21.11.1950
Neðri deild: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (3118)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft þetta mál til athugunar, og eins og fram kemur í nál. hennar á þskj. 140, leggur hún til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem hún flytur till. um á þskj. 141. Um þessar breyt. er iðnn. öll sammála. En einn hv. nm., þm. V-Húnv., flytur auk þess á þskj. 153 nokkrar brtt., sem hann mun gera grein fyrir sérstaklega. — Þessar brtt., sem n. öll flytur á þskj. 141, miða allar, að ég hygg, að því að draga nokkuð úr þeim kröfum, sem gerðar eru í frv. og mætti álíta um — a. m. k. kemur málið mér þannig fyrir sjónir — að nokkuð gæti orkað um þær tvímælis út frá því heildarsjónarmiði, sem hefur verið lagt til grundvallar við samningu frv., að reyna að girða fyrir atvinnusjúkdóma og slys og auka hollustuhætti á öllum vinnustöðum. En nm. í iðnn. voru flestir á þeirri skoðun, að það væri hæpið, að hægt væri með fullum árangri að láta lögin taka til allra þeirra staða og alls þess atvinnurekstrar, sem í frv. er talinn, og á eins víðtækan hátt og þar er gert, og þess vegna væri eðlilegt að undanþiggja nokkur atriði frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég og hv. 7. þm. Reykv. höfum fallizt á þetta sjónarmið, þó að við á síðasta þingi, þar sem þetta mál líka var til umr., höfum lagt til, að frv. væri samþ. óbreytt. Þrátt fyrir okkar afstöðu þá höfum við viljað freista þess að ganga inn á þessar breyt., ef það kynni að leiða til þess, að frv. með brtt. gæti náð fram að ganga. Því að það, sem niður er fellt úr frv., er ekki að okkar dómi það mikils virði, að það gæti komið beinlínis að skaða eða dregið svo verulega úr gildi frv., að það væri ekki betur samþ. með þeim breyt. en ekki. En þessar breyt., sem ég nú skal gera lítils háttar grein fyrir, eru taldar allar á þskj. 141. — Þar er 1. brtt. við 1. gr. frv., þar sem talið er upp það, sem undanþegið er ákvæðum þessara laga, og eru þar talin í frv. þrenns konar störf, sem lögin ná ekki til, þ. e. siglingar, sem um gilda sérstakar reglur, og loftferðir og sömuleiðis vinna í einkaíbúð vinnuveitanda, enda sé um algeng heimilisstörf að ræða. Þarna leggur n. til, að komi nýr liður, svo hljóðandi: „Allur almennur búrekstur.“ M. ö. o., að allur slíkur almennur búrekstur sé undanþeginn ákvæðum laga þessara. Ef aftur á móti um sérstakan búrekstur er að ræða, þar sem notaðar eru sérstakar vélar eða tæki, þá kemur það til greina, þannig að l. ná yfir það. — Síðan er b-liður 1. brtt. einnig við 1. gr., umorðun á niðurlagi gr., og þar er lagt til, að niðurlag gr. verði orðað svo: „Ráðherra getur þó, í samráði við öryggismálastjóra, mælt svo fyrir í reglugerð, að vélar og önnur áhöld og mannvirki, sem lög þessi ná ekki til, en ætla má, að sérstök hætta geti stafað af, skuli vera háð því eftirliti, er lög þessi mæla fyrir um.“ M. ö. o., því er bætt inn í þarna, að því aðeins skuli þessi áhöld og vélar, sem lögin ná ekki annars til, vera háð ákvæðum l. — þannig að það er lagt á vald ráðh. að ákveða svo — að ætla megi, að hætta geti af þeim stafað.

2. brtt. er við 3. gr. frv. Þar er lagt til í fyrsta lagi, að aftan við fyrstu málsgr. gr. bætist þessi ákvæði: „Ef notuð eru í fyrirtækinu efni, efnasambönd eða lofttegundir, sem hættuleg teljast heilsu manna, skal fylgja um þau skrá frá trúnaðarlækni öryggiseftirlitsins.“ En í þessari málsgr. er frá því greint, hvernig tilkynna skuli öryggiseftirlitinu um starfrækslu fyrirtækisins, og til þess að sú upptalning verði fyllri, er þessari brtt. bætt við. Ákvæði þessarar brtt. eru nú flutt hér samkv. ábendingu frá borgarlækninum í Reykjavík. — Síðari hluti 2. brtt., sem einnig er við 3. gr., varðar niðurlag gr., en niðurlag núverandi 3. gr. frv. er svo: „Eigandi farandvélar skal tilkynna öryggiseftirlitinu, hvar vélin er í notkun á hverjum tíma.“ Þetta hafa eigendur og umráðamenn farandvéla, bæði vegamálastjóri og aðrir, talið ókleift að framkvæma, þar sem þessar vélar væru oft færðar daglega til og stundum jafnvel oft á dag hver vél. En í stað þessa ákvæðis frv. leggur n. til, að þessi málsgr. orðist svo: „Eigandi farandvélar skal tilkynna hana öryggiseftirlitinu, og þegar þess er óskað, láta því í té upplýsingar um, hvar vélin er í notkun.“ M. ö. o., þegar öryggismálastjóri vill vita, hvar vélin er, þá skal greina honum frá því, en ekki tilkynna að öðru leyti, hvar hún er á hverjum tíma, enda mundi slíkt ógerlegt vegna tíðra tilflutninga á þessum vélum.

Næsta brtt. er við 6. gr. frv. Þar er lagt til, að niðurlag 2. málsgr. orðist eins og þar segir. Það er nánast orðalagsbreyt., en þó að því leyti efnisbreyt., að þegar um lagfæringu er að ræða á einhverju, sem aflaga hefur farið á vinnutækjum, þá skuli þetta gert í samráði við yfirmann fyrirtækisins. — Í öðru lagi er lagt til, að sú breyt. verði gerð á fyrri málsl. 3. málsgr. 6. gr. frv., sem er svo í frv.: „Verði verkamaður fyrir slysi við vinnu sína, ber honum að tilkynna það yfirmanni sínum svo fljótt sem verða má,“ — að þessi málsgr. orðist svo: „Verði verkamaður fyrir slysi við vinnu sína, eða fái atvinnusjúkdóm ....“ o. s. frv. Þarna er orðunum „eða fái atvinnusjúkdóm“ bætt inn í samkv. ábendingu frá borgarlækninum í Reykjavík. — Enn er svo brtt. við þessa gr., að ekki megi taka upp þá vinnu á ný, sem slys hefur orðið við eða sjúkdómur vegna einhvers, sem aflaga hefur farið, fyrr en það hefur verið lagfært, sem kann að hafa verið í ólagi. Það er nú nánast orðalagsbreyt. og hefur verið meint þannig í frv., en þar stendur svo, að sá, sem fyrir slysi hefur orðið, megi ekki taka upp vinnu sína á ný, fyrr en það hefur verið lagfært, sem kann að hafa verið í ólagi. Hér er fært til réttara máls.

Við 9. gr. er svo brtt., sem nokkuð hefur verið rædd í n., og nefndarmenn urðu ásáttir um, að niðurlag 9. gr. skyldi orðast eins og í brtt. stendur. En þar er um að ræða reglubundna læknisskoðun verkamanna til þess að koma í veg fyrir eða hefta útbreiðslu atvinnusjúkdóma. Þegar svo stendur á eins og þar segir, er vinnuveitandi skyldur til að gefa verkamönnum frí frá störfum, án skerðingar á kaupi, til þess að læknisskoðunin fari fram. Hér er því aðeins gert skýrt, að því aðeins skuli nota þetta, að ástæða sé til að ætla, að hætta sé á sjúkdómi.

Næsta brtt. n. er við 11. gr., þar sem um er að ræða tilkynningarskyldu fyrir þá, sem starfrækja verksmiðjur eða verkstæði, og að leita skuli umsagnar öryggismálastjóra. Í brtt. n. er þetta þrengt þannig, að sagt er: „Sérhver, sem ætlar að reisa eða starfrækja meiri háttar verksmiðju ....“, og skal það nánar skilgreint í reglugerð og kemur raunar fram í b-lið þessarar brtt., sem kveður svo á, að ný málsgr. komi aftan við 1. mgr. 11. gr., þar sem segir, að ákveða skuli í reglugerð stærð verksmiðja og verkstæða, sem falla undir þetta ákvæði.

Næsta breyting er við 12. gr., sem er ein lengsta og veigamesta grein frv. Og er uppistaða hennar, hvað gera skuli í ýmsum tilfellum til hreinlætisauka og þrifnaðar. Fyrsta brtt. n. er við 6. tölulið gr., og er þar fellt niður, að hreingerningu skuli vera lokið a. m. k. 1/4 klst. áður en vinna hefst, og aðeins tekið fram, að vinnustaðir skuli vera tilhlýðilega hreinsaðir. — Næsta breyting er við 11. tölulið sömu gr., þar sem lagt er til, að aftan við liðinn skuli bætast: „Kveða skal á um það í reglugerð, við hvaða störf þessi ákvæði þessa töluliðs skuli gilda.“ En greinin fjallar um það, hvernig menn skuli vera útbúnir við vinnu, og ef sérstakur vinnufatnaður sé nauðsynlegur af heilbrigðisástæðum, megi krefjast þess af vinnuveitanda, að hann leggi hann til og annist hreinsun hans. En þetta er nokkuð takmarkað með brtt. og það gert að reglugerðarákvæði, við hvaða vinnu þetta skuli gilda. Upphafi 12. töluliðar er breytt ofurlítið, þannig að orðunum: „eftir því sem við verður komið“ er skotið þar inn í greinina. Þá er loks sú breyting á 14. tölulið, að síðari hluti hans fellur niður. Fyrri efnisliður töluliðsins fjallar um það, að verkamenn þeir, sem vinna eiga sitjandi, hafi hentuga stóla til afnota, en fellt er niður, að öðrum verkamönnum, sem vinna eiga standandi, sé einnig séð fyrir sætum, þegar þeim gefst tækifæri til hvíldar frá vinnu sinni. [Frh.]