22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3880)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Jón Gíslason:

Herra forseti. Það stendur nú þannig á, að hv. frsm. n. er ekki á fundi — og raunar ekki í bænum, — og ætla ég því, að hlaupa í skarð hans. — Þessari þáltill. var vísað til hv. allshn. skömmu fyrir jól. Fljótlega eftir áramótin tók n. málið fyrir á nokkrum fundum og ræddi það og leitaði sér upplýsinga um verðlag á olíum í landinu. — Hér er helzt um að ræða hráolíu og benzín, sem eru nauðsynlegar vörur til framleiðslu bæði til lands og sjávar. Það kom fram vilji í n. að taka upp í þáltill. benzín líka, og þýddi það þá breytt orðalag till. — Leggur n. því til, að þáltill. verði samþ. með þeirri breytingu, að tillgr. hljóði svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram ýtarlega athugun á verðlaginu á olíu og benzíni, sem flutt er til landsins, með það fyrir augum að lækka álagningu og ákveða jöfnunarverð á þeim vörum um land allt.“ — Svo leggur nefndin og til, að fyrirsögn till. verði breytt til samræmis við þetta.

Einn nefndarmanna, hv. 2. landsk. þm., var ekki á fundi, er málið var afgr., og því hefur hann ekki skrifað undir nál. — Ég hygg, að þessi orð muni nægja til þess að sýna afstöðu nefndarinnar.