26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (3504)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera ráð fyrir, að málinu verði vísað til n. — Í þessu frv. er farið inn á nýjar leiðir. Ég er sannfærður um nauðsyn þessa máls og tel, að frv. eigi fyllsta rétt á sér, og vona því, að það fái skjóta afgreiðslu. Þarna eru farnar nýjar leiðir. Ríkissjóður leggur fram 2½ millj. kr., en aðrir aðilar 3½ millj. kr. Ég vil beina því til n., hvort ekki væri hægt að færa þetta í annað form og tryggja ríkinu yfirráðin yfir bankanum. Ríkið á tvo bankana alveg og meiri hluta í Útvegsbankanum h/f. Til þess, að allir bankarnir séu undir opinberum yfirráðum, tel ég rétt, að sama gildi um þennan banka, þó að féð sé að nokkru leyti lagt fram af einstaklingum. Ég tel réttara, að þeir verði ekki látnir hafa yfirráðin.