23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (3647)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég var ekki við, þegar þetta frv. var rætt hér fyrr við 2. umr., og veit því ekki, hvað þá hefur farið fram. Hins vegar eru einstök atriði í þessu frv., sem ég vildi gera grein fyrir, og má vera, að ég endurtaki þá eitthvað, sem búið er að segja.

Það er fyrst að geta þess, að n. klofnaði um frv. eins og það lá fyrir, en eins og það kemur nú frá hv. meiri hl. er það svona eins og svipur hjá sjón, og um þær breytingar, sem þar hafa verið gerðar, hefur minni hl. ekki haft aðstöðu til þess að fjalla.

Þá er að geta þess, að oft kemur fram, að iðnaðurinn, sem sé einn af þremur aðalatvinnuvegum okkar, sé einhvers konar hornreka og sé afskiptur um aðstoð ríkisins, sé nokkurs konar olnbogabarn. Þennan stóra misskilning vildi ég leiðrétta. Það er enginn atvinnuvegur studdur svo sem hann. Hann er studdur með verndartollum, svo að landsmenn verða að kaupa aðkeyptar iðnaðarvörur margfalt dýrari en þær kosta. Við munum eftir því, að það var talað um það í fyrra að endurgreiða toll af sænskum timburhúsum, 7–8 þús. af húsi, sem eigendurnir urðu að greiða, af því að þau voru ekki smíðuð af innlendum iðnaðarmönnum. Þannig er hvert einasta smáatriði, sem unnið er hér heima, stutt verndartollum, sem þó er margt svo slæmt, að það er neyð að kaupa það. Þess vegna er ekki hægt að segja, að iðnaðurinn sé hornreka hvað snertir stuðning ríkisvaldsins.

Þá er það, að iðnaðinn vanti hina leiðandi hönd, sem landbúnaðurinn hafi í Búnaðarfélaginu og sjávarútvegurinn í Fiskifélaginu, og það sé sú hönd, sem hér sé verið að skapa. Hvað þessu viðvíkur þá er iðnráð engan veginn eins heilsteypt og Búnaðarfélagið. Það er nú svo, að atvinnuvegirnir eru misjafnir í eðli sínu og eiga misjafnlega mikla kröfu til aðstoðar frá því opinbera. Landbúnaðurinn er þannig settur, að það, sem lagt er fram til leiðbeiningar, rennur til þess að hann í framtíðinni verði öflugri og gefi meira af sér en í dag, hvernig jörðin verði gerð frjórri á komandi áratugum. Það eru ekki nema að litlu leyti þeir, sem nú sitja jarðirnar, sem njóta árangurs aðstoðarinnar, heldur er það framtíðin, sem þar á hlut að máli. Aðstoðin á að verða til þess að þeir, sem í framtíðinni sitja jarðirnar, fái betri afrakstur. Nákvæmlega sama á við um búféð. Það er reynt að gera það þannig úr garði, að kynslóðin, sem upp vex, taki fram og verði arðsamari en sú, sem nú lifir. Því á landbúnaðurinn mjög mikla kröfu á styrk af opinberu fé. Þar að auki eru skilyrði landbúnaðarins mjög misjöfn eftir löndum, og takmarkað hvað hægt er að færa af reynslu eins lands á annað. Hvert land verður að byggja á sinni eigin reynslu. Þetta gerir það að verkum, að kröfur landbúnaðarins á opinberri aðstoð eru mjög réttháar, því ekki er verið að vinna fyrir hann Jón, sem nú situr jörðina, heldur til þess að hann Pétur, sem kemur á eftir Jóni, fáí betri afrakstur.

Þegar komið er að sjávarútveginum, gegnir öðru máli. Við styrkjum skip til þess að finna út, á hvern hátt sé hægt að veiða sem mest af fiski á sem skemmstum tíma, hvernig hægt sé að hljóta augnablikstekjur á kostnað framtíðarinnar. Ekki eitt einasta skip getur að þessu leyti bent á líkur til þess, að skip, sem fiskar á sömu slóðum að 10 árum liðnum, fái betri afla. Það er reynt að finna þá staði, þar sem hægt er að fiska mest á líðandi stund, og ekki tekið tillit til þess, hvort verið sé að rýra tekjur framtíðarinnar. Það er reynt að finna sem stórvirkust veiðitæki, jafnvel rafmagnstæki, sem drepa hvern einasta fisk á stóru svæði. Það eru því allt önnur skilyrði og kröfur, sem ríkið gerir til sjávarútvegsins, allt annað, sem lagt er til grundvallar, þegar honum er veittur styrkur, heldur en þegar landbúnaðurinn er annars vegar. Þó aðstæður séu ekki eins í hinum ýmsu löndum, þá eru þær þó líkari en hvað við kemur landbúnaðinum. Það er hægt eftir reynslu annarra landa að vita, hvernig bezt sé að byggja skip, sem stunda á hér veiðar, en það er ekki hægt að segja um eftir reynslu annarra landa, hvernig bezt sé að rækta jörð í einhverjum dal á Íslandi. Þó er enn þá minna frávik eftir löndum, þegar komið er að iðnaðinum, því hann er svipaður um allan heim, eins vélar, sem notaðar eru við sama iðnað, og margt er það, sem hann þarf ekki að byggja á eigin reynslu í landinu, en staðhættir gera hinum atvinnuvegunum nauðsynlegt. Ef vél hefur verið tekin til notkunar og reynzt vel í öðru landi, þá er líka nokkurn veginn vissa fyrir því, að hún muni líka reynast vel á Íslandi. Þannig er það ákaflega margt í iðnaðinum, sem er það sama um allan heim. Þetta er líka Sameinuðu þjóðunum ljóst, því mér vitanlega hafa þær ekki sett upp neina stofnun til að leiðbeina mönnum í sjávarútvegi eða landbúnaði, en hins vegar hafa þær sett upp stofnun til leiðbeiningar í iðnaði, og það stafar vitanlega af því, að iðnaðurinn baserast á því sama um allan heim, þó mismunur geti átt sér stað um ýmis efni, sem ekki finnast nema á fáum stöðum, en um það er nú varla að ræða hér, í eins hráefnasnauðu landi og Ísland er, því svo má heita, að þau höfum við engin nema frá hinum atvinnuvegunum tveimur, fisk frá sjávarútveginum og mjólk og kjöt frá landbúnaðinum.

Þegar nú þess er gætt, að þessi stofnun er til, sem beint er ætlað að veita leiðbeiningar varðandi iðnaðinn, og við erum þátttakendur í þeim samtökum, sem komið hafa þeirri stofnun á fót, þá fæ ég ekki betur séð en rétt sé að athuga, hvort íslenzkur iðnaður geti ekki notað þessa stofnun sér til leiðbeiningar og aðstoðar. Frv., eins og það var fyrst, var í rauninni brot á yfirlýstri stefnu Sjálfstfl. í þessum málum, og það hefur flm. nú séð og því reynt að sníða af því mestu agnúana. Ég tel rétt að sjá fyrst, hvaða gagn íslenzkir iðnaðarmenn geta haft af aðstoð og leiðbeiningum stofnunar Sameinuðu þjóðanna í meðferð og vali véla, áður en slík löggjöf er sett. Ef það sýndi sig, að sú aðstoð væri ónóg, þá þætti mér líklegt, að ég gæti verið með í samþykkt á setningu yfirstjórnar í iðnaðarmálum þjóðarinnar. Við í minni hl. leggjum því til, að frv. verði vísað frá, en athugað væri, hvaða gagn við Íslendingar gætum haft af þeirri alþjóðastofnun um leiðbeiningar í þessum efnum, og leggjum því til, að frv. verði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar. Ég vil ekki tefja fyrir því með því að ræða þetta meira, þó ég hafi margt frekar um málið að segja.