23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (3716)

154. mál, öryrkjahæli

Flm. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Barð. fyrir þá miklu vinsemd, sem lá í ræðu hans til þessa máls, enda var að vænta stuðnings frá hans hendi, hvenær sem mannúðarmál sem þetta ber á góma.

Hann spurði, hvort flm. þessa frv. mundi hafa nokkuð á móti því, þó að sett væri inn ákvæði um það, að hælið skyldi byggt við jarðhita. Það liggur í augum uppi, að það yrði mikilvægt til að lækka kostnað við slíkt hæli, að það væri byggt við jarðhita, og að öðru jöfnu mundi það ekki spilla frv. Hins vegar verður að gæta þess, hversu erfitt er að fá slíkan stað, og þess vegna er það vafasamt að setja það ákvæði inn fyrirvaralaust.

Hann minntist á það, að samkv. 2. gr. frv. væri hælið hugsað sem sjálfseignarstofnun. Þetta er flutt svo, af því að þeir, sem hugmyndina eiga að hælinu, eru svo bjartsýnir á framtíð þess, að það muni geta borið sig fjárhagslega með gjöldum vistmanna, og eru með tilliti til þessa sett inn ákvæði í 13. gr. um það, að hælið skuli undanþegið tekju- og eignarskatti. Ekki er hægt að gera ráð fyrir svo miklum rekstrarafgangi, að hættulegt geti talizt, þó að þetta standi.

Þá minntist hann á það, að gert hefði verið ráð fyrir því, að þetta hæli tæki á móti geðsjúku fólki og fávitum, en ríkið hafi þegar hæli, sem ætluð séu slíkum mönnum. En allt fram á þennan dag hafa þau hæli ekki getað fullnægt þörfum, og fleiri og færri sjúklingum, sem að dómi læknis ættu einungis að dveljast á slíkum hælum, hefur reynzt ómögulegt að koma fyrir á hæli, og það eru engar líkur til, að hægt verði að koma þeim á það hæli, sem nú er verið að reisa í Arnarholti á Kjalarnesi, sem ætlazt er til að muni geta tekið á móti blönduðum vandræðamönnum og geðsjúklingum. Það er gert ráð fyrir, að þetta hæli taki á móti fábjánum og öðru andlega sjúku fólki, sem sveitarfélögin hafa á framfærslu sinni. Hins vegar er í landinu fjöldi fólks, sem læknar fást ekki til að úrskurða á geðveikrahæli, en vegna margvíslegra skapgalla er ekki hafandi á heimilum ásamt öðru fólki. Þetta fólk er hvorki geðsjúkt né fábjánar, en samt sem áður óhæft til samvista með heilbrigðu fólki. Ég get nefnt sem dæmi, að í Húsavík eru maður og kona, sem bærinn varð að láta byggja sérstaklega yfir. Það var ómögulegt að hafa þau á heimilum, þau þoldu ekki návist annarra, þau gátu ekki búið saman og raunverulega ekki séð um sig, en þó var þeim sjálfsvistin betri en samvistir við annað fólk. Ég hef hvað eftir annað reynt að fá þetta fólk úrskurðað á Klepp, en það hefur ekki tekizt. Ég hef reynt að kaupa þau inn á sjúkrahús, en þau voru ekki talin hæf til þess. Svipuð dæmi þessu er mér sagt að séu fjölmörg. En allt þetta fólk þarf ekki að vera öryrkjar, margt af því gæti margt unnið, ef því væru sköpuð skilyrði til þess.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi eins mikið til þessa hælis og til sjúkrahússins á Kleppi, en mér finnst, að ef ríkið vill láta byggja þetta, þá ættu menn ekki að þurfa að telja þetta annmarka á frv.

Það má vel vera, að sveitarfélögin séu of bjartsýn að halda, að þetta sé hægt, en út í þetta ætla þau samt að leggja, og það er víst, að fullkomin þörf er á slíku hæli.

Ég vil svo lýsa því yfir, að ég er reiðubúinn að mæta á fundum nefndarinnar og einnig að kalla á þá fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, sem eru þessum málum kunnugri en ég.