14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

1. mál, fjárlög 1951

Gísli Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér að vekja athygli forseta á því, að hér er fremur þunnskipað á fundi. Eru helzt til fáir viðstaddir úr ríkisstj. og fjvn. til að hl,ýða á rök þm. fyrir brtt.

Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 402 brtt. undir rómv. 24 við 22. gr. fjárl., að heimila ríkisstj. að láta gera tilraun til að grafa sundur malarrif á Þórshöfn í samræmi við álit sjútvn. Ed. á Alþ. 1947. Ég hef ástæðu til að ætla, að nokkrum misskilningi valdi e.t.v., að þessi till., eða till. svipaðs eðlis, var ekki tekin upp af fjvn., og ég vil stuttlega leyfa mér að gera grein fyrir því.

Á Alþ. 1947 var flutt af þáverandi þm. N-Þ. frv. um landshöfn á Þórshöfn. Ætla ég, að það hafi verið öðrum þræði byggt á áliti mþn., sem þá hafði starfað í sjávarútvegsmálum og m.a. hafði til athugunar, á hvaða stöðum æskilegt væri að byggja landshöfn. Sú mþn. hefur bent á Þórshöfn meðal þeirra staða. Hefur það verið gert með sérstöku tilliti til aðstöðu þessa staðar gagnvart norðausturmiðunum. Þetta frv. um landshöfn á Þórshöfn var flutt þá í Ed. og vísað til sjútvn. Þegar farið var að athuga frv. þá, kom í ljós, að þær áætlanir, sem gerðar höfðu verið um mannvirki til landshafnar þarna, stóðust ekki. Hér sýndist vera um nokkru dýrara mannvirki að ræða, sem mundi kosta með núverandi verðlagi nokkrar millj. kr. Því var farið að athuga, hvort ekki mætti gera þarna viðunandi hafnarmannvirki með minni kostnaði. Vitamálaskrifstofan benti þá á það, að möguleiki væri til þess að gera þarna allgóða hafnaraðstöðu með miklu minni kostnaði en áætlunin var um, þ.e. ef takast mætti að grafa sundur malarrif, sem hindrar innsiglingu stærri skipa á höfnina. Það er nokkuð mikið dýpi bæði fyrir innan og utan rifið, en miklu minna á rifinu, svo að smáskipum einum er fært yfir. Nú hefur lauslega verið athugað, hvort hægt er að gera rás gegnum rifið. En þær athuganir voru engan veginn taldar fullnægjandi, þannig að ekki þótti vitað, hvort hægt væri að vinna þetta verk með viðráðanlegum kostnaði. En vitamálaskrifstofan taldi hins vegar ástæðu til að athuga þetta betur, og sérstaklega þegar til þess væru komin ný tæki í sambandi við hið nýja dýpkunarskip ríkisins, svo að gengið yrði úr skugga um, hvort hægt væri að grafa sundur rifið og gera þannig sæmilega hafnaraðstöðu með miklu minni kostnaði. Þá var það, að sjútvn. Ed., sem hafði málið til meðferðar, var sammála um, að það væri rétt að reyna þessa lausn málsins, og kemur það fram í áliti hennar, sem vitnað er til í þessari till. Var málið þá afgr. samkv. till. n. með dagskrá, sem fól í sér þetta álit n. Flm. frv. um landshöfn sætti sig við það, að málið yrði ekki afgr. á annan hátt en þennan, og gengið yrði þá út frá, að þessi tilraun yrði gerð. Þannig féll þá frv. um landshöfn á Þórshöfn niður, þar eð vonir stóðu til að bæta höfnina með minni kostnaði.

Í fyrravetur ræddi ég þetta mál allýtarlega við vitamálastjóra. Það stóð þá þannig, að ekkert hafði verið í því gert, tilraunin ekki framkvæmd. En ég varð þess strax var, að vitamálastjóri var þess mjög fýsandi að leysa málið þannig. Í vor sem leið ræddi ég og málið við atvmrh. og fjmrh., og voru þeir einnig þessa mjög fýsandi og vildu fyrir sitt leyti gjarnan úr greiða; gerðu að vísu nokkrar ráðstafanir til þess. En það reyndist ekki fært að koma tilrauninni í framkvæmd, og hefur hún ekki enn verið gerð. Hins vegar hafa þau tíðindi gerzt þarna á staðnum, að orðin er enn ríkari ástæða en áður til að bæta höfnina, þar sem þarna hefur hafizt síldarverkun í stórum stíl og útlit er fyrir, að framhald verði á þeim atvinnurekstri þar. Þetta veldur nauðsyn þess að bæta höfn og tæki. Auk þess er svo ýmiss konar annar rekstur að vaxa, sem kallar á hafnarmannvirki. Á þessum vetri hef ég enn tekið þetta mál upp við vitamálastjóra, og er hann enn sem fyrr hvetjandi þess, að áðurnefnd tilraun verði gerð. Hef ég einnig sent fjvn. erindi um málið, þar sem ég stakk upp á, að tekin yrði upp á 22. gr. heimild handa ríkisstj. í þessu efni. Ég taldi það heppilegra en að fara fram á sérstaka fjárveitingu, m.a. af því, að samkv. till. sjútvn. Ed. 1947, sem ég áður nefndi, er gengið út frá því, að ef tilraun þessi, ef gerð yrði, mistækist, greiddi ríkissjóður kostnaðinn við hana. En ef hún tækist, færi um greiðslu kostnaðar eins og annan kostnað slíkan, að hafnarsjóður greiddi 3/5, og ríkið 2/5. Þess vegna fannst mér eðlilegast að ganga frá málinu í heimildarformi, að ekki er hægt að nefna ákveðna upphæð, með því að ekki liggur fyrir, hvað tilraunin mundi kosta. Ég sendi fjvn. erindi um þetta, og af viðtali við formann veit ég, að hann vill mjög gjarnan greiða fyrir málinu. En svo hefur þetta ekki verið tekið upp í n. Ætla ég það stafi af því, að þar hefur komizt inn misskilningurinn, sem ég nefndi áðan, að það væri í rauninni búið að gera tilraunina, sem talað var um 1947, og þess vegna væri ekki lengur um tilraun að ræða, heldur verkið sjálft. En ekkert hefur verið að þessu unnið síðan 1947. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja til, að þessi heimild verði veitt á 22. gr., og mun vænta þess, að hún verði notuð, ef ástæður leyfa. Vildi ég nú mega vænta þess, að málefni þetta verði tekið til velviljaðrar íhugunar af fjvn.- mönnum og öðrum. Ég vil taka fram, að í fjárl. eru til hafnar á Þórshöfn 30 þús. kr. En fyrir þá fjárveitingu á að vinna annað. Stendur til að auka þar bryggjur á næsta sumri, vegna þess að sá nýi atvinnurekstur, sem þarna er hafinn, þarfnast þess. Geri ég ráð fyrir, að sízt muni veita af þeirri upphæð til að koma því verki áfram. En ef svo vel væri, að upphæðina þyrfti ekki að nota til fullnustu, mundi féð koma að notum við dýpkunartilraunina.

Ég vona, að ég hafi skýrt þetta mál þannig, að nokkurn veginn sé ljóst hv. þm. Vildi ég mega vænta þess, að vel yrði tekið undir, því að nauðsynin er mikil fyrir staðinn að fá sínar hafnarbætur, og nauðsynlegt að fá skorið úr, hvort þarna er hægt að gera allgóða höfn fyrir tiltölulega lítið fé eða hvort til þess þarf milljónir króna. Sé svo, er málið komið inn á allt annað svið.