23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (3718)

154. mál, öryrkjahæli

Flm. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Reykv. undirtektir hans við þetta mál. Mér hafði láðst að svara þeirri fyrirspurn hv. þm. Barð., hvernig á því stendur, að gert er ráð fyrir því, að sveitarfélög leggi misjafnt fram á einstakling eftir fjölda þeirra. Það byggist aðallega á tvennu. Annað er það, að fámenn sveitarfélög eru venjulega máttarminni að þola há gjöld og sökum smæðar þeirra getur oft verið erfitt að ná endum saman. Og hitt er, að í fjölmennum sveitarfélögum er venjulega fleira af vandræðafólki. Það er eins og fjölmennið búi þannig að börnum sínum, að það ýfi frekar upp þá, sem vangæfir eru. Þetta lögmál styður það og, að það er sótzt eftir því að koma unglingum burt úr fjölmenninu í fámennið. Á þessu tvennu eru þær till. byggðar, að gjaldið sé mismunandi á einstakling eftir stærð sveitarfélaga.

Um þetta hef ég svo ekki meira að segja að sinni og þakka undirtektir við þetta mál.