16.02.1951
Efri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (3184)

109. mál, erfðalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Áður en ég svara hv. frsm. meiri hl., vil ég segja nokkur orð um það, sem kom fram hjá hv. 11. landsk. við umr. í gær og nokkuð var minnzt á af hv. 4. þm. Reykv. Hann sagði, að ekki væri rétt að koma fram með frv., sem ákveður, að féð renni til Tryggingastofnunarinnar í framtíðinni og fari í stofnun, sem ekki væri til, eins og hann orðaði það. Í þessu sambandi vil ég benda á, að á síðasta þingi var gerð breyt. á l. um drykkjumannahæli, og þar var ákveðið, að svo og svo mikill hluti af ágóðanum frá vínverzlun ríkisins skuli renna til þess að koma upp slíkri stofnun. Ég hygg, að hv. 11. landsk. hafi verið með því, að þetta var flutt, hæstv. dómsmrh. hafði mjög mikil afskipti af því máli og náði það fram að ganga á þann hátt, sem ég hef lýst. Ég veit ekki til, að þessi stofnun sé til, og ég held, að það sé ekki byrjað á að koma henni upp. En þetta var gert nokkru eftir að sams konar stofnun, hæli fyrir drykkjumenn, var lögð niður. Því á ég erfitt með að skilja, að þeir þm., sem töldu rétt og nauðsynlegt að taka stórar fjárfúlgur beint úr ríkissjóði í því skyni að koma á fót þeirri nauðsynlegu stofnun, skuli vera á móti því að koma á fót svo nauðsynlegri stofnun sem hér um ræðir, svo að af þeim ástæðum hygg ég, að hv. 11. landsk. verði ekki á móti þessu frv. — Hv. 11. landsk. sagði, að rétt væri að hækka erfðaskattinn. Ég er ekki viss um, hvort ég hef átt að skilja hann svo, að hann vildi, að allur erfðaskatturinn rynni til þessarar fyrirhuguðu stofnunar. Ef það er aðeins skoðun hv. þm., að það eigi að hækka erfðaskattinn til að gera hann að eyðslufé fyrir ríkissjóð, þá bjargar það ekki þessu máli út af fyrir sig. Ég get verið sammála um, að rétt sé að hækka skatta, en mér finnst engin ástæða til að hækka skatta til að gera það að eyðslufé fyrir ríkið. Ef aftur á móti er samkomulag um að hækka skattinn og láta hann allan renna til þess að koma upp þessari stofnun, þá er ég fullkomlega til samkomulags um það atriði. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem þarf að athuga betur áður en málið er endanlega ákveðið. — Síðan sagði hv. þm., að framfærsluskyldan væri ekki lögð á ríkissjóð, heldur gæti maður tryggt sér þennan rétt, og hv. frsm. tók undir þetta. Þetta er ekki rétt, því að ég hygg, að það sé hvorki meira né minna en 40 milljónir, sem fara úr ríkissjóði til þess að halda uppi þessu kerfi. Af 72 milljónum, sem þarf til þess að reka þessa stofnun, þá hygg ég, að um 40 milljónir fari úr ríkissjóði, svo að það er ekki þannig í dag, að hún standi sjálf undir þessu, en það mundi kannske síðar meir verka þannig, að þessi byrði færi af ríkissjóði, eftir því sem stofnunin yrði fjársterkari. En þetta er ein ástæðan til þess að gera stofnunina fjársterka. Þessi ráðstöfun, sem ég ætlast til að hér sé gerð, er til að létta þeirri byrði af ríkissjóði, sem nú hvílir á honum. Þetta sýnist mér, að hv. 11. landsk. og meiri hl. n. hafi ekki komið auga á. En það er sýnilegt, að ef Tryggingastofnunin á að geta orðið sjálfstætt vátryggingarfyrirtæki eins og hugsað er í framtíðinni, þá þarf að gera annað tveggja, að auka stórkostlega gjöld á einstaklingum og sveitarfélögum eða skapa einhverja aðra nýja tekjustofna. En þó að vonir kynnu að standa til þess, að það væri hægt að gera þetta, að innan skamms tíma lentu byrðarnar á þessum aðila, en ekki ríkissjóði, þá er einn póstur eftir, sem er útgjöld fyrir ríkissjóð í dag, það er styrkurinn til öryrkjanna í landinu, sem kemur ekki að öllu leyti frá Tryggingastofnuninni. Öryrkjaframlögin eru svo stórkostleg í dag frá ríkinu, að skiptir tugum milljóna, en ef þessari stofnun væri komið upp, þá mundi það létta stórkostlega þá byrði, því eins og ég tók fram í gær, þá er kjarni þessa máls það, að komið verði upp stofnun, þar sem hægt er að nota vinnuafl í stórum stíl, sem ekki er hægt að nota í dag. Þetta er því raunverulega fjárhagsatriði fyrir ríkið annars vegar, en stórkostleg byrði fyrir ríkið hins vegar. — Hv. þm. sagði einnig, að það væri verið að reyna að samræma erfðalög á öllum Norðurlöndunum. Ég skal ekkert segja um það. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta sé svo mikið atriði, að það eigi að hafa áhrif á þetta mál. Ég held, að það sé sáralítið atriði fyrir Íslendinga, hvort þeir hafa önnur erfðalög en hin Norðurlöndin, því eins og ég tók fram í gær, þá held ég, að okkar erfðalög eigi að byggjast á okkar aðstæðum og okkar kringumstæðum, en ekki einhverju kerfi í öðrum löndum. Ég sé því ekki, að það þurfi að hamla framgangi þessa máls. — Hv. þm. sagði, að hann héldi, að með mínu frv. mundi erfðaréttur kjörbarna hverfa. Ég sé ekki ástæðu til að tefja hv. d. með því að deila um þetta atriði. Það er áreiðanlegt, að ef svo hefur tekizt til, að ég hafi orðað 2. gr. frv. þannig, að skilja megi hana á þann veg, þá er það ekki af því, að það hafi verið tilætlunin, og þá eru það mistök, sem ég er fullkomlega til viðtals um, því að það er ekki mín meining, enda ekki viss um, að greinina betri að skilja þannig, en það er þá til athugunar, ef frv, fer til 3. umr. — Þá sagði hv. þm., að hann væri óánægður með að fella niður 28. gr. Það atriði er einnig til umr., því meðan deilt er um það, hvort rétt sé að láta mann hafa rétt til þess að gera erfðaskrá hálfdauðan eða meðvitundarlausan, eins og ætlazt er til samkvæmt 28. gr., þá er það ekkert meginatriði fyrir mig, að þetta sé sett inn. Þetta er byggt upp á brtt., sem ég gerði við erfðal. á sínum tíma, að ég áleit ekki rétt, að maður, sem er að missa meðvitund, gerði erfðaskrá, þótt einhver væri við. En þetta er atriði, sem út af fyrir sig getur ekki orðið til þess að tefja þetta mál, því að það er þá ekki verra en það, sem er í gildandi l., því að það er þannig í l. nú, að það er tekið sem fullkomið gagn, ef maður, áður en hann gefur upp öndina í óráði, getur látið heyra til sín, eins og kerlingarnar sögðu við prestana á 16. og 17. öld, að þær ætluðu að gefa þessari og þessari kirkju þetta og þetta. Ég veit, að hv. 11. landsk. er langt aftur í tímanum, en ef það getur orðið samkomulag, þá vil ég leyfa honum að dvelja nokkrar aldir aftur í tímanum, svo að það verði ekki til að skilja okkur að. — Ég held það sé ekki rétt að eyða tíma í að deila um það, hvort rétt sé, að hjón erfi hvort annað, eða hvort eigi að hafa það eins og nú er í l., það getur ekki verið meginatriði í þessu máli, en ég er með þessari breyt. að gera kjör makans betri, og um það má deila. — Hv. 11. landsk. gat þess, að við afgreiðslu fjárl. væri ekki gert ráð fyrir því fé, sem rennur til ríkissjóðs samkvæmt hinum nýju erfðalögum, þ. e. a. s. því fé, sem enginn erfingi finnst að. Ég get upplýst í sambandi við það, að það er einmitt tekið upp í áætlun, erfðafjárskatturinn er talinn saman með þeirri upphæð, í samráði við fjmrh. Þetta atriði er fært þannig hjá ríkissjóði, að þetta fé er talið með erfðafjárskattinum, og þess vegna er það ekki sett sem ný gr. á fjárl. Hæstv. fjmrh. vildi ekki láta hækka þennan lið, en hann er 300–400 þús. kr. Hitt er rétt hjá hv. 11. landsk., að það er rúm fyrir þetta í kistu ríkissjóðs og fyrir allar aðrar tekjur, sem hægt er að klófesta, en ég fer ekki frekar út í það í sambandi við þetta.

Út af ræðu hv. frsm. meiri hl. vildi ég aðeins segja þetta: Ef meðferð þingmála almennt væri þannig eins og hér er orðið með þetta mál, hvað ætli það gengju þá mörg þingmál fram? Það er fengin viðurkenning fyrir því, að það komu svör frá tveim aðilum 12.–14. des., þá er komið nærri þingfrestun, og það er ekkert við því að segja, þó að n. hafi ekki komið þessu frá þá, þó að þá væru liðnar upp undir 3 vikur frá því, að fyrirspurnirnar voru sendar út, — ég er ekki að gera neina aths. við slíka meðferð, — en þriðja umsögnin er á ferðinni 23. jan., og ég tel ófyrirgefanlegt af n. að leyfa nokkrum aðila að geyma að svara svo langan tíma og bíða eftir hans svari. Þá var n. búin að bíða eftir svari í tvo mánuði, og ég verð að segja, að ef ætti að fara þannig með þingmál almennt, þá væri ekki mikið af þeim málum afgr., sem tekin eru fyrir á Alþ. En þessi meðferð er vegna þess, að meiri hl. er persónulega á móti málinu og þykir gott að geta kastað sökinni á annan aðila. En meðferðin á málinu er óverjandi, ekki sízt vegna þess, að það er viðurkennt, að þetta er ákaflega stórt mál og stórt mál fyrir Alþ. að geta fengið tækifæri til að dæma um efnislega, en hér er ekki verið að láta Alþ. dæma um málið, heldur er því haldið hjá ákveðnum aðila og ekki kallað eftir því frá n. Þetta er því óafsakanlegra þegar vitað er, að það var fellt með 6:6 atkv. að senda þetta mál til annarrar n. Það eru m. ö. o. 6 þm. í Ed., sem vildu fá málið til annarrar n., og sannarlega bar hv. form. n. að taka fullt tillit til þess. Auk þess hef ég sjálfur kallað tvisvar sinnum eftir málinu og óskað eftir, að hæstv. forseti beitti sér fyrir því, að málið kæmi til meðferðar, og ég veit, að hæstv. forseti hefur gert það, svo að ég þykist hafa haft fulla ástæðu til þess að ásaka n. fyrir óeðlilegan og óþinglegan drátt á þessu máli, og þau orð, sem háttvirtur framsögumaður meiri hlutans hafði hér um það, að allar ásakanir væru óverðskuldaðar, get ég ekki viðurkennt. Ég segi þetta ekki eingöngu í sambandi við þetta mál, — ég tel, að það sé ekki rétt að líða þá meðferð á málum á Alþingi, að aðeins 3 menn af 52 geti svæft mál, án þess að það komi undir dóm. — Háttv. frsm. meiri hl. sagði, að hér væri um stórt mál að ræða og því væri eðlilegt, að það þyrfti langan tíma. Ég er sammála um, að þetta sé stórt mál, og ég er því líka sammála, að það þurfi mikinn undirbúning, en þessi undirbúningur hefur ekki farið fram hjá allshn., því að hún hefur ekkert gert í málinu annað en að senda það til umsagnar og gefa út nál. Hún hefur ekki einn sinni leitað álits þeirra aðila, sem ég álit að hefðu frekar átt að segja álit sitt um þetta mál en þeir aðilar, sem málið var sent til. En ég vil í sambandi við þetta spyrja hv. frsm. og form. n., af því að hv. frsm. hefur viðurkennt, að hér sé um stórt mál að ræða: Hafa m. a. þessir aðilar hvor í sínu lagi leitað umsagnar og rætt þetta mál í sinum flokkum? — Þegar um stór mál er að ræða eins og þetta mál, þá hefði ekki verið óeðlilegt, að það hefði verið minnzt á það í viðkomandi flokkum, og ég veit til þess í sambandi við önnur mál, að á nefndarfundum hefur hvað eftir annað veríð tekinn frestur í málum, þótt smærri hafi verið, til þess m. a. að ræða um þau atriði við flokkana. Ég get upplýst, að í heilbr.- og félmn. veit ég ekki betur en að sé haldið máli nú af form. heilbr.- og félmn., og það er upplýst, að það sé vegna þess, að sjálfsagt sé að ræða það mál við flokkana. Þó er það miklu smærra mál en þetta. Þess vegna vil ég spyrja hv. form. þessarar n.: Hefur hann leitað álits Framsfl. efnislega um þetta mál eða rætt það þar, eða hefur hv. frsm. meiri hl. leitað umsagnar um þetta stóra mál í Sjálfstfl.? Ég hef ekki orðið var við það. Þetta segi ég ekki af því, að mér sé ekki ljóst, að mörg mál ganga fram, án þess að rætt sé um þau í flokkunum. En þetta er mjög stórt mál og alls ekki óeðlilegt, að það sé rætt í flokknum. Þetta er sveitarstjórnarmál í hæsta máta, og slíkt er sannarlega ekki lítið atriði, hvernig létt verði af bæjar- og sveitarfélögum þeirri óskaplegu byrði, sem stafar af framfærslu öryrkja.

Hv. frsm. sagði, að ekki hefði verið ástæða til að leita umsagnar Tryggingastofnunarinnar, þar eð framkvæmdastjóri stofnunarinnar, hv. 4. þm. Reykv., ætti sæti í n. Ég skal viðurkenna, að það var af þeirri ástæðu ekki nauðsynlegt, þó að mér hefði fundizt eðlilegra að leita umsagnar tryggingaráðs, og þau orð hv. frsm., að það sé vitað fyrir fram, að engin stofnun neiti að taka á móti fé, koma þessu máli alls ekki við. Það átti ekki að leita umsagnar stofnunarinnar á því, hversu fjárins væri aflað, heldur hvernig hún liti á það atriði að koma upp öryrkjastofnun í landinu, hver þjóðfélagslegur hagnaður það væri fyrir landið að fá slíka stofnun, hver sparnaður það væri á vinnukrafti að auka tekjur þessara manna, og í hve ríkum mæli það létti byrðar þess opinbera. Um þessi atriði hefði verið vert að fá upplýsingar, og það getur verið, að forstjóri Tryggingastofnunarinnar hafi verið spurður álits, en það kemur a. m. k. hvergi fram í nál.

Þá sagði hv. frsm. n., að mín ræða hefði verið eintómt tilfinningahjal. Það er rétt, að mér er það tilfinningamál að bæta kjör þessara manna, en mér finnst það ekkert hjal, þó að rætt sé um, á hvern hátt það verði gert. Hitt er rétt, að ég bjóst ekki við, að hv. form. n. tæki þá afstöðu til þessa máls, sem raun hefur á orðið, og þetta er sannarlega ný hlið á hv. 8. þm. Reykv., sem ég býst við að komi fleirum en mér ókunnuglega fyrir sjónir, en ég veit það nú, að hennar vilji til þess að hjálpa þessu fólki nær ekki lengra en það, að ekki má rýra eignir útarfa því til hjálpar. Ég bjóst ekki við þessari afstöðu hjá hv. 8. þm. Reykv. og ekki heldur hjá hv. þm. Seyðf., en ég býst við, að afstaða þeirra stafi af því, að þau hafi aðeins litið á það, sem útarfar væru að tapa, en ekki á hitt, sem þó er meginatriði málsins, hvað veikustu þegnar þjóðfélagsins voru að vinna. — Ég sé ekki ástæðu til að svara öðru, en það er misskilningur, sem sagt var um vinnuhælið í Reykjalundi, að það væri rekið sem nokkurs konar frjálst framtak, — það er rekið sem félagsmál. og sá árangur, sem náðst hefur með rekstri þess, hefur sýnt, að það á að víkka þetta mikið. Ef það væri ekki í reglugerð um Reykjalund, að þar geti engir komizt að nema þeir, sem hafa verið berklaveikir, væri aðsókn svo mikil, að ekki væri hægt að sinna nærri öllum, því að vitað er, að fjöldi öryrkja vildi gjarnan komast á slíkt hæli, og það er einmitt að stofnun þess, sem ég vil stuðla með flutningi þessa frv.

Hv. frsm. sagði, að það væri ekki von, að þingn. geti undirbúið þetta mál, eins og til sé ætlazt. Ég viðurkenni, að n. geti ekki undirbúið lög um slíka stofnun, enda ekki til þess ætlazt eða nauðsynlegt, en það er vandalaust að tryggja stofnuninni þetta fé, og ekki ætlazt til annars með þessu frv. um breyt. á erfðalögunum. Hv. frsm. sagði, að það væri höfuðatriði málsins, að verið væri að svipta menn sjálfsögðum ráðstöfunarrétti yfir eignum sínum. Er hægt að undirstrika betur þau orð mín, að hv. frsm. hafi ekki komið auga á kjarna málsins? Ég tel það höfuðatriði, að verið er að svipta menn rétti, sem þegar er búið að svipta þá, og það undirstrikar einmitt, að mín rök eru rétt, sem ég flutti í þessu sambandi. Svo segir frsm. enn fremur, að meiri hl. n. álíti þetta frv. svo mikla fjarstæðu, að ekki komi til mála að leita fyrir sér um samkomulag við flm. Sem sagt, það er svo mikil fjarstæða að reyna að bæta hag þessara manna, að reyna að undirbúa slíka stofnun, að reyna að létta af ríkissjóði þeirri óskaplegu byrði, sem af þessum málum stafar, að ekki kemur til mála að leita eftir neinni samkomulagsleið við flm. Þetta er dómur meiri hl. n. og hv. frsm. hennar.

Ég gerði hér fyrirspurn, hvort ekki væri viðlit að ná samkomulagi um annað en fella frv. allt, og hv. 4. þm. Reykv. minntist á það líka, en mér er ekki svarað með öðru en svívirðingum um það, að málið sé svo mikil fjarstæða, að ekki sé hægt að tala við mig um það. Ég vil þó gera aðra tilraun og vita, hvort hún fer á sama hátt. Er útilokað að fá umræðu frestað og reyna samkomulag, þótt ekki væri meir en svo, að 11., 12. og 13. gr. fengju að standa? Ég vil reyna þetta, vegna þess að fyrir mér er það meginatriði, að grundvöllurinn fyrir slíkri stofnun verði lagður. Ef þetta fæst, þá er það stór áfangi að því marki, sem ég veit að næst, því að þetta er áreiðanlega ekki í síðasta skipti, sem þetta mál kemur fyrir þingið. Ég get upplýst, að Tryggingastofnunin eða tryggingaráð hefur um þetta efni leitað álits þess manns, sem mesta reynslu hefur hér á landi um rekstur slíkrar stofnunar, þ. e. Odds læknis í Reykjalundi, og hefur hann lagt mikla vinnu í að athuga það, hvernig hægt sé að byggja upp stofnun fyrir aðra öryrkja en þá, sem komast að Reykjalundi. Ég veit að það er mikið fylgi fyrir því hér á hv. Alþingi að hjálpa þessum mönnum, og þó að meiri hl. hv. allshn. hafi tekið aðra afstöðu, þá er það ekki gert af öðru en því, að hann hefur ekki athugað, hvað er meginatriði málsins. Svo framarlega sem hægt er að fá samkomulag um það, að 11., 12. og 13. gr. fái að standa, þá er mörkuð stefnan, og hv. Alþingi gerir þá síðar upp við sig, hvaða leiðir séu heppilegastar til fjáröflunar handa slíkri stofnun, hvort heppilegra sé að skerða að einhverju leyti rétt útarfa til erfðafjár eða að greiða kostnaðinn beint úr ríkissjóði. Því fyndist mér réttast, að umræðu væri nú frestað, kallaður saman fundur í hv. allshn. og fengið samkomulag um, að 11., 12. og 13. gr. fengju að standa, og síðan safnað um það meiri hl. í hv. deild. Ég teldi það mestan sóma hv. Alþingis eins og málum nú er komið.