09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (4249)

172. mál, gjaldskrá landssímans

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal láta nægja fáein orð til að mæla með þessari till. Hún fjallar um, að Alþ. skori á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að gjaldskrá landssímans verði breytt þannig, að ekki sé innheimt fjarlægðargjald af símanotendum í þéttbýlustu byggðarhverfunum í nágrenni Reykjavíkur. Notendur símans á þessum stöðum verða að greiða fjarlægðargjald og auk þess hærra stofngjald en aðrir, sem bæjarsímann nota. Slíkt fjarlægðargjald hefur til skamms tíma verið innheimt víðs vegar í úthverfum Reykjavíkur, svo sem í Kleppsholti og á Seltjarnarnesi, en því hefur nú verið hætt. Slíkt gjald hefur enn fremur verið innheimt í nágrenni Hafnarfjarðar, en því hefur einnig verið hætt. Þess vegna finnst okkur flm. þessarar till., að tími sé til kominn að hætta að innheimta öll fjarlægðargjöld, að minnsta kosti í úthverfum Reykjavíkur, en þeir, sem þetta gjald greiða, eru fyrst og fremst íbúar Kópavogshrepps og þeir, sem búa ofan við Elliðaár. Segja má, að engir hafi meiri þörf fyrir símaafnot en þeir, sem í úthverfunum búa. Hér er því um sanngirnismál að ræða, sem ekki er verulegt fjárhagsatriði fyrir landssímann. — Læt ég mér að öðru leyti nægja að vísa til grg. fyrir till. og óska þess, að málinu verði vísað til fjvn.