13.12.1950
Efri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

8. mál, gjaldaviðauki 1951

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú gefið til kynna, að það sé ekkert smávægilegur jólabakstur, sem hæstv. ríkisstj. hefur stungið inn í ofninn og hyggst fá bakaðan fyrir jól. Það er sem sé boðað, að ríkisstj. telji sig þurfa að fá 9,5 millj. í hækkuðum sköttum. Þegar fjárlfrv. var til umr., var ekkert látið í ljós um þessa væntanlegu hækkun, en nú upplýsir ráðh., að ríkisstj. hafi ætlað sér að afla fjár til tveggja liða. Í fyrsta lagi vegna greiðslu á vísitöluuppbót um 7 stig þarf 5 millj., og til trygginganna 1,5 millj.; það er að vísu liður, sem ríkisstj. virðist ekki hafa ætlað sér að verja fé til, þegar fjárlfrv. var til umr., en hafa tekið ákvörðun síðan. Eins og ég tók fram við 2. umr. fjárlfrv., taldi ég, að fjárl. þyldu vel gjaldahækkun um allt að 32–35 millj. Mér fannst við athugun á 2. og 3. gr., miðað við 1949 og þá 10 mánuði, sem liðnir eru 1950, allar líkur benda til að þeir tekjuliðir hlytu að gefa a.m.k. 30–35 millj. kr. meira en hæstv. fjmrh. hafði áætlað í fjárlfrv. Ég er því þeirrar skoðunar, að þrátt fyrir það, að tekin sé ákvörðun um að hækka greiðslur til trygginganna og bæta laun um 7 vísitölustig, þá sé ástæðulaust að leggja nýja skatta á landslýðinn þess vegna. Hæstv. fjmrh. hefur t.d. látið þess getið um verðtollinn, sem gaf 57 millj. árið 1949, að hann muni með sama innflutningsmagni 1950 gefa um 90 millj. kr. tekjur. Það mætti því vera meira hrunið í innflutningi síðan 1949, ef þessi tollur gæfi ekki nema sömu upphæð nú og hann gerði þá. Nú má ekki miða við 1950, þegar áætlun er gerð fyrir 1954, því að hækkun gengisbreytingarinnar kemur aðeins að 3/4, í ljós á þessu ári. Hækkunin á þessum lið kemur hins vegar öll í ljós árið 1951, og til þess verður að taka tillit við áætlun þeirra tekna. Við athugun á tekjum af verðtolli miðað við 1. nóv. get ég ekki séð, að þær muni verða minni en 78 millj., og þá fæ ég ekki séð, hvaða ástæða er til þess að tala um 73 millj. eða 60 millj., eins og hæstv. fjmrh. gerði, þegar talað er um að leggja á nýja skatta. Ég sýndi fram á það við 2. umr. fjárlfrv., að áætlaðar tekjur af tóbakseinkasölunni og áfengisverzluninni eru allt of lágt reiknaðar. Það sýnir sig, að tekjurnar af þessum liðum fara sífellt hækkandi, og árið 1949 gaf vínsalan þannig 53,2 millj. króna í nettótekjum í ríkissjóð. En nú vill hæstv. ráðh. ekki áætla þetta nema 46 milljónir, enda þótt nettóafgangur af tekjum áfengisverzlunarinnar væri orðinn 43 millj. þegar 1. nóv., eða á fyrstu 10 mánuðum s.l. árs 4,3 millj. kr. til jafnaðar. Við 43 millj. virðist því öruggt að megi bæta a.m.k. 8,6 millj., og er þannig auðséð, að tekjurnar af áfengissölunni muni fara upp í 52 milljónir króna, þar sem engin lækkun er fyrirsjáanleg á þessum tekjum, og ekki annað fyrir hendi en að horfast í augu við þann óhugnanlega sannleika, að fyrir þetta er drukkið í landinu, og það er engin hollusta við málstað bindindismanna að draga fjöður yfir það. Drykkjuskapur með þjóðinni fer nú einu sinni ekki eftir því, hvaða áætlanir eru gerðar um þessa blóðpeninga; hann minnkar ekkert, þó tekjurnar séu áætlaðar minni. Það er staðreynd, að ríkisstj. hefur á að byggja skýrslur, sem sýna 52 millj. kr. nettótekjur af áfengíssölunni, og það er 6 millj. kr. hærri tala en áætlun hæstv. ráðh. á fjárlfrv.

Allt eins ljóst liggur það svo fyrir, að tekjur af tóbakseinkasölunni eru of lágt áætlaðar. Hagnaður af henni var 26,9 millj. kr. árið 1949. Og þegar hæstv. fjmrh. samdi fjárlfrv. í haust, þá taldi hann, að tekjur af tóbakseinkasölunni yrðu mun drýgri en árið áður, enda voru þær í byrjun nóvember orðnar 24 millj. kr. En í áætlun hæstv. ráðh. eru þær aðeins 22 millj. kr. fyrir allt næsta ár. Það er þó fyrirsjáanlegt, að þessar tekjur verða 29 millj. kr. á þessu ári, og er enginn flugufótur fyrir því að áætla þetta svo miklu lægra, eða 6–7 millj. lægra en tekjurnar verða á þessu ári.

Þessir póstar einir, rétt áætlaðir miðað við reynslu undanfarinna ára, — og það er það eina, sem vit er að miða við —, munu þannig fyllilega standa fyrir öllum þeim útgjaldapóstum, sem hæstv. ríkisstjórn ákveður að taka inn á fjárl. til viðbótar auk þeirra, sem samþ. hafa verið af hv. fjvn.

Nú árar síður en svo þannig í þessu landi, að rétt sé að leggja á almenning nýjar byrðar að tilefnislausu eða tilefnislitlu. Og með rétt áætluðum tekjum, þó ekki sé nema af þessum tveimur tekjugreinum, þá má fyllilega búast við, að þær nægi án þess lagðir séu á þessir nýju skattar. Ég leyfi mér því að lýsa því yfir, að ég mun greiða atkv. á móti þessu nýja skattafrv. hæstv. ríkisstj., sem ég tel að tilefnislausu fram komið.