08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (3147)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Brtt. á þskj. 293 eru þess eðlis, að um þær þarf ekki langar umr. Þær eru einungis til þess að lagfæra málið, eftir því sem hv. flm. segir. Í stað „starfræksla“ komi „starfsemi“. Ég get ekki um það sagt, hvort réttara er, en þetta er sjálfsagt rétt, og í sjálfu sér kemur það ekki efni málsins við. En um hinar till., á þskj. 292, þykir mér rétt að fara nokkrum orðum. Það er rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, að þær voru bornar upp á Alþýðusambandsþinginu, en ekki samþykktar, og var það aðallega af tveimur ástæðum: annars vegar af því, að það var ekki talið rétt að tefja með því skjóta afgreiðslu málsins, og svo hitt, að verulegur hluti af efni þeirra gat komið í reglugerð, sem væntanlega yrði samin við frv. Ég vil svo leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessar till. hv. þm.

1. till. felur í sér skyldu til að tilkynna öryggiseftirlitinu, hver beri ábyrgð á hverri einstakri farandvél á hverjum tíma. Þetta getur orðið nokkuð erfitt fyrir eiganda vélarinnar, að fylgjast með því, hver stjórni vélinni á hverjum tíma. Ég veit t. d. um vélar, sem eru í þjónustu vitamálastjórnarinnar og ýmsir fá um stundarsakir, að það er mjög miklum erfiðleikum bundið að vita, hverjir fari með þær í hvert skipti. — Um 2. brtt. vil ég segja það, að þar er farið inn á atriði, sem ég tel, að hæpið sé að eigi heima í þessum l., þ. e. a. s. að setja atvinnurekanda þær skyldur á herðar, að jafnan sé lærður vélstjóri til staðar. Þetta atriði tel ég eiga betur heima annars staðar og ekki eiga heima í þessum l. Viðvíkjandi seinni málsgr.: „Í fiskiðjuverum, frystihúsum og rafstöðvum skulu eingöngu vera við vélgæzlu menn, sem hafa öðlazt vélstjóraréttindi“, vil ég taka undir ummæli hv. þm. V-Húnv. um einkarafstöðvar, og í öðru lagi getur hér verið um að ræða smáar vélar, sem hreinn óþarfi er að setja þetta ákvæði inn um. Enn fremur er upptalningin alls ekki tæmandi, og á það betur heima að taka það fram annars staðar og má alltaf gera það í öðrum lögum. — 3. brtt. er þess eðlis, að ég tel það ekki skipta máli, hvort hún er samþ. eða ekki. — Þá kem ég að 4. brtt., við 11. gr. — Eins og 11. gr. er núna, verða þeir, sem ætla að reisa meiri háttar verksmiðju, að leita umsagnar öryggismálastjóra, hvort hið nýja skipulag er í samræmi við lög og reglugerð. En skv. brtt. er viðkomandi aðila heimilt að gera það eins og hann vill; hann þarf aðeins að tilkynna það öryggiseftirlitinu. Ábyrgðin er sem sé færð yfir á þann, sem byggir. Hv. flm. sagði, að með þessu væri verið að spara mönnum ómak. Má vel vera, að þetta sé rétt, að gangur málsins verði auðveldari með þessu. Þetta getur þó orðið mjög bagalegt, ef það kemur upp úr kafinu, að sá, sem byggir, hefur ekki fullnægt settum reglum, en öryggismálastjóri hefði vel mátt leiðbeina honum í þessu. Þá fer nú ómakið að verða nokkuð dýrt og tvísýnt um, hvort sparnaður hafi verið mikill. — Við 5. brtt. hef ég ekkert að athuga, hún miðar að bættu öryggi. — Við 6. brtt. hef ég heldur ekkert að athuga. — 7. brtt. er um vinnutíma bílstjóra og þá, sem vinna lengur en 12 klst. í sólarhring. Lögin eiga að fyrirbyggja, að slíkt geti orðið að staðaldri. — Þegar allt kemur til alls, verð ég að telja, að flestar þessar brtt. gætu átt heima í reglugerð. — Mér finnst mestu máli skipta 2. brtt. um vélstjóra, sem krafizt er að séu, þar sem notuð eru vélknúin tæki, og finnst mér hæpið að samþ. þessa brtt., eins og ég hef áður bent á.