15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (4109)

78. mál, vélbátaflotinn

Flm,. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að karpa um þetta mál. Ég hafði haldið sjálfur, og e. t. v. ranglega, að ég hefði hagað mér þannig í þessu máli, að engin ástæða væri fyrir hæstv. atvmrh. að fyrtast við það að neinu leyti. Ég hef talað við hann eins og bezti bróðir, eins og við gerum oft einslega, og ég hef haldið þeim sama tón við hann hér á þingi.

Það er upplýst af hæstv. atvmrh. sjálfum, að hann hefur hitt form. L. Í. Ú. á laugardaginn var, og þá hafi hann (form.) lýst yfir, að hann hafi ekki fengið neina tilkynningu um neina nefndarskipun. — Þrátt fyrir viðtal hæstv. atvmrh. og mín, þá hafði ég ekki, þegar ég samdi þessa þáltill. og lagði hana inn hér, neina vitneskju um það og sá engin merki þess, að búið væri að ganga frá þessari nefndarskipun í málinu. Af einhverjum dularfullum ástæðum, sem ég reyni ekki að skýra, er forstjóri L. Í. Ú. ekki búinn að fá bréf, sem hann fær svo seinna eftir landssambandsfundinn, sem hefur verið dagsett og sjálfsagt skrifað 6. nóv. Hvernig á því stendur, veit ég ekkert um. Ég held sem sagt, að þetta sé nokkurn veginn upplýst í málinu, að þessu bréfi var upphaflega ekki svarað — eftir því sem hæstv. atvmrh. hefur sagt — af því, að sennilega ætlaðist hæstv. forsrh. til þess, að hæstv. atvmrh. svaraði því, og hæstv. atvmrh. ætlaðist sennilega til, að hæstv. forsrh. svaraði því. — Það er líka upplýst, að þegar ég lagði þessa þáltill. inn skrifaða hér til flutnings í þinginu, þá var mér ekki ljóst, að búið væri að gera neitt í þessu sambandi við okkar samtöl, hæstv. atvmrh. og mín.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Vestm. sagði, verð ég að lýsa ánægju minni yfir því að fá hans stuðning í þessu máli, eins og við var að búast frá honum. En út af því, sem hann minntist á kauptrygginguna í Vestmannaeyjum, þá get ég upplýst, að á Ísafirði er svo komið, að sjómannafélagið er búið að afnema kauptrygginguna. En þrátt fyrir það er ástandið þar svo hörmulegt, að útvegsmenn treysta sér ekki til að fara af stað með útgerðina. En það hefur vakað fyrir mér með flutningi till. þessarar að reyna að fá einhverja úrbót, og sömuleiðis með öðru, sem ég hef flutt viðvíkjandi atvinnuástandinu. Og það ríður sérstaklega mikið á því vegna þess, hve mínir umbjóðendur eru sárt leiknir eftir þá lækkun, sem framkvæmd var í marz s. l. á gengi ísl. krónu og allt átti að lækna, en því miður hefur ekki læknað ástandið. Ég sé ekki ástæðu til að ræða það nú við hæstv. atvmrh., hvaða ástæður til þess liggja, en a. m. k. er alveg víst, að það, sem lofað var um lækningu með gengisfellingunni, hefur ekki rætzt.