24.11.1950
Neðri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (3129)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat þess áðan, að hv. þm. Hafnf. mundi ekki sjálfur hafa samið þetta frv. Ég gæti búizt við, að ekki væri þörf á að gera á því svo margar breytingar sem raun ber vitni, ef hann hefði samið það sjálfur.

Hv. þm. Hafnf. virðist enn vilja halda í það ákvæði, að þetta eftirlit nái einnig til sölubúða og skrifstofustarfa, þó virtist mér hann ekki telja það mjög þýðingarmikið, enda hefur reynslan sýnt, að ekki þarf eftirlit með slíkri vinnu, og í 1. brtt. á þskj. 141 er lagt til, að með reglugerð megi ákveða, að vélar og önnur áhöld, sem lög þessi ná ekki til, en ætla má að sérstök hætta geti stafað af, skuli vera háð því eftirliti, er lögin mæla fyrir um. Ég geri ráð fyrir, að þetta verði samþ., og þá er tryggt, að ef í skrifstofuhúsum eru einhver slík áhöld, sem eftirlit þarf með, þá mundi öryggismálastjóri láta líta eftir þeim, og ekkert er dregið úr örygginu á viðkomandi stöðum, þótt brtt. mín verði samþ., en samþykkt hennar mundi gera allt þetta eftirlit umfangsminna og draga úr kostnaðinum við það. Hv. þm. Hafnf. segir að vísu, að kostnaðurinn við það muni verða lítill. Ég skal ekki um það dæma, en öll þessi gjöld hljóta þó að auka rekstrarkostnað viðkomandi fyrirtækja og leggjast síðan á almenning á einn eða annan hátt.

Þá er það öryggisráðið, sem hv. þm. Hafnf. segir, að muni betur tryggja eftirlitið. Ég er hér á öðru máli og tel, að lítið gagn muni verða að ráðinu. Í það mundu veljast menn, sem hefðu þetta að aukastarfi og kæmu saman annað veifið til að skeggræða um þessi mál. Aðalatriðið er, að valdir verði hæfir og samvizkusamir menn til að vinna að eftirlitinu og að þeir hafi ekki annað starf á hendi, og það er ekki til fyrirmyndar, þegar eftirlitsmaður véla og verksmiðja var fyrir nokkru skipaður af þáv. ríkisstj. í nefnd til að sjá um byggingu síldarverksmiðja. Þessir eftirlitsmenn mega ekki hafa annað starf með höndum. Þá segir hv. þm. Hafnf., að l. um slíkt öryggisráð séu í gildi á hinum Norðurlöndunum og hafi gefizt þar vel, en ekki er þar með sagt, að það sé nauðsynlegt hér, því að þar er þessi starfsemi öll umfangsmeiri og iðnaður stórum fjölbreyttari og þarf meira eftirlit en hér, þar sem er mun minni atvinnurekstur. — Þá er það um fatnaðinn. Hv. þm. Hafnf. segir, að vinnuveitendur eigi að leggja verkamönnum til föt, aðeins þegar það sé nauðsynlegt af heilbrigðisástæðum að fá sérstakan fatnað. Þetta getur nú átt við í æði mörgum tilfellum. Við skulum taka t. d. fiskverkunarfólk í frystihúsi. Það þarf að vera sérstaklega hreinlegt til fara til þess að forðast óhreinindi í meðferð vörunnar, og mætti þá segja, að af heilbrigðisástæðum þyrfti það á sérstökum búningi að halda. Þannig gæti þetta ákvæði náð til flestra eða allra starfsmanna við sum fyrirtæki. En þetta tel ég eiga að vera samningsatriði milli vinnuveitenda og verkamanna, hvað hver leggur til af vinnufötum, en það á ekki heima í þessum l. — Þá er það viðvíkjandi húsnæðinu, sem vinnuveitendur eiga að láta verkamönnum í té. Hv. þm. Hafnf. segist telja ástæðu til þess að hafa gr. í l., þar sem það sé ákveðið, hvaða lágmarksloftrými megi vera í svefnherbergjum verkafólksins, og í þeirri gr. frv., sem um þetta fjallar, er einnig talað um visst bil milli rúma, en n. leggur til að fella þetta niður og fleira, sem ekki er ástæða til að hafa, svo sem niðurlag 1. málsgr. 13. gr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Konur skulu hafa svefnklefa sérgreinda frá svefnklefum karla.“ Þetta lítur náttúrlega nógu vel út við fyrstu sýn, en ef þetta ákvæði væri sett í l., þá er það lagabrot, ef hjón, sem vinna á sama vinnustað, sofa saman í vinnuskála, og þykir mér þetta nokkuð hart að gengið. Legg ég því til, að gr. verði umorðuð og hljóði þannig: „Eigi vinnuveitandi að sjá verkamönnum fyrir húsnæði, skal það vera nægilega rúmgott og vandað, að dómi öryggismálastjóra.“ Með þessu tel ég, að sagt sé allt, sem þarf að segja, og getum við þá sparað okkur allar vafasamar málalengingar um það frekar.

Þá er sú brtt. mín, sem hv. þm. Hafnf. telur mjög varhugaverða, en hún er um það að fella niður kaflann um lágmarkshvíldartíma. Ég verð nú að segja, að ég er dálítið undrandi yfir því, að þeir, sem helzt telja sig málsvara hins vinnandi fólks, skuli vilja setja hér inn ákvæði um 8 stunda lágmarkshvíld eftir allt það, sem búið er að tala um 12 stunda hvíld togarasjómanna og núverandi 16 stunda þrældóm. Auk þess eru í þessum kafla vafasöm atriði, eins og það, að ráðh. geti með reglugerð ákveðið hvíldartímann handa mönnum. Ég held, að þetta eigi að vera almennt samningsatriði, og það er mjög óviðkunnanlegt að gefa einum ráðh. vald til að ákveða þetta með einu pennastriki, og yfirleitt tel ég, að þessi kafli eigi niður að falla. Það er vafalaust rétt, að slys geta af því hlotizt, ef menn þreytast um of við vinnu, t. d. við að stjórna vélum og farartækjum, en yfirleitt held ég, að menn séu ekki óhóflega lengi við slík störf, og varhugavert er að setja um þetta allt of einstrengingsleg ákvæði, svo sem um bifreiðarstjóra. Það er auðvitað fullkomlega nóg verk að aka bifreið 12 tíma, en það geta komið fyrir þau atvik, að tæpast sé hægt að framfylgja l., ef þau verða eins og hv. þm. Hafnf. ætlast til. Til er hlutafélagið Norðurleið, svo að eitthvert dæmi sé tekið, sem annast fólksflutninga milli Reykjavíkur og Akureyrar. Nú hagar svo til, að farið er á einum degi milli þessara höfuðstaða sunnan og norðan lands. Ég veit ekki, hver hvíldartími bifreiðarstjóranna er milli ferða, en hann er sjálfsagt sómasamlegur. Nú tekur þessi ferð æði langan tíma, og þótt venjulega sé henni lokið á 12 tímum, þá geta komið fyrir tafir, svo sem af bílunum, svo að ferðin taki lítið eitt lengri tíma, og sýnist mér þá varhugavert að hafa þetta svo, að það sé skýlaust lagabrot, ef bílstjórinn ekur ½–1 klukkustund fram yfir tímann, svo að hann að 12 tímum loknum yrði að hætta, en annar bílstjóri þyrfti að vera með í ferðinni til að vera til taks í slíkum tilfellum. Ég geri ekki lítið úr nauðsyn þess, að slíkir menn ofþreyti sig ekki, en það er varhugavert að hafa um þetta allt of einstrengingsleg lagafyrirmæli, og sumt í þessum kafla er þess eðlis, að Alþingi á ekki að setja um það l., heldur á það að vera samningsatriði viðkomandi aðila.