24.11.1950
Neðri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (3131)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Rétt er það, að við hv. þm. Hafnf. höfum fáa áheyrendur, en ég læt því ekki ómótmælt, að skv. mínum till. eigi að hrúga saman í kytrur svo og svo mörgu fólki. Samkv. till. minni skal húsnæðið vera nægilega rúmgott og vandað, að dómi öryggismálastjóra. Ég tel óþægilegt að setja um þetta fast takmark, en ef öryggismálastjóri er starfi sínu vaxinn, þá á ekkert að þurfa að óttast í þessum efnum. Í frv. var fleira um þessa hluti, svo sem um bil milli rúma, og orðalagið á því var svo vitlaust, að það gat ekki staðizt, enda er varhugavert að setja föst takmörk um slíkt og enda þýðingarlaust.

Þá er það öryggisráðið. Hv. þm. Hafnf. vill, að fyrst stjórni ráðuneytið þessu og líti eftir öryggisráðinu, síðan líti öryggisráðið eftir öryggismálastjóra, sem svo á aftur að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum. En ég held, að hægt sé að fella úr einn milliliðinn. — Annars held ég að óþarfi sé að pexa meir um þetta. En aðalatriðið er, að í þetta starf veljist hæfur maður, og ætti að vera séð fyrir því.

Um lágmarkshvíldartímann er það að segja, að ég held, að yfirleitt sé vinnubrögðum hagað þannig, að það sé ástæðulaust að deila um það. Ég held ekki, að dæmi séu til þess nú, að verkamönnum sé skylt að vinna meira en 16 tíma. En ef verkamaður vill hins vegar vinna 17 tíma eða lengur, er það hans einkamál. — Læt ég þetta svo nægja.