25.01.1951
Efri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (3649)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. iðnn. með fyrirvara og flutt hér síðan brtt. á þskj. 307. Þó að ég hafi skrifað undir nál. með fyrirvara, þá er það ekki af því að ég sé ekki sammála því, að þetta mál gangi fram. Ég hef frá því fyrsta tekið jákvæða afstöðu með efni þess og viljað vinna að því, að iðnaðinum yrði skipuð yfirstjórn á þá leið, sem ætlazt er til með flutningi þessa frv. Það, sem helzt greinir á milli mín og meiri hl. n., er, að mér finnst of skammt gengið með frv. eins og meiri hl. leggur til að það verði. Eins og hv. þdm. hafa vafalaust gert sér grein fyrir, er nú mjög skorið niður af efni frv. frá því, sem það hefur verið flutt á undanförnum árum. Það hefur mjög verið dregið úr þeim verkefnum, sem yfirstjórn þessi á að hafa, og mér finnst, að of langt hafi verið gengið í þeim niðurskurði, og því náist ekki eins mikill árangur og æskilegt væri, verði frv. samþ. eins og meiri hl. n. leggur til. Ég get að vísu fallizt á, að fellt sé niður ákvæðið um framleiðsluráð, eins og lagt er til í brtt. Ég er ekki viss um, að það sé nauðsynlegt við hlið iðnaðarmálastjóra, og með því að fella það niður sparast kostnaður. En þó að það sé fellt niður, þá vil ég ekki fella niður öll þau verkefni, sem það átti að hafa með höndum. Það má fela þau iðnaðarmálastjóra og starfsfólki hans.

Þá ætla ég að greina frá brtt. mínum og víkja jafnframt að því, sem mig greinir á um við meiri hl. n.Brtt. á þskj. 307 eru við 5. og 7. gr. frv. Fyrst er þá brtt. við a-lið 2. tölul. 5. gr. Greinin er um verkefni iðnaðarmálastjóra, og hljóðar þessi liður svo, að hann skuli árlega gera till. um, „að eðlileg og holl hlutföll haldist á milli atvinnuvega þjóðarinnar um skiptingu á vinnuafli, rekstrarfé, fjárfestingu og opinberri aðstoð.“ Fyrsta brtt. mín er sú, að inn í þessa upptalningu komi á eftir orðinu „vinnuafli“: gjaldeyri, — þ. e. iðnaðarmálastjóri á að hlutast til um, að eðlileg hlutföll haldist um ráðstöfun gjaldeyris til hinna ýmsu iðngreina, svo að nauðsynlegan iðnað skorti ekki gjaldeyri til kaupa á hráefni. Ég held, að það sé þýðingarmikið og nauðsynlegt, að þetta sé tekið fram, því að eins og kunnugt er, hefur í gjaldeyrisvandræðum undanfarinna ára mjög skort á, að iðnaðurinn hafi, í tæka tíð a. m. k., getað aflað sér þeirra hráefna, sem honum eru á hverjum tíma nauðsynleg, og nú er mjög mikið talað um, að verulegur hluti iðnaðarins, þar á meðal ýmsar þýðingarmiklar iðngreinar, séu að stöðvast vegna hráefnaskorts, þeim hefur ekki verið veitt gjaldeyrisleyfi fyrir hráefni. Þess vegna álit ég rétt, í frv. eins og þessu, að þessu sé ekki gleymt, heldur þvert á móti þýðingarmikið, að það sé tekið með.

Þá er það 2. liður sömu brtt., einnig við 5. gr., en við e-lið hennar. Liðurinn fjallar um, „að hendi sé ekki sleppt af neinum afurðum, er vér öflum, fyrr en þær hafa verið svo úr garði gerðar, að þær skili landinu sem mestum erlendum gjaldeyri, ef út eru fluttar, en spari sem mestan erlendan gjaldeyri, ef þær eru seldar innanlands.“ Ég legg til, að á eftir þessum lið komi nýr stafliður, svo hljóðandi: „að iðnaðurinn sé rekinn með fullum afköstum, þannig að vélakostur og vinnuafl nýtist sem bezt.“ Ég held, að þetta sé mjög nauðsynlegt og að það verði eitt af aðalverkefnum iðnaðarmálastjóra að hlutast til um, að vélakosturinn, sem fyrir hendi er, sé hagnýttur á sem skynsamlegasta hátt og til fulls. Mér leikur nokkur grunur á, að nokkuð mikil brögð séu að því, að ýmis iðnfyrirtæki hagnýti ekki nema að nokkru leyti þann vélakost, sem fyrir hendi er, e. t. v. vegna þess, að þau hafa ekki fengið hráefni og þess vegna ekki starfað nema af og til. Ég geri líka ráð fyrir, að vegna þess skipulagsleysis, sem verið hefur á þessum málum, þá eigi það sér að meira eða minna leyti stað, að vélarnar séu ekki hagnýttar eins og hægt væri. Ég álít þess vegna rétt, að þetta ákvæði sé sett inn í upptalninguna um verkefni iðnaðarmálastjóra og hann komi skipulagi á vélaiðnaðinn, svo að vélar, sem mikið fé, erlent eða innlent, er fest í, séu notaðar til fulls, og að verksmiðjur, sem þegar eru komnar upp og iðnaðarmálastjóri telur, að nauðsynlegar séu, geti unnið viðstöðulaust og hafi hráefni og annað, sem þær þurfa, og síðan verði ekki leyfður innflutningur á vélum, nema það sem sjáanlega þarf til að ná hæfilegum afköstum í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma. Síðan er í till. meiri hl. n. lagt til að feila niður ýmsa liði, þar á meðal 4., 5. og 6. tölul. þessarar sömu gr. — 4. tölul. fjallar um „að stuðla að því, að ekki sé fluttur inn fullunninn varningur, ..... heldur sé hann fluttur inn á því stigi, sem hann er ódýrastur, en þó hæfur til að vinnast að fullu í ísl. iðjuverum.“

Ég er ekki sammála um að fella þennan lið niður, ég held að það sé alveg ástæðulaust. Það hlýtur að vera þýðingarmikið atriði fyrir innlendan iðnað, ef hann á annað borð telst fær um að vinna viðkomandi vöru, að hún sé ekki flutt fullunnin til landsins. Ég álít því, að þetta atriði eigi að standa, og mun greiða atkv. mitt gegn því, að það sé fellt niður.

5. lið mun ég ekki gera ágreining um, en ég álít aftur á móti ekki rétt að fella 6. lið niður og mun greiða atkv. á móti því. Auk þess flyt ég brtt. um, að við hann sé bætt: „og greiða fyrir því, að iðnaðurinn fái flutt inn þau hráefni, sem hagkvæmt er, að hann vinni úr.“ Ég álít það sjálfsagt verkefni fyrir iðnaðarmálastjóra í samstarfi við iðnfyrirtækin í landinu að vinna að hagnýtingu markaða fyrir þær iðnaðarvörur, sem hér er hægt að framleiða, fyrst og fremst innlendan markað, en engu síður, ef tök eru á að framleiða iðnaðarvörur, sem hægt væri að fá markaði fyrir erlendis, að athuga það og hagnýta. Ég er mjög á móti að þetta ákvæði sé fellt niður, en legg til, að þessu verði bætt við. Það er grundvallarskilyrði, að iðnaðurinn fái þau hráefni, sem hann þarf til að vinna úr, og hann getur jafnvel skapað mikinn gjaldeyri, ef hann flytur inn hráefni, en getur selt út fullunna vöru.

Þá er hér enn þá brtt. við 5. gr. frv., 8. lið. Þar er gert ráð fyrir, að eitt af verkefnum iðnaðarmálastjóra sé að gera till. um sölu á iðjuverum ríkisins, ef heppilegra þykir að þau séu starfrækt af öðrum. Ég er á móti því að þetta ákvæði standi í frv. Ég sé ekki, að það sé nokkur ástæða til að gera ráð fyrir, að hagkvæmara verði að selja einstaklingum iðjuver þau, sem ríkið á; það eru fyrst og fremst síldarverksmiðjur ríkisins og fiskiðjuver ríkisins, sem eru stærst, einnig á það við landssmiðjuna og einhver fleiri. Jafnvel þó að komið gæti til mála, að einhver teldi hagkvæmara að fela einstaklingum rekstur slíkra fyrirtækja, þá er alltaf hægt að bera fram till. um það. Mér finnst það eðlilegra heldur en það sé eitt af verkefnum embættismanns ríkisins. Ég vil ekki gera ráð fyrir því sem reglu, heldur þvert á móti.

Þessar brtt., sem ég hef nú nefnt, eru allar við 5. gr. frv. Hins vegar er 2. brtt. á þskj. 307 við 7. gr. þess. Meiri hl. n. hefur lagt til, að sú grein verði algerlega felld niður, en í henni er ákvæði um, að til þess að hafa jafnan sem bezt heildaryfirlit yfir iðnaðarmálin í landinu verði safnað skýrslum, eins og þar er talað um, og þær gefnar út og birtar árlega. Ég geri ráð fyrir, að meiri hl. vilji fella þetta niður af sparnaðarástæðum. Það má að vísu gera ráð fyrir, að það kosti nokkurt fé að framkvæma þetta, en hins vegar tel ég, að það sé svo þýðingarmikið atriði í sambandi við endurskipulagningu iðnaðarins, að hjá því sé ekki hægt að komast, slík skýrslusöfnun er einmitt grundvallaratriði fyrir að koma skipulagi á þessi mál. Þess vegna legg ég til, að þessari gr. verði haldið; efnislega er till. mín að mestu leyti sú sama, aðeins færð upp í stafliði þau verkefni, sem greinin fjallar um, og einu nýju atriði bætt við, sem er e-liður undir 2. tölul. á þskj. 307 og er um, að í þessa skýrslusöfnun sé tekið yfirlit um, hversu miklum afköstum sé hægt að ná við hvert fyrirtæki, miðað við fyllstu hagnýtingu vélakosts, og að unnið sé á vöktum, hversu margt verkafólk þurfi þá, hve mikið hráefni og hver verðmætisaukning framleiðslunnar yrði.

Eins og ég var að tala um áðan, þá held ég, að það sé sérstaklega þýðingarmikið atriði, að sá vélakostur, sem keyptur verður til landsins og komið fyrir í verksmiðjum, sé hagnýttur sem allra bezt. Og það verður bezt gert með því, að vélarnar séu látnar ganga allan sólarhringinn, sem sagt komið sé á vaktavinnu í verksmiðjum. Með því móti ætti að vera hægt að ná miklu meiri framleiðsluafköstum með sama vélakosti heldur en nú er, þar sem unnið er aðeins 8 stunda vinnudag, og ég tala nú ekki um, ef það á sér stað, sem ég hef grun um, að í ýmsum verksmiðjum sé ekki unninn fullur vinnudagur að staðaldri. En það hlýtur að vera þjóðhagslega séð mjög mikils virði að ná sömu afköstum með miklu minni vélakosti en ella, og það þýðir miklu minni gjaldeyriseyðslu en annars. Enda mun það nú mjög tíðkast erlendis, að í stærri verksmiðjum sé yfirleitt vaktavinna. Það gefur líka að skilja, að slík vinnubrögð ættu að vera miklu hagkvæmari. Ég álit þess vegna, að það ætti að vera eitt af verkefnum iðnaðarmálastjóra og ekki það veigaminnsta að gefa út skýrslu um heildaryfirlit yfir iðnaðarmálin í landinu, og ætti einn liðurinn í þeirri skýrslu að vera athugun á því atriði, sem felst í þessari brtt. minni um það, hve miklum afköstum væri hægt að ná með því fyrirkomulagi að hafa vaktavinnu í verksmiðjum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara nánar út í einstök atriði þessara brtt. Þær hafa nú legið lengi fyrir, ásamt öðrum till. í þessu máli, og ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. séu búnir að kynna sér þær ásamt málinu í heild. En ég vil að lokum segja það, að ég hef frá því fyrst, að frv. um þetta efni kom fram, verið meðmæltur því, að slíkri yfirstjórn væri komið á iðnaðarmálin í landinu, og ég er enn sama sinnis og vil því standa að framgangi þessa frv., jafnvel þó að mínar brtt. verði ekki samþ., en þar teldi ég, að of skammt væri gengið. En samt sem áður mundi ég greiða atkv. með frv. eins og það verður væntanlega samkv. till. frá meiri hl. n., ef það á annað borð nær fram að ganga. Ég skal þá ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég hef því miður ekki verið við þær umr., sem þegar eru orðnar af hálfu beggja þeirra nefndarhluta, sem skilað hafa nál. Ég veit ekki, hvort nokkuð hefur komið þar fram, sem ég vildi sérstaklega taka til athugunar. En ef eitthvað kæmi fram, sem ég vildi gera aths. við, þá verður tækifæri til þess síðar.