23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (3491)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Síðan þetta frv. um Iðnaðarbanka Íslands var til 2. umr. hér í þessari hv. deild, hefur málið verið rætt í iðnn., og enn fremur hef ég sem form. n. átt viðræður um það við hæstv. iðnmrh. og bankamrh. Afstaða n. til málsins er óbreytt frá því sem áður, þannig að meiri hl. mælir með því, að frv. nái fram að ganga, en minni hl. hefur aðra afstöðu, eins og hv. þm. V-Húnv. hefur nú lýst yfir í ræðu sinni. Ég hef áður gert grein fyrir nauðsyn þessa máls, og enn fremur hefur hv. þm. Hafnf. gert því glögg skil. Ég tel því ekki ástæðu til að bæta þar nokkru við núna. En það eru tvö atriði úr ræðu hv. þm. V-Húnv., sem ég tel nauðsynlegt að minnast lítillega á. Hann minntist á, að í nýlegum skýrslum frá Landsbankanum væru þær upplýsingar gefnar, að lán til iðnaðarins væru nú um 80 millj. króna, þótt frá séu talin lán til síldarverksmiðja ríkisins og hraðfrystihúsanna. Ég vil benda á það, að þessi tala segir okkur raunar ekkert. Til þess að fá að vita, hvað hún raunverulega þýðir, þurfum við að hafa samanburð, eitthvað til að miða hana við. Í fyrsta lagi gætum við spurt í þessu sambandi, hve útistandandi lán í landbúnaðinum væru mikil og hve mikil í sjávarútveginum. Í öðru lagi þyrftum við að vita, hve lánsfjárþörf iðnaðarins væri mikil, til þess að geta dæmt nokkuð um þessa upphæð. Og miðað við hinn gífurlega stofnkostnað og rekstrarkostnað iðnfyrirtækja hér á landi, þá ætla ég, að þessar 80 millj. séu mjög lág upphæð.

En um þetta er auðvitað tilgangslaust að þrátta hér, nema við höfum einhverjar tölur til að miða við.

Þá gat hv. þm. V-Húnv. þess, að við flm. frv. hefðum strax í upphafi ekki gert ráð fyrir því, að málið næði fram að ganga á þessu þingi. Hv. þm. hefur áður, við 1. umr. málsins, látið slík ummæli sem þessi falla, og ég sé ekki, hver tilgangur hans er með því að endurtaka slíkt fleipur nú. Það var tekið fram í nóvember, er frv. var flutt, að málið lægi þannig fyrir, að líkur væru fyrir því, að þingi yrði lokið fyrir jól, og því voru flm. þá í nokkrum vafa um það, hvort það næði fram að ganga á þessu þingi. Þegar nú var ákveðið, að þingið héldi áfram eftir nýár, breyttist þetta að sjálfsögðu, og ég ætla, að allir flm. vilji, að frv. nái nú fram að ganga. Það er því algerlega úr lausu lofti gripið, er hv. þm. V-Húnv. heldur því fram, að enginn hugur standi á bak við þetta frv. nú. Ég þarf raunar ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég hef áður gert grein fyrir brýnni nauðsyn þess og bent á, að hér væri um sérstakt mál að ræða, þar sem atvinnuvegur sá, sem í hlut á, býður fram framlag, sem nemur millj. króna, til stofnunar bankans. Ætla ég, að slíkt hafi ekki verið gert, hvorki af landbúnaðinum né sjávarútveginum, þegar Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn voru stofnaðir, og segi ég þetta ekki til að niðra þeim atvinnuvegum á nokkurn hátt. Að lokum vildi ég svo árétta það, að meiri hl. iðnn. leggur ákveðið til, að málið nái fram að ganga á þessu þingi.