19.01.1952
Neðri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti ég yfir því út af ræðu hæstv. forsrh., þar sem hann sagði, að eðlilegt væri að verða við kröfum bæjarstjórna um eðlilegar og nauðsynlegar tekjuöflunarleiðir, að ég mundi bera fram brtt. við 1. gr. þessa frv. — Ég leyfi mér nú að leggja þessa till. fram, en hún er á þá leið, að í stað orðsins „sveitarstjórnir“ í 1. gr. frv. komi: bæjarstjórn Akureyrar, — og að fyrirsögn frv. breytist í samræmi við þetta. Ég vænti þess, að ég megi skilja forsrh. á þá lund, að þegar bæjar- og sveitarstjórnir þurfa á tekjustofnum að halda og finna þá, þá megi treysta því, að ríkisstj. og Alþ. veiti þeim nauðsynlegar heimildir, en ég tel ekki, að veita eigi almenna heimild í þessu skyni. Ég man, að einstakir kaupstaðir hafa áður beðið um sérstakar heimildir í þessa átt, t.d. Vestmannaeyjar. Er það í samræmi við þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf. Ég vil ekki þrengja að sjálfstæði bæjarfélaganna, og ég tel, að eðlilegast sé, að þessi háttur sé hafður á þessu.

Ég leyfi mér því að leggja fram þessa skrifl. brtt. og vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni.