21.02.1951
Sameinað þing: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (4277)

179. mál, verndun fiskimiða fyrir Vestfjörðum

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir orð hv. þm. N-Ísf., er hann hefur látið hér falla um verndun fiskimiðanna. Það er augljóst mál, að ef ekki koma til verulegar aðgerðir að því er snertir rýmkun landhelginnar, horfir til landauðnar í sjávarþorpunum eða á þeim stöðum, sem byggja afkomu sína á bátaútveginum. Þetta er mjög afdrifaríkt mál, og hér verður að gera ráðstafanir skjótt, er miði í þessa átt. Þær lýsingar, sem hv. þm. N-Ísf. hefur gefið af ástandi bátaútvegsins fyrir Vestfjörðum, eiga líka við annars staðar. Svipaða sögu má segja héðan frá Faxaflóa og Breiðafirði. Þar hefur á undanförnum árum afli alltaf farið hraðminnkandi. En þessa hefur þó ekki gætt eins mikið og halda mætti, og það er einvörðungu að þakka því, að útvegsmenn hafa alltaf verið að lengja línurnar, sem þeir leggja í sjó. Þetta veldur svo því, að sá tími, sem fer í hvern róður, lengist, og fer oft heill sólarhringur í róður, og því er ekki hægt að fara í róður næsta dag á eftir. Í þessu felst svo geysilegur kostnaðarauki vegna hinna löngu lína, og þar að auki mikill beitukostnaður. Það er því álitamál, hversu mikil hagsbót þetta hefur verið, en viðleitnin hefur nú samt beinzt í þessa átt. Svona er nú komið, og nú er t. d. liðið nokkuð á yfirstandandi vertíð, og það má heita, að enginn afli sé kominn á land. Undanfarið hafa þó bátar lagt um 40 bjóð og svo komið með 2–3 tonn úr róðri og stundum minna. Af þessu má sjá, hvernig nú horfir í þessum málum. Af þessu má marka, hve búið er að sverfa fiskimiðin. Af þessum sökum er viðhorfið líkt í Faxaflóa og Breiðafirði og á þessu svæði. Ég flyt brtt. um að framlengja svæðið og hafa það Horn-Reykjanes og fer fram á, að það verði látið taka til þessara landshluta. Á síðasta ári var tekin ákvörðun um að færa út landhelgina á svæðinu Horn-Langanes. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir þetta svæði. Þó að þess gætti ekki í sumar, þá hefði það sýnt sig, ef síldin hefði komið, hverja þýðingu þetta hefði, jafnmikill fjöldi erlendra veiðiskipa og er á miðunum. Sama máli er auðvitað að gegna um þorskveiðar á þessu svæði. Ég vil ítreka orð hv. þm. N-Ísf., að óskandi væri, að tími mætti vinnast til að afgr. þessa till. áður en þingi lýkur í því formi, sem ég hef markað með minni till. — Viðvíkjandi brtt. á þskj. 697, þá getur það verið þýðingarmeira að gera ráðstafanir til að verja svæðið utan landhelgi fyrir íslenzkan veiðiflota. En það mundi kosta verulega gæzlu, og erfitt að halda því, nema hafa þar gæzluskip að staðaldri, sem ekki þarf að sinna öðru. Annað atriði er það, að ef tekst að færa út landhelgina, þá þurfum við á öflugri landhelgisgæzlu að halda og verðum að kappkosta að hafa gæzluflotann í sem beztu lagi.

Ég vil ekki fara fleiri orðum um þetta, en bendi á, að í Faxaflóa er ein þýðingarmesta klakstöð við strendur landsins, og hefur það mikla þýðingu, að hægt sé að vernda uppeldisstað ungfiskjarins.