeirra, en samt þarf þetta atriði nánari athugunar við, vegna þess að sums staðar getur verið þannig ástatt, að ítak sé óhjákvæmileg nauðsyn þeirri jörð, er þess nýtur, og getur svo verið um fleiri atriði, er til ítaka teljast. Landbn. telur því rétt að gefa búnaðarþingi, sem á að koma saman í næsta mánuði, kost á að athuga þetta mál, en þar eiga sæti fulltrúar bænda úr sýslum landsins, og má búast við því, að þar verði skýrð hin ýmsu sjónarmið í þessu máli af mönnum, sem staðarkunnáttu hafa á þessu sviði. — Landbn. vill af þessum ástæðum leggja til, að hv. d. afgreiði málið með rökst. dagskrá, svo sem fram kemur á þskj. 498.