19.10.1950
Neðri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (3384)

14. mál, gengisskráning o.fl.

Ólafur Björnsson:

Ég býst ekki við, að ég muni eiga sæti á þingi, þegar þetta mál verður afgr., og sé ekki að því leyti ástæðu til að taka til máls. En eins og hv. þm. er kunnugt, þá var ég talsvert við riðinn sögu þessa máls og get því ekki látið hjá líða að minnast nokkrum orðum á það, sem hefur ekki komið nægilega skýrt fram í umr., en gæti varpað nokkru ljósi yfir þetta mál. Fyrsta atriðið er þetta, að mér finnst varla hafa komið nægilega skýrt fram í umr. um þetta mál, hvað vísitalan er orðin ákaflega ónákvæmur mælikvarði á kaupgjald. Venjulega er það, þegar menn hugsa sér að gera sér grein fyrir, hvað mikil kjaraskerðing verði, ef ekki er greidd full vísitöluuppbót, þá segja menn sem svo, að vísitala framfærslukostnaðarins skapi vísitölu kaupgjaldsins. Ef framfærsluvísitalan væri rétt, þá væri þetta hægt. En skilyrðið er alltaf það, að þær vörur, sem inn í vísitöluna ganga, séu nægar í framboði, svo að hægt sé að kaupa ótakmarkað magn af þeim. En sé því skilyrði ekki fullnægt, þá verður þessi útreikningur alveg óábyggilegur. Þetta kom fram í álitsgerð Bandalags starfsmanna ríkis og bæja s. l. sumar, en menn vildu þó reikna með vísitölunni, af því að það væri ekki í annað hús að venda, en máli mínu til skýringar vil ég benda á, að ef einhver vara er ófáanleg, hefur hún enga raunverulega þýðingu, með hvaða verði sem hún er reiknuð í vísitölunni.

Annað er aðalatriði í sambandi við þetta mál, ef maður lítur aðeins á það frá hagsmunasjónarmiði launþega, og á þeim grundvelli mun ég ræða málið nú, en það er samt vitanlegt, þó að hagsmunir launþega séu mikils verðir, þá ber að taka tillit til fleiri sjónarmiða en þeirra eingöngu. En þó að maður líti á það eingöngu frá sjónarmiði launþega, þá verður spurningin. eins og hv. flm. tók réttilega fram, að hve miklu leyti launþegar taka kauphækkunina hver af öðrum. Undir því er það komið, hvort þessar almennu kauphækkanir koma þeim að nokkru gagni. Í álitsgerð þeirri, sem fylgdi gengislækkunarfrv., var reiknað með, að launþegar tækju um 60% af kauphækkunum hver af öðrum, en héldu eftir um 40%, sem gert var ráð fyrir, að þeir tækju af útgerðinni. Ég álít, að í álitsgerðinni hafi mátt ganga út frá þessu, eða a. m. k. að það hafi verið í samræmi við þær forsendur, sem útreikningar þessa frv. voru byggðir á. Gengislækkunin var áætluð það rífleg, að það var talið, að útgerðin mundi geta borið þessar kauphækkanir, sem urðu. En það er gefið mál, að séu þessar forsendur ekki fyrir hendi, — og því miður mun það vera tilfellið, — þá er ekki heldur um það að ræða, að launþegar geti tekið kauphækkanirnar af útgerðinni. En hvað þetta atriði snerti, þá voru niðurstöðurnar í álitsgerð fulltrúa Alþýðusambands Íslands og BSRB miklu óhagstæðari kauphækkunum en útreikningar okkar Benjamíns höfðu verið. Þær niðurstöður voru á þá leið, að launþegar tækju allar kauphækkanirnar hver af öðrum eða meira til, svo að árangurinn yrði neikvæður.

Hv. flm. þessa frv. reiknar með því, að það mundi verða um 2/3 eða 3/4 af kauphækkunum, sem launþegar tækju hver af öðrum, svo að ef kauphækkanirnar væru um 8 vísitölustig, sem varla verður samkvæmt þessu frv.. þá munu það verða 2 stig þar af, sem launþegar héldu eftir, en þá verður það stórt spursmál, hvort það verður einu sinni svo mikið, hvort það eru möguleikar á; að þeir haldi þessu eftir. Þetta er það atriði, sem máli skiptir. Það er athugandi mál, hvort ekki má gera sérstakar ráðstafanir til þess, að launþegar héldu einhverju eftir af þessu, en í frv. er ekki bent á neinar slíkar ráðstafanir.

Það hefur verið mikið rætt um það, að gengislækkunin hafi ekki náð tilgangi sínum og fram eftir þeim götunum. Mér finnst satt að segja, að við, sem unnum að undirbúningi þessara laga, höfum ekki gert ráð fyrir, að áhrifin yrðu að fullu komin fram eftir þann tíma, sem nú er liðinn frá því, að þessi l. voru sett. Vitanlega er það svo með allar ráðstafanir í efnahagsmálum, að þær eru miðaðar við að leysa þau vandamál, sem fyrir hendi eru á þeim tíma, sem þessar ráðstafanir eru gerðar. Það er ekki hægt að benda á neinar ráðstafanir, sem leysa öll vandamál, sem fyrir hendi eru, og einnig þau, sem síðar koma á döfina. En það er nú eins og oftar, að það koma ný vandamál, sem verður að leysa með nýjum úrræðum. Og það verður því miður að telja líklegt, að til einhverra nýrra úrræða verði að grípa, jafnvel á þessum vetri, vegna útgerðarinnar. En þrátt fyrir það stendur það fast, að gengislækkunin var óhjákvæmileg, og þrátt fyrir allt hefur hún verið mikilsvert spor í áttina til að leiðrétta það misræmi, sem var milli verðlags innan lands og erlendis.

Þá eru ástæðurnar til þess, að verðhækkanir urðu meiri en gert var ráð fyrir í álitsgerð okkar dr. Benjamíns Eiríkssonar. Ég skal ekki fjölyrða um það atriði, en það er margt, sem kemur til greina. Ég rengi ekki þær upplýsingar, sem hv. flm. kom með í þessu efni, að hinar útlendu verðhækkanir hefðu ekki skipt svo miklu máli. En annað atriði má líka benda á, sem er að nokkru leyti skýring þess, að verðhækkanirnar urðu raunverulega meiri en við gerðum ráð fyrir, en það er það, að áhrif gömlu gengislækkunarinnar frá því í september 1949 voru ekki að öllu leyti komin fram, þegar frv. varð að l. Það er nefnt í álitsgerð Alþýðusambandsins, hvað mikið það muni vera, og er það talið 1½ stig. Það kom einnig fram í álitsgerð Alþýðusambands Íslands og frá BSRB, að verðhækkunin mundi verða meiri en við gerðum ráð fyrir, og var ástæðan sú, að við hefðum byggt þessa útreikninga á grundvellinum frá 1941, en komið hefði í ljós, er hann hefði verið reiknaður upp af Jónasi Haralz og Kristni Gunnarssyni, að það leiddi ekki til réttrar niðurstöðu, að á honum væri byggt, þannig að þetta eru þau atriði, sem þar skipta mestu máli, en hvort verðhækkunin er 3 eða 4% meiri eða minni, hefur ekki úrslitaþýðingu fyrir það, hvort gengislækkunin nær sínum árangri. Hins vegar hefur þetta þýðingu fyrir hitt, hvað miklu launþegarnir halda eftir af þeirri uppbót, sem þeim er ætluð. Ég geri ráð fyrir, að 10–15 stig gæti útgerðin borið, en hvað það fer fram úr því að óbreyttum öðrum ástæðum, þá geri ég ráð fyrir, að meginhlutann af því tækju launþegarnir hverjir af öðrum.

Að lokum má benda á eitt atriði, sem hefur þýðingu fyrir þetta mál, en það er þetta, að það virðist ákaflega ólíklegt, að hin útlenda nauðsynjavara hafi svo mikla þýðingu, að verðhækkun af hennar völdum geti numið 23 stigum. Það má í því sambandi benda á þá athyglisverðu niðurstöðu, sem hagfræðingarnir, sem stóðu að álitsgerðinni, komust að. Þeir gerðu samanburð á, hvað útlendu vörurnar væru þýðingarmikill liður annars vegar og hvað fob-verð væri þýðingarmikill liður í þjóðartekjunum hins vegar. Niðurstaðan varð sú, að útlenda varan væri 22% af þeim útgjöldum, sem reiknað er með í vísitölunni, en fob-verð útlendu vörunnar væri 8% af þjóðartekjunum, og virðist þessi niðurstaða óneitanlega benda á, að vísitalan getur ekki til kynna hina raunverulegu verðhækkun af völdum gengislækkunarinnar. Hins vegar var gert ráð fyrir því, að þær verðhækkanir, sem stöfuðu af kauphækkunum bænda, yrðu ekki bættar upp, en ég tel, að launþegum væri lítill hagur í, þó að slík ákvæði væru ekki sett, því að það er gefið mál, að kauphækkanir ýttu sjálfkrafa upp verðinu á landbúnaðarvörunum, og yrðu launþegar ekki miklu bættari, þó að þeirri víxlskrúfu yrði haldið áfram.