14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

1. mál, fjárlög 1951

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla að segja hér örfá orð út af orðum hv. 6. landsk. þm. (HV), en það er ætlazt til þess, að við tölumst aftur við í eldhúsinu eftir jólafríið, og er ekki tími til að ræða þau mál nú í nótt, sem hann gerði sérstaklega að umtalsefni.

Ég vil aðeins vekja athygli á því í sambandi við brúasjóð, að áður en ég kom í ríkisstj., hafði sjóðnum verið ráðstafað af þáverandi samgmrh., og það fyrsta, sem ég gerði, eftir að ég tók við samgöngumálunum og fór að athuga þessi mál, var að vekja athygli ríkisstj. á því, að mér væri þetta óheimilt, þar sem l. mæla fyrir á annan hátt. Þess vegna var það, að ég tók upp umr. um þetta mál í ríkisstj., og það varð að samkomulagi að láta þær ráðstafanir standa, sem gerðar höfðu verið, og að bæta við brú á Jökulsá í Fljótsdal. Síðan var látið við þetta sitja, og var ekki einu sinni hægt að framkvæma það, sem þegar var ákveðið, þ.e. brú á Skjálfandafljót, Blöndu og Jökulsá í Fljótsdal, bæði vegna fjárskorts innanlands og vegna þess, að gjaldeyrir fékkst ekki til þess að kaupa fyrir efni í þær. Till. vegamálastjóra höfðu verið lagðar fyrir hv. fjvn., og var þar gert ráð fyrir þessum brúm: á Blöndu, Skjálfandafljót, Jökulsá í Fljótsdal, Jökulsá í Lóni og Hvítá, og það er vitað mál, að það getur ekki tekið minna en 2 ár að fullgera þessar brýr. Þessum till., sem sendar höfðu verið til fjvn. og ekki hafði heldur verið hreyft við, taldi ég mér ekki heimilt að breyta, enda fyrirsjáanlegt, að þær brýr, sem þegar höfðu verið ákveðnar og samkomulag náðst um í fyrra, verða naumast byggðar á árinu. Hins vegar er það rétt, sem hv. 6. landsk. talaði um, og ég tel, að ég mundi vera því meðmæltur, en á þeirri forsendu, sem ég hef þegar tekið fram, að hv. Alþ. hefur heimild til að gera þær ráðstafanir, sem því þóknast í þessum efnum, og ég get því ekkert annað gert en að vera þessu meðmæltur. Ég tel eðlilegt, að brú á Selá sé tekin í framhaldi af því, sem vegamálastjóri hefur lagt til, og enn fremur önnur á Vestfjörðum, sem er Staðará. Það verður ljóst af þessu, ef þeim till. verður fylgt, sem vegamálastjóri hefur gert, að það verða teknar fyrir 2 brýr á Norðurlandi, á Blöndu og á Skjálfandafljót, 2 brýr á Austurlandi, á Jökulsá í Fljótsdal og Jökulsá í Lóni, og á Suðurlandi verður tekin fyrir stærsta og dýrasta brúin, og verð ég því að telja það ósanngjarnt, ef þessar brýr verða ekki teknar fyrir á Vestfjörðum, sem kosta ekki nema 600–700 þús. kr., og þótt þær verði teknar með, hallar enn á, að fénu yrði eðlilega dreift. En ég verð að endurtaka, að þetta er aðeins það, sem ég mundi leggja áherzlu á að yrði lagt fram sem till. til Alþ., því að samkv. l. um brúasjóð hef ég ekki heimild til að ráðstafa honum, þótt þeirri reglu hafi ekki verið fylgt, áður en ég tók við þessu starfi.