26.01.1951
Neðri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (3561)

158. mál, Akademía Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í frv. þessu er lagt til, að sett verði á fót ný stofnun í þjóðfélaginu, sem mér skilst á frv. og grg., sem því fylgir, að eigi að hafa það verkefni fyrst og fremst að vaka yfir þróun íslenzkrar tungu, eins og hér segir fremst í grg. Það er á það bent í grg., að það sé einmitt nú sérstök ástæða til þess að standa vel á verði um tungu þjóðarinnar, vegna þess að það steðji að henni hættur, jafnvel meiri en áður fyrr, og skal það ekki dregið í efa, að mikil þörf sé á því að standa á verði á þessu sviði, en einmitt það, að þannig er komið nú, finnst mér umhugsunarvert. Nú á þessu ári er gert ráð fyrir því að verja úr ríkissjóði um 40 milljónum króna til kennslumála. Það er einnig gert ráð fyrir því að verja á þessu ári úr ríkissjóði 7–8 milljónum til vísinda, bókmennta og lista, eins og það mun vera kallað, samkvæmt 15. gr. fjárl. Vantar lítið á, að 1/5 hluti af áætluðum útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári fari til kennslumála og annarra menningarmála, og kann vel að vera, að það séu líka á öðrum gr. fjárl. einhverjar fjárveitingar, sem mætti telja að færu til einhvers konar menningarmála. Því er ekki að neita, að mjög er rætt um það meðal þjóðarinnar, hvort þessar miklu fórnir, sem þjóðin leggur á sig til fræðslu- og, menningarmála, gefi þá uppskeru, sem sé eðlileg í hlutfalli við framlögin, og einmitt þetta, sem bent er á hér í grg. þessa frv., um það, hvernig nú sé komið um íslenzka tungu, hverjar hættur steðji að henni, bendir til þess ótvírætt, að hér sé þrátt fyrir alla skólana og alla menningarviðleitni eitthvað að, að eitthvað muni vanta í þetta allt saman, til þess að árangurinn verði eins og hann ætti að vera, eitthvað í hlutfalli við framlög þjóðarinnar til þessara mála. Ég tel það sjálfsagt að greiða atkv. með því, að þetta frv. fari til 2. umr. og n., eins og till. er komin fram um, en ég vildi aðeins vekja athygli á þessu áður en málið fer til n., og ég vil benda n., sem fær þetta til athugunar, sem verður menntmn., á það, að athuga vel, hvort þetta, sem hér er á ferðinni, muni vera líklegt til þess að ráða bót á því, sem þarf að lagfæra í þessum efnum. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðh., að sú fjárupphæð, sem gert er ráð fyrir að fari til að launa þessa 12 menn, sem ætlað er að sitja í þessari stofnun, — hvort sem hún fær kvenkyns- eða hvorugkynsheiti og hvort sem hún ber það nafn, sem hér er stungið upp á, eða eitthvað annað íslenzkulegra, — hún er ekki, miðað við ríkisgjöldin í heild, svo há, að ástæða sé til að sjá eftir því, ef verulegt gagn yrði að þessari stofnun. Það er gert ráð fyrir því hér, að þeir, sem eitt sinn eru valdir í þessa stofnun, eigi þar sæti til 75 ára aldurs. Má þá búast við því, að sumir þeir, sem þar sitja, verði þar um mörg ár, og þá ekki hægt að koma þar við breytingum nema mjög takmarkað. Nú mætti hugsa sér það, að fram kæmu á sjónarsviðið menn, sem væru framúrskarandi að áhuga og þekkingu, t. d. á okkar tungu og bókmenntum, en vegna þessa ákvæðis ættu þess ekki kost að komast inn í þessa stofnun og láta áhrifa sinna gæta þar. Á þetta vildi ég aðeins benda. Ég vil einnig minna á, að nú eru ákaflega margir menn í þjóðfélaginu, sem eru fastlaunaðir af ríkisfé, og sæmilega launaðir miðað við tekjur almennings, einmitt til þess að annast uppfræðslu þjóðarinnar og þá einnig móðurmálskennslu og fræðslu á öðrum sviðum. Samkvæmt okkar fræðslulöggjöf eru börn tekin í skóla skömmu eftir að þau eru skroppin inn í þessa veröld og haldið þar í áratug, um það bil a. m. k., og þar við bætist margra ára nám hjá þeim, sem fara í æðri skóla. Hér vantar því ekki menntastofnanir, og eins og ég hef sagt, þá er mikill fjöldi kennara við alla þessa skóla, og hvernig væri að taka það til athugunar að fela þessum kennurum, og sérstaklega þeim mörgu mönnum, sem nú eru á launum hjá ríkinu til þess að kenna íslenzkt mál og annað á því sviði, eins og hv. 3. landsk. minntist á, — hvernig væri að fela þessum mönnum að hafa samráð sín á milli einmitt um þetta, sem hér er nefnt í þessu frv., hvaða nýyrði ætti að taka upp í íslenzkt mál og hvað bæri að varast af því, sem rekið hefur á fjörur okkar af útlendum orðatiltækjum nú að undanförnu? Það eru áreiðanlega í hópi barnakennara menn, sem færir eru á þessu sviði og hafa góða þekkingu á íslenzkri tungu, og síðan taka við hinir æðri skólar, gagnfræðaskólar, sem vafalaust hafa í sinni þjónustu marga færa menn á þessu sviði, að ég ekki tali um menntaskólana og sjálfan háskólann, þar sem, eins og hv. 3. landsk. minntist á, eru 7 prófessorar í heimspekideild og þar að auki einn heimspekingur. Ég er því ekki í vafa um það, að í þessum hópi eru margir áhugamenn, og ég er ekki heldur í vafa um, að það mætti, ef þeir hefðu meira samráð um þessi efni en þeir ef til vill hafa nú, ýmsu góðu til leiðar koma. Spurningin er, hvort ekki næðist eins mikill árangur með því eins og með því að setja á fót þessa sérstöku stofnun, sem hér er rætt um. Þessu vildi ég varpa fram til athugunar fyrir n. Það er því miður svo, eins og ég vék að áðan, að mörgum virðist, að menntuninni og menningunni þoki ekki áfram með eðlilegum hætti, miðað við hvað miklu er til þessara mála kostað. Þótt ekki sé farið lengra aftur í tímann en til seinustu aldamóta, þá sjáum við það, að um þær mundir voru uppi hér listamenn, t. d. skáld, sem skapað hafa ódauðleg listaverk, t. d. í ljóðum. En ef við förum að skyggnast um nú, þegar öldin er hálfnuð, og lítum yfir þau bókmenntalegu afrek, við skulum segja í ljóðum, og önnur skáldverk, sem nú eru að koma fram á sjónarsviðið og eru að skapast um þessar mundir, þá held ég, að megi segja, að það þurfi að leita töluvert vel í þeirri syrpu til þess að finna marga hluti, sem bitastætt er á, a. m. k. samanborið við það, sem var fyrir nokkrum áratugum, þegar þó var mjög litlu fé varið til menningarmála og listastarfsemi í þjóðfélaginu. Þetta er vissulega umhugsunarvert, að þannig skuli þetta vera. Ég tel því, að hv. menntmn. eigi að athuga þetta mál mjög vel — það er þess vert — og reyna að gera sér ljóst, hvort það, sem okkur vantar nú í þessu máli, sé fyrst og fremst einhver turnbygging ofan á það víða og stóra menningarmusteri, sem þjóðin hefur verið með fræðslulöggjöfinni og öðrum ráðstöfunum að reyna að byggja hér upp á síðustu árum.