26.01.1951
Neðri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (3559)

158. mál, Akademía Íslands

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hér á Alþingi hefur nýlega verið talsvert rætt um mál, sem þjóðin lítur á sem eitt af stórmálum sínum, en það er endurheimt íslenzkra fornhandrita frá Dönum. Þjóðin lítur á þetta sem eitt af stórmálum sínum, vegna þess að hún telur handritin dýrmætan arf, sem henni hafi verið trúað fyrir, og sá arfur hefur verið einn höfuðþátturinn í menningarlífi hennar í 7–8 aldir. Þó á þjóðin annan arf miklu dýrmætari, en hann er tungan. Hún er eitt af merkilegustu tungumálum veraldar og hefur verið undirstaða rökréttrar hugsunar í landinu frá landnámstíð og sá Mímisbrunnur, sem hélt við manndómi hennar, er niðurlæging hennar var sárust. Tungan og handritin verða varla í sundur skilin, svo náið samband er með þeim. Tungunni hnignar, og hún missir mátt sinn, er tómlætið fer að grípa um sig gagnvart hinum fornu handritum og tekið er að flytja bækurnar úr landi, enda þótt tungan hljómi stundum hrein og fögur á niðurlægingartímanum, eins og hjá Stefáni Ólafssyni. Fjölnismönnum eigum við svo að þakka viðreisn hennar og hreinsun, sem hún býr að nú.

En þess er ekki að dyljast, að íslenzk tunga er í meiri hættu nú en fyrr, ekki sízt vegna þeirrar kvaðar, sem á hana er lögð til að verða alhliða og hæf nútímatunga; og hættan er sú, að hún fjarlægist af þessum sökum sinn forna stofn, erfðir sínar og eðli. Inn í málið flýtur mikill fjöldi orða af annarlegum rótum, sem fara illa og eru þar til skaða og skapraunar. Má t. d. benda á, að málvöndun á dagblöðum er svo lítil að af því stafar tungunni hreinn voði, ef ekki er gripið í taumana frekar en nú er gert.

Stofnun Akademíu Íslands er ætlað að bægja frá þeirri hættu, sem tungunni er nú búin, með því að fá hæfustu menn þjóðarinnar til að vinna markvisst að verndun hennar. Aðrar þjóðir hafa komið auga á nauðsyn slíkrar varðstöðu um tungur sínar. Af slíkum stofnunum eru kunnastar sænska akademían, sem stofnuð er 1786 og er skipuð 18 mönnum, og frakkneska akademían, stofnuð 1816 og skipuð 40 mönnum. Höfuðverkefni þessara stofnana er að vernda og fegra móðurmál hlutaðeigandi þjóða. — Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að Akademía Íslands verði skipuð 12 mönnum, og hlutverk hennar á að vera, eins og fram kemur í 3. gr., að hafa forustu um allt það, sem varðar rækt íslenzkrar tungu, stuðlað getur að því að varðveita stofn hennar lifandi og óspilltan og auðga hana, eftir því sem þarfir krefja, í samræmi við erfðir hennar og eðli. — Eins og sjá má á bréfi háskólaráðs, er frv. fylgir, þá bendir það á ákveðnar leiðir, sem það telur að beri að fara til að vinna að þessu hlutverki. Út í það skal ég ekki nánar fara. Ég tel einnig óþarft að fara mörgum orðum um uppbyggingu stofnunarinnar, en hún er svipuð og hinna sænsku og frakknesku stofnana, er svipuðu hlutverki gegna. — E. t. v. má deila um það aldurstakmark, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég hygg það sé svo í hinum tveimur erlendu stofnunum, sem um er að ræða, að menn eigi þar sæti ævilangt, nema þeim sé vikið þaðan fyrir vissar sakir. En það vakir ekki fyrir mér, að þetta verði eingöngu heiðursstofnun, heldur jafnframt lifandi stofnun og trú því hlutverki, sem hún á að rækja. Og það gæti svo farið, að slík stofnun yrði um eitthvert skeið skipuð mönnum, sem mjög væru hnignir á aldur, t. d. á milli sjötugs og níræðs, og þannig vanmegnug að gegna hlutverki sínu. Því þótti mér rétt að setja þetta ákvæði um aldurshámarkið.

Þá skal ég lítils háttar minnast á nafnið. Ég er ekki viss um, nema sumum kunni þar að sýnast annað betra og vildu t. d. heldur, að nafnið væri haft í hvorugkyni. En ég tók þetta eftir uppástungu Jóns Helgasonar prófessors í Kaupmannahöfn og hef síðan talað við ýmsa fræðimenn íslenzkrar tungu um þetta, og þeir telja heppilegra, að nafnið sé haft í kvenkyni, þar sem hvorugkynsmyndin færi illa í málinu. Að öðru leyti er ekkert við það að athuga að taka upp þetta nafn eins og ýmis erlend orð önnur, sem vel samræmast eðli málsins.

Það, sem menn verða líklega sízt ásáttir um, er það, hvort greiða eigi hin ákveðnu heiðurslaun. Margir hafa talað um það, að hér væri verið að stofna 12 ný embætti á tímum, þegar annars þætti nauðsyn að fækka slíkum embættum. Sú fjárhæð, sem hér um ræðir, svarar þó aðeins til launa þriggja embættismanna, og ég verð að segja, að ég hef ekki talið sjálfan mig lausari á fé ríkissjóðs en almennt gerist, en mundi þó glaður vilja greiða slíka upphæð hvenær sem væri til varðveizlu íslenzkrar tungu. — Að svo mæltu vil ég leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.