08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3783)

101. mál, gæðamat iðnaðarvara

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Þessi till. til þál., sem ég hef borið hér fram á þskj. 181, er um það að fela ríkisstj. að láta rannsaka, á hvern hátt sé hægt að tryggja gæðamat iðnaðarvara, innlendra og útlendra, sem seldar eru hér á landi. Þetta er, eins og kemur fram í grg., hugsað út frá sjónarmiði kaupenda, en það hefur viljað brenna mjög við, sérstaklega á þessum tímum svartamarkaðs og gjaldeyrisvandræða, að á markaðinn hafi borizt algerlega ónothæfar vörur og kaupendur ekki haft um neitt að velja. Þessi till. hér er náttúrlega ekki nein úrbót á því máli, en það mætti kannske segja, að hún væri eins konar byrjunartilraun til þess að finna lausn á því stóra máli, sem hér um ræðir, hvernig mætti lagfæra þetta fyrir kaupendur, þannig að þeir séu ekki ætið algerlega háðir því, hvað mönnum dettur í hug að framleiða og hvað mönnum dettur í hug að flytja inn. — Ég vil bara svona rétt til stuðnings því, að nauðsynlegt muni vera að koma einhverju skipulagi á þessi mál, aðeins minnast á tvær vörutegundir, aðra erlenda og hina innlenda. Það komu hér á markaðinn á s. l. hausti sykurtangir, mjög snotrar og ekki dýrar, en með þeim ósköpum gerðar, að þær máttu ekki koma í nálægð við sykurmola, því að þá hrukku þær í sundur, en sykurmolinn var heill eftir sem áður. — Allir kannast við perurnar, sem fluttar voru hér inn, hvað þær reyndust vera lélegar, og fleira og fleira mætti nefna, en ég læt þetta nægja. — Þó að með þessari litlu till. út af fyrir sig sé engin bót ráðin á þessu, þá mætti kannske smátt og smátt fika sig áfram með það. — Ég vil bara bæta því við, að í nágrannalöndunum er vörumat og eftirlit með iðnaðarvörum komið mjög langt, þannig að neytendur geta, að minnsta kosti ef þeir óska, haft mikla tryggingu fyrir því, að þeir fái það fyrir fé sitt, sem þeir ætla sér, þegar þeir kaupa vörur. Þeim er tryggt með vissum hætti, að þeir geti fengið vandaðar vörur, ef þeir leggja sig fram um það að þekkja þau merki, sem á vönduðum vörum eru.

Ég læt svo ekki fylgja þessu fleiri orð. Ég geri ráð fyrir, að málið sé skýrt fyrir hverjum þeim, sem vill hugsa dálítið um það, og vænti þess, að málinu verði vísað til nefndar, sem mundi þá verða allshn.