18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

21. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég sagði það áðan, að ég mundi hera fram rökstudda dagskrá við þetta mál. Ég vil nú leyfa mér að lesa hana hér upp.

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða lög nr. 64 28. jan. 1935, um ríkisborgararétt, hversu menn fá hann og missa, og leggi fyrir næsta Alþingi frv. til laga um breytingar á þeim lögum, þar sem ákveðnar reglur séu settar fyrir því, hvaða skilyrði menn skuli uppfylla til þess að öðlast ríkisborgararétt, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég mælti fyrir þessu áðan og þarf ekki fleiri orð um það að hafa, að ég tel rétt, að um þetta séu settar ákveðnar reglur og þegar þær einu sinni hafa verið uppfylltar, þá sé það á valdi sérstakrar stjórnardeildar að veita mönnum þennan rétt og Alþingi hafi þar ekkert um að segja, nema það vilji breyta þeim reglum, og þá verði það gert með lagabreytingum, en því verði hins vegar hætt að bera fram um það sérstakt frv., hvenær menn skuli fá ríkisborgararétt.

Ég verð nú að segja það, að ég hef aldrei heyrt önnur eins rök og þau, sem fram komu hjá hv. frsm. n. áðan fyrir þessu máli, hvernig ætti yfirleitt að fara með þau mál, sem á einhvern hátt hafa vakið vonir í brjósti einhverra manna. Ég held, að ef ætti að samþ. öll mál, sem vekja einhverjar vonir hjá einhverjum, þá yrði nú að samþ. flest mál. Ætli yfirleitt séu borin fram nokkur mál hér á þingi, sem ekki vekja einhverjar vonir? Hvernig hefði þá átt að fara með söluskattinn? Hefði ekki átt að samþykkja hann? Ætli hann hafi ekki vakið vonir hjá mörgum einstaklingum í þeim bæjarfélögum, sem nú eru aðframkomin og illa stödd? Þetta er alveg ný kenning um það, hvenær eigi að samþ. mál og hvenær ekki. Það var samþ. í Nd., að söluskatturinn skyldi renna að nokkru til bæjarfélaganna, en við hér í þessari deild vildum ekki samþ. það vegna þeirrar ábyrgðar, sem því fylgdi að stefna þannig öllu fjármálalífi landsins í voða. En ef við hefðum átt að fara eftir því, hvort það frv. hefði verið búið að vekja einhverjar vonir í brjósti ýmissa manna, þá held ég, að við hefðum nú mátt samþ. hann. Og ef það á nú að fara að innleiða þessa reglu, þá vil ég biðja menn að minnast hennar, þegar að því kemur að greiða atkvæði um mörg af þeim málum, sem ég hef borið fram. Ég held satt að segja, að þau hafi vakið vonir í brjósti margra og að ýmsir verði fyrir vonbrigðum, ef þau verða ekki samþykkt. (HG: Ég held það verði enginn fyrir vonbrigðum.) — Ég verð að segja það, að ég tel, að þetta séu ákaflega veik rök fyrir einu máli.

Ég vil svo ekki vera að tefja þetta mál með frekari umr., en leyfi mér að leggja þessa rökstuddu dagskrá fram, og vona, að menn sjái, að það er langréttast að afgreiða þetta mál nú á þann hátt, sem þar er lagt til.