14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

1. mál, fjárlög 1951

Einar Olgeirsson:

Ég vil ítreka það, sem ég tók fram í minni ræðu áðan, að ég álít heppilegt, ef hæstv. forseti vildi fresta þessum umr. og taka þær upp aftur við lokaafgr. fjárl. sjálfra. Ég álít, að á því millibili gætu menn fundið þau lögformlegu form, sem fullnægðu þeim þm., sem nú hafa komið fram með rökstudda krítík á þetta form, sem hæstv. forseti vill hafa. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að fresta þessum umr. þar til við lok 3. umr. Ég vil fyrir mitt leyti leggja til, að það yrði komið sér saman um ákveðna breyt. á þingsköpum. Ég vil í því sambandi benda á það, að ef svona breyt. yrði samþ., að stjórnarandstaðan hefði rétt til að fá eldhúsdagsumr. frestað þar til eftir að fjárl. hefðu verið samþ., þá liggja eðlileg rök til slíkrar breyt. Það var eðlilegt, að slíkar umr. færu áður fyrr fram í sambandi við fjárl. Þau voru þá algerlega aðalmál þingsins um fjárhag þjóðarinnar og því eðlilegt, að hinar almennu stjórnmálaumr. færu fram í sambandi við þau. Nú er þessu breytt. Nú er um það rætt, hvernig ríkisstj. stjórnar fjármála- og atvinnumálum þjóðarinnar í heild. Nú er rætt um það, hvernig haldið er á fjárlögum þjóðfélagsins, ef svo mætti segja. Það hafa orðið breyt. í þjóðlífinu síðustu 10–20 árin, og er eðlilegt, að breyt. verði á tilhögun eldhúsdagsumr. í samræmi við það. Nú er rætt um það, hvernig séð er fyrir útgerð, landbúnaði, iðnaði, verzlun og öðrum slíkum höfuðmálum þjóðfélagsins, og það er ekki nema eðlilegt, að gera þurfi breyt. á þingsköpum í samræmi við það.

Þá vil ég benda hæstv. forseta á eitt. Hann gaf yfirlýsingu um það, og það er ágæt yfirlýsing frá hans hálfu, að hann liti svo á, að það, sem hann ákvæði nú sem forseti, væri bindandi fyrir þann, sem yrði forseti, ef hann kynni að forfallast. En svo rís upp hv. 1. þm. Árn., sem er 1. varaforseti Sþ., og hann tók greinilega fram, að yfirlýsing þessa hæstv. forseta gilti á engan hátt, ef hann tæki við eftir nokkra daga. Það er því miklu réttara og öruggara að semja betur um þetta, því að þótt orð hæstv. aðalforseta séu góð, þá gæti verið kominn annar forseti á morgun. Það er því rétt að taka tillit til þess, þegar 1. varaforseti, sem er gamall og vanur forseti í þinginu, tekur svona djúpt í árinni.

Ég held, að það sé ekki mikill vandi að finna form, sem fullnægir öllum l. í þessu efni, ef formenn þingflokkanna koma saman og ræða um þetta. Ég vil því óska, að þessum umr. verði frestað þar til í lok 3. umr.