07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég gat ekki verið við umr. í gær, til þess lágu óviðráðanlegar ástæður, og ég veit ekki, hvort þessar umr. í dag gefa ástæðu til þess að ég fari að lengja umr. um þetta mál. Raunverulega finnst mér það liggja ljóst fyrir, að þegar hnýta á svona till. aftan í brbl., þá er ekki meiningin, að málið gangi fram, það dettur engum í hug, það veit hver einasti maður, og það vita hv. flm. líka. Að hnýta þessari till. aftan í brbl. er ekki gert nema í auglýsingarskyni og til þess að fá um hana umr. Þess vegna eru óþarfar umr. um þetta. Þetta er gert til þess að slá upp umræðum um þetta í blöðum um meðferð á þessu á Alþ., og er gert í auglýsingarskyni. Þetta er orðið ákaflega óviðkunnanlegt. Það er aldrei hægt að bera fram nokkurt mál viðkomandi landbúnaðinum, án þess að það sé verið með sífelldar eftirtölur og samanburð, né án þess að verið sé að reyna að hnýta einhverju aftan í þau mál hér á þingi. Og það er að heyra eins og ekkert hafi verið gert fyrir sjávarútveginn, sem sambærilegt sé við það, sem hér er gert fyrir landbúnaðinn. En það er áreiðanlegt, að það hefur verið mikið gert fyrir sjávarútveginn, sem sambærilegt er við þetta. Og síðast, þegar þetta mál var rætt, benti ég á, að ríkisstj. er að ganga frá frv. um kreppuhjálp til handa bátaútveginum. Ég þekkti skjölin, sem nýlega lágu á borðinu fyrir framan hv. þm. Barð., það var frv., sem ríkisstj. er að ganga frá um kreppuhjálp, sem verið er að búa út handa bátaútveginum — og þar með á Vestfjörðum — um lán og beina styrki þeim til handa, sem stundað hafa bátaútveg. Og upp á hvað er þetta? Það er upp á 20–30 millj. kr. Hv. þm. Barð. sagði, að það væri upp á nærri 30 millj. kr. En það er talað hér í hv. þd. eins og menn muni ekkert eftir þessu. Það er að vísu svo, að það er búið að gera þetta oft. Og við, sem erum hlynntir landbúnaðinum, höfum aldrei talið þetta eftir, heldur höfum við beitt okkur fyrir því. Og síðast í sumar, þegar kreppuhjálp var veitt vegna síldarútgerðarinnar, beittum við okkur fyrir því. En svo, þegar verið er að tala um eina og hálfa millj. kr. fyrir landbúnaðinn vegna hallæris, árferðis, sem ekki hefur þekkzt á þessari öld fyrr, og það þarf jafnvel að leita til ársins 1881 til þess að finna slíkt árferði, þá þarf í sambandi við þetta mál að hnýta brtt. og segja: Það getur ekki gengið, að ekkert sé gert fyrir sjávarútveginn, þegar allt er gert fyrir landbúnaðinn. — Þó að hæstv. ráðh., fjmrh. og atvmrh.., hafi setið á fundum nú með fulltrúum útvegsins, sem til þess eru kjörnir, og hafi verið að þessu í allt sumar, til þess að vinna fyrir sjávarútveginn og greiða hans vandamál. Og frv. það, sem ég gat um áðan, um kreppuhjálp til sjávarútvegsins, verður lagt fram eftir nokkra daga. — Mér persónulega er óskiljanlegur þessi hugsunarháttur, sem hér hefur komið fram og ég minntist á. Þó að ég reyni að setja mig í dómaraafstöðu og vera alveg hlutlaus í þessum málum, get ég ekki séð annað en að hér sé sú undarlegasta hlutdrægni og undarlegasta blinda á ferðinni.

Og hverjar eru meginástæðurnar fyrir því, að svona hefur farið sem raun ber vitni fyrir bændum á óþurrkasvæðunum nú í ár? Ég heyri hér haldið fram, að hv. þm. S-Þ. hafi sagt, að það væri fyrsta skyldan að styðja landbúnaðinn. Ég veit ekki, hvort hann hefur orðað það svona og býst varla við, að hann hafi látið setninguna frá sér fara þannig. En sá hv. þm., sem var út á þetta að setja, sagði, að það ætti að styðja þessar atvinnugreinar jafnt, sjávarútveginn og landbúnaðinn, og undir þetta tek ég að öllu leyti. En eftir að búið er að búa út, hvort sem það nú er fimm eða sjö sinnum, síldarkreppulán fyrir sjávarútveginn, og þannig ár eftir ár — og ég tek enn fram, án þess að það sé talið eftir af okkur, sem hlynntir erum landbúnaðinum, því að við framsóknarmenn höfum verið þessum ráðstöfunum fylgjandi — og þegar verið er að gera þetta upp nú fyrir sjávarútveginn, einmitt sömu dagana og kreppuhjálpin núna vegna sjávarútvegsins veltur á 20–30 millj. kr., og þegar hins vegar er talað um 11/2 millj. kr. fyrir landbúnaðinn, þá standa menn hér upp og segja: Þetta á að ganga jafnt yfir báða atvinnuvegina. — Gengur þetta þá ekki jafnt yfir þá báða? Og þetta á að gera fyrir landbúnaðinn, eftir að búið er að gera slíkar ráðstafanir oft fyrir sjávarútveginn. En það er eins og þær ráðstafanir fyrir sjávarútveginn séu gleymdar, þegar búið er að gera þær. — Og hverjar eru þá ástæðurnar fyrir því, að svona hefur farið í þessum héruðum, þar sem óþurrkarnir hafa verið mestir í sumar? Ég vil benda þeim, sem hér tala um, að það eigi að gera jafnt fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn og vilja sérstaklega undirstrika þá reglu, á þetta: Hvernig hefur þessa verið gætt á undanförnum árum, þegar verið var að byggja upp þessar tvær atvinnugreinar? Hafa þeir, sem mest hafa talað um, að þetta jafnrétti ætti að vera, athugað framkvæmdirnar um það tímabil og það, hvaða hættu er verið að setja íslenzka þjóðfélagið í? Því að það mun sannast, og menn eru farnir að grilla nokkuð í það nú, að velmegun íslenzks þjóðfélags fer eftir því, hvernig landbúnaðurinn stendur og hvernig honum er sinnt, og að svik við landbúnaðinn hafa verið svik við þjóðina. Þetta hefur alltaf farið saman. Hefur sjávarútvegurinn ekki fengið nógu mikið af bátum og togurum, eða hefur hann fengið svo mikið af bátum og togurum, að ekki sé hægt að selja þá? Hefur hann ekki fengið nógu mikið af frystihúsum eða hefur hann fengið svo mikið af þeim, að það sé meira en fyrir þau skip, sem hægt er að selja hér og reka? Hefur hann ekki fengið nóg af síldarverksmiðjum og frystihúsum, norðanlands eða sunnanlands? Hvað er það, sem ógert er fyrir sjávarútveginn, annað en það, að hann þarf að vera fjölbreyttari og hafa vandaðri framleiðslu, sem er hans verk að koma í kring? Hvað hefur ríkisstj. látið ógert til þess að kaupa öll þau tæki handa sjávarútveginum, og að því er okkur er sagt mörg af þeim hin beztu, sem fáanleg eru í veröldinni? Og hver vill segja, að hér á landi sé of lítið til af bátum, fyrir það, að ríkisstj. hafi ekki keypt þá eða hlutazt til um það, að þeir yrðu keyptir? Og hver vill segja, að of lítið sé af togurum hér af sömu ástæðum? Eða frystihúsum? (HV: Það eru of fáir bátar í gangi.) Já, þeir liggja. En það eru öll tæki í gangi, sem landbúnaðurinn hefur fengið. Hver vél, sem landbúnaðurinn hefur fengið, og hvert annað tæki, sem hann hefur fengið, er í gangi. Nei, sannleikurinn er sá, að sjávarútvegurinn hefur fengið það mikið af tækjum, eins og einhver sjávarútvegsmaður hefur sagt, að hann er að gubba síðustu tíu togurunum. Hvað hefur verið gert fyrir landbúnaðinn á sama tíma? Af erlenda gjaldeyrinum, sem gerð var áætlun um hvernig varið yrði til nýsköpunar, voru ætlaðar 50 millj. kr. til landbúnaðarins, til þess að byggja upp þann atvinnuveg með því að kaupa tæki og annað slíkt. En hvað hefur verið keypt af þeim? Ekkert fyrr en nú á síðustu árunum. Og þegar bændur hafa viljað byggja frystihús, hvað hefur þá gerzt? Þeim hefur verið neitað um fjárfestingarleyfi og efni, og þeim er neitað um það enn. Það er einn hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, sem hefur byggt upp votheyshlöður, sem hefur fengið til þess fjárfestingarleyfi og efni. Og þessi hreppur er ekki á skránni yfir þá, sem aðstoðar þurfa nú vegna óþurrkanna. Að verulegu leyti stafar sú nauðsyn á hjálp, sem nú er verið að rétta fram, af vanrækslu þess opinbera gagnvart landbúnaðinum, af því að bændur hafa ekki fengið efni til þess að byggja votheyshlöður. Og þessi hjálp til bænda á Norður- og Austurlandi má því með réttu teljast gjald, og lítið gjald fyrir vanrækslusynd, sem framin hefur verið gegn landbúnaðinum á undanförnum árum, á sama tíma sem troðið hefur verið upp á sjávarútveginn meiru af tækjum en hann hefur getað tekið á móti. Ég held því, að út frá þessu, sem ég hef sagt, þurfi að fara að athuga það að vinna — eins og hv. þm. sagði hér áðan — fyrir þessar atvinnugreinar alveg jafnt. Og ég segi fyrir mig, að að svo miklu leyti sem ég hef farið með völd í þessu landi, þá hygg ég, að það sé erfitt að sýna fram á það, að ég hafi ekki reynt af fremsta megni að fylgja þeirri reglu. En þeirri reglu hefur verið fylgt á undanförnum árum, að það hefur verið sama, hvort maður hefur minnzt á tæki, lánsfé, sem farið hefur gegnum hendur ríkisstj. og ríkið hefur ráðið yfir, eða yfirleitt annað fé, að það hefur farið til þess að kaupa tæki til hagsbóta við sjávarsíðuna, og það svo, að allt er þar fullt af tækjum og yfirfullt. Og þó að verið sé að stofna til þess að gera upp skuldir sjávarútvegsins á hagkvæmasta hátt, skuldir upp á 20–30 millj. kr., þá er sömu dagana og þetta á sér stað verið að telja eftir þessar 11/2 millj. kr., sem verja á hér til hjálpar landbúnaðinum í hinu einstæðasta árferði hvað óþurrka snertir. Slíkt finnst mér óverðskuldað.

Hv. 6. landsk. þm. segir hér, að of lítið af tækjum sjávarútvegsins sé í gangi. Það er allt annað mál. En það er kannske ýmislegt auðveldara en það, þegar búið er að verja hverjum einasta spariskildingi þjóðarinnar, hverri einustu mynt, hverju nafni sem nefnist, sem þjóðin á í erlendri mynt, öllu lánstrausti þjóðarinnar inn á við, því að það hefur verið gert, og öllu lánstrausti þjóðarinnar út á við til þess að kaupa tæki fyrir sjávarútveginn, þannig að allt hefur verið þurrausið og við förum nú bónleiðir til búðar til þess að fá lán til þess að kaupa síðustu togarana, og er vafasamt, hvort ríkisstj. tekst að komast út úr því, þar sem þar þarf 80 millj. kr. til, — þegar svona er, þá er kannske ýmislegt léttara en að koma með peninga og segja: Tækin eru þarna, en við þurfum að stofna til atvinnubótavinnu. (HV: Það er meiningin að komast hjá því.) Það skal ekki falla niður, að athugað verði, hvernig nú er farið með þessi tæki, því að eftir að þjóðin er búin að verja hverjum spariskildingi sínum í að kaupa þessi tæki og búin að nota allt sitt lánstraust einnig til þess, þá verður hún að reka þessi tæki, og ekki sízt þegar hún getur kannske varla fengið lánsfé til þess að kaupa þau síðustu. Það er full þörf á, að þetta verði athugað, og það skal ekki standa á því, að það verði gert, ef á að tefja þetta mál, sem hér liggur fyrir, með því að hnýta öðru máli aftan í það.

Það hafa fallið hér talsvert ómild orð, að mér finnst, í umr. um þetta mál. Og mér þykir leiðinlegt, að þau skuli hafa fallið, og sérstaklega leiðinlegt, að þau skuli hafa fallið fyrst og fremst frá þeim hv. þm., sem ég átti sízt von á að þau kæmu frá. Og það sýnir mér, að þetta mál, sem brtt. er um, eins og það er borið fram, er ekki flutt eins og raun er á vegna þess, að hv. þm. hafi ekki skilning á þessu, heldur er hv. þm. að koma þessu máli fram í auglýsingarskyni. Það er það, sem villir, og það er aldrei gott, því að sannleikurinn er sá, að fyrir utan alla þá vanrækslu, sem ég hef lauslega drepið á, gagnvart landbúnaðinum, þannig að hann hefur verið settur hjá, þegar sjávarútvegurinn hefur fengið sitt fjármagn, þá er það hlutur, sem menn hafa ekki nægilega athugað, en verða að fara að skilja, hvaða kapítal í raun og veru þarf til þess að reka íslenzka landbúnaðinn og hvað 11/2 millj. kr. er lítil upphæð í því sambandi, þessi upphæð, sem við erum að tala um að verja til að bæta úr vandræðum, sem nú steðja að þessum atvinnuvegi. Það er mál út af fyrir sig, sem við verðum að ræða á Alþ., einmitt í framhaldi af því og með tilliti til þess, að það hefur sama sem ekkert verið gert fyrir landbúnaðinn eða sáralítið að tilstuðlan þess opinbera til að byggja hann upp, en mikið er búið að gera fyrir hina atvinnuvegina, — það er mál, sem þyrfti að ræða í sambandi við atvinnuvegina yfirleitt, hvernig við getum byggt upp landbúnaðinn á næstu árum. Embættismenn í Reykjavík, sem hafa há laun, eru að velta því fyrir sér mikinn hluta af sinni ævi, hvernig þeir eigi að koma upp yfir sig húsi. En menn hugsa ekki um það, að bóndi í sveit þarf ekki aðeins að byggja yfir sig hús, án þess að hafa önnur laun en framleiðslan leggur til, sem oft er ekki stór á hverju ári hjá þeim, a.m.k. meðan bændur eru að koma fyrir sig fótum. Bóndinn þarf líka að byggja útihús, kaupa vélar, koma upp bústofni og koma á hjá sér ræktun. Það væri miklu nær fyrir okkur að ræða um það í sambandi við atvinnuvegina, hvernig bændastéttin ætti að fá þær 40 millj. kr., sem þarf að veita í íslenzkan landbúnað, til þess að hægt sé að koma honum í það horf, að bændur geti komið helmingnum af fóðrinu, sem búpeningur þeirra þarf, í votheyshlöður. Og þegar menn tala um, að landið okkar sé harðbýlt, — sem það er, — þá höfum við ekki athugað nógu vel, að bóndinn erlendis getur ekki ráðið við það, þó að hagl komi nóttina áður en hann ætlar að uppskera af akrinum, né heldur það, hvort vatnsflóð koma, sem hafa komið t.d. í sjö ár fyrir ekki löngu í Kanada, en hér á landi geta bændur hins vegar undir flestum kringumstæðum gert framleiðsluna örugga viðkomandi heyframleiðslu, nefnilega með votheyshlöðum. T.d. er það athyglisvert, að vorið 1949, sem er eitt harðasta vor, sem komið hefur hér á landi um langan tíma fyrir sveitabúskapinn á svipuðu svæði og óþurrkarnir s.l. sumar, þá sjáum við, að menn, sem hafa haft kapítal með einhverju móti til þess að byggja upp sinn landbúnað eins og þarf á Íslandi, höfðu alveg ágæta afkomu þrátt fyrir harðindin. Og við sjáum jafnframt, eins og ég tók fram áðan, að hreppar, sem hafa fengið fjármagn til þess að byggja votheyshlöður, en eru á mesta óþurrkasvæðinu, þeir eru ekki á skýrslunni yfir þá, sem aðstoðar þurfa vegna óþurrkanna s.l. sumar. Þeir eru búnir að gera það, sem þarf mikið fé til, að fyrirbyggja skakkaföllin, sem stafað geta af óþurrkum. Og það er það, sem við þurfum að hugsa um, ekki hitt, að metast um það, hvernig að sjávarútveginum annars vegar og landbúnaðinum hins vegar er búið, og ég geri það ekki ótilneyddur, — hvernig á að útvega þær minnst 40 millj. kr. fyrir landbúnaðinn á næstu árum, sem hann þarf til uppbyggingar, ef ekki á að koma fram kyrrstaða fyrir þjóðina í þessu efni.

Það er verið að tala hér um hallæri á Vestfjörðum, sem er sjálfsagt ekki að ástæðulausu. Það er mál, sem snertir okkur alla og sérstaklega þá, sem eru fulltrúar fyrir þessi svæði. Og það er alveg eins í mínu kjördæmi, Strandasýslu, að þar hefur verið aflaleysi. Ég hygg, að það sé nokkur afli fyrir Vestfjörðum nú, sem er ekki í Strandasýslu, því að Húnaflói er tómur. Vitanlega á að athuga þetta. En það á ekki að gerast í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir til meðferðar. Og sjómenn á Hólmavík og yfirleitt í Strandasýslu vita, að ég hef nákvæmlega sama áhuga fyrir þeirra hagsmunamálum eins og fyrir hagsmunamálum bændastéttarinnar í sýslunni. Verulegur hluti sýslubúa eru einmitt sjómenn, og meðal þeirra eru mínir beztu fylgismenn. En það er bara, sem þarf að athuga, að við leysum ekki bæði málin í einu, þetta, sem fyrir liggur, og vandamál sjómanna. — Þetta var innskot viðkomandi Vestfjörðum. En í sambandi við þetta vildi ég að hv. þm. beindu huga sínum að því, hvað gera þarf fyrir landbúnaðinn á næstu árum, til þess að ekki þurfi á svona ráðstöfunum að halda eins og hér er verið að gera. Og hvað hafa þeir gert sums staðar á Vestfjörðum, í Dýrafirði og á Ingjaldssandi sérstaklega? Þeir eru búnir að byggja votheyshlöður fyrir 50—70% af sínum heyfeng. Og þó að það kæmu svona óþurrkaár yfir þá eins og nú hefur s.l. sumar komið á Norður- og Austurlandi, þá þurfa þeir ekki á svona hjálp að halda, ekki frekar en þeir tveir hreppar, sem ég minntist á. En við skulum bara játa, að landbúnaðurinn hefur yfirleitt ekki fengið þessa aðstöðu, það hefur ekki verið búið að honum að öllu leyti eins og hefði átt að vera. Við höfum kannske allir verið meira eða minna blindaðir af þeim stórfeng, sem kom úr sjónum á stríðsárunum, og höfum kannske vanrækt landbúnaðinn eitthvað meir þess vegna. En við eigum ekki að vera að telja eftir þessa 11/2 millj. kr., því þó að þessi upphæð sé greidd til hjálpar, eins og hér liggur fyrir frv. um, þá hallast ekki á milli sjávarútvegsins og landbúnaðarins, a.m.k. ekki sjávarútveginum í óhag, því að það er vitað, að hér á Alþ. eru menn, sem hafa jafnan áhuga fyrir landbúnaðinum og sjávarútveginum og hafa sýnt, að þeir hafa fullan áhuga á málum sjávarútvegsins, eins og það frv. ber vott um, sem bráðum kemur fram. Og við viljum gera rannsókn á þeim grundvelli, að þau tæki séu notuð, sem hver einasti spariskildingur þjóðarinnar hefur verið notaður til að kaupa og sömuleiðis allt lánstraust þjóðarinnar.