08.02.1951
Efri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (3083)

70. mál, lyfsölulög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir hans undirtektir í málinu. — það er rétt, að undanfarin ár hafa orðið deilur út af þessum málum, sem að nokkru leyti stafa af því, að viss hluti hv. þm. hefur viljað fara allt aðrar leiðir í sambandi við lyfjasöluna heldur en m. a. landlæknir annars vegar og lyfsalar hins vegar.

Nú liggja hér fyrir tvö frv., og þegar þau eru borin saman, þá er sjáanlegt, að 1. kafli frv. á þskj. 116 er eingöngu orðaskýringar, sem ég tel að væri til bóta að yrðu teknar upp í frv., þegar það kæmi næst fram. Þessi kafli er ekki í frv. á þskj. 112, en hins vegar er 1. kafli þess um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi, sem einnig er 2. kafli á þskj. 116, og fara þeir nokkuð saman að efni til, þótt farnar séu nokkuð mismunandi leiðir. 2. kaflinn á þskj. 112 er um rekstur lyfjabúða, sem er það sama og í 3. kafla á þskj. 116 og fjallar um sama efni. Þá er 3. kaflinn á þskj. 112 um lyfjaverzlun, en 4. kaflinn á þskj. 116 er um lyfjagerð og lyfjaverzlun og fjalla þeir einnig um sama efni. Svo kemur 4. kafli í fyrra frv. um sérlyf, sem er 5. kaflinn í síðara frv. Í öllum þessum köflum eru frv. raunverulega nokkuð sammerkt, en síðan skilur á milli, því að í fyrra frv. er 5. kafli um lyfjaheildsölu og næstu kaflar um efnavöruverzlanir, eftirlaun, lyf'sölusjóð, málarekstur og refsingar og loks niðurlagsákvæði, en í síðara frv. fjallar 6. kafli um ranga meðferð og flokkun lyfja og næstu kaflar um eftirlit, skaðabótaskyldu, refsiábyrgð og sviptingu réttinda, um tryggingar og loks ákvæði til bráðabirgða.

Nú er það vitanlegt, að landlæknir hefur unnið að því í samráði við milliþn. á sínum tíma að útbúa frv. á þskj. 112, en það hefur ekki tekizt að semja það þannig, að þeir aðilar, þ. e. lyfsalar, sem standa að frv. á þskj. 116, hafi getað verið sammála um þessi mál. Mér virðist því, að það beri að leggja mikla áherzlu á að ná samkomulagi um þau atriði, sem ágreiningur er um, þegar það nýja frv. verður samið, sem ríkisstj. beitir sér fyrir, og það er rétt hjá hæstv. forsrh., að það eru fáir þm., sem eru færir um að dæma um hin tæknilegu atriði, sem hér um ræðir. Hitt er svo stefnumál, hvort menn vilji hafa lyfjasöluna algerlega frjálsa, bæði smásölu og heildsölu, sem Alþ. getur gert upp við sig á sínum tíma, en æskilegt væri, þegar frv. verður samið, að hafa þetta mál í sérkafla, ef ekki í sérfrv. eins og hæstv. forsrh. benti á. Ég vil leggja áherzlu á það við hæstv. ráðh., þegar hann lætur semja þetta nýja frv., sem líklega verður gert af heilbrigðisstj. og m. a. af landlækni, að þessi atriði verði samin í samráði við þá aðila, sem standa að frv. á þskj. 116, því að það getur ekki verið deiluatriði hjá báðum þessum aðilum, hvernig eigi að ákveða um hin tæknilegu atriði í sambandi við þetta mál.

Ég vildi láta þetta koma fram á þessu stigi málsins, en mun ekki ræða hinar mismunandi stefnur frv., því að til þess mun gefast tækifæri, þegar málið verður lagt fyrir að nýju.