22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er um brtt., sem ég flutti við það mál, er um ræðir, en hún er á þskj. 719. Það er um þetta að segja, að mér finnst, að frv. hefði átt að vera takmarkað við þennan eina stað, sem beiðni er frá, en mér skilst, að það sé aðeins um Akureyri að ræða í því sambandi. Hitt hefur verið viðurkennt, að bæjunum beri að fá hlutdeild í skatttekjum þeim, er nú renna í ríkissjóð, en því var neitað af hæstv. ríkisstj., sem aftur á móti vill rétta skattþegnum bæjanna þessa heimild, sem getur orðið eins og svipa ofan á ýmsar skattgreiðslur í viðbót við geysihá útsvör.

Hv. frsm. sagði, að það væri ekki hundrað í hættunni, þó að heimild þessi yrði gefin og málið lagt í hendur sveitarstjórnanna. Það er nú svo, að sveitarstjórnir eru misjafnar eins og annað og aðstæður allar ólíkar. Útsvörin eru geysihá, en það hefur þó mætt mest á nokkrum kaupstöðum, t.d. mínu kjördæmi. Ég held, að það geti ekki verið neinn greiði við skattþegnana, þó að þeim, sem stjórna eyðslunni á almannafé, séu gefin aukin tækfæri til að leggja á skatta. Og þetta kemur ekki þyngst niður á þeim, er einhverjar fasteignir eiga að ráði, heldur einstökum heimilisfeðrum, sem hafa reynt að eignast þak yfir höfuðið á sér og sínum.

Það er eins og einn Alþýðuflokksmaður utan þings sagði, að hann teldi, að með þessu frv. væri millistéttunum mest hætta búin. Það er með þetta fyrir augum, að ég flutti þessa brtt., til þess að það sé ekki hægt að hlaupa að því að nota þessa heimild án þess að stilla útsvörunum eitthvað í hóf. Það, að félmrn. hafi hönd í bagga með því, hvort einstök bæjar- og sveitarfélög megi nota heimildina, er því sett til þess að takmarka að einhverju leyti þessa álagningu. Með þessu er verið að skapa fordæmi, sem ekki er ástæða til annars en að halda að verði notað eins og hægt er. Útsvör hjá bæjarog sveitarfélögum eru alls staðar há. Það ætti því að nægja, að útsvörin skuli standa óbreytt. Með slíka löggjöf í gildi og þá, sem nú ríkir í þessum málum, finnst mér óþarfi að opna nýjar leiðir til þess að skapa auknar álögur, því að þetta verður ekki til að draga neitt úr öðrum álagningarliðum, heldur er þetta aukning.

Nú vil ég spyrja hv. frsm. í sambandi við hina föstu liði, sem hann var að tala um að bæjar- og sveitarfélögin þyrftu að hafa, t.d. í sambandi við sorphreinsun, að það er til heimild í l., sem stangast á við ákvæði þessa frv., hvort það sé tilgangurinn, að þetta frv. upphefji hin l. Það yrði þá með öðrum orðum tvenns konar fasteignaskattur á ferðinni.

Hv. frsm. taldi sig ekki hafa nein bréf upp á það, að þessi heimild mundi verða notuð í sveitunum. Það er þessi gamli sálmur, sem menn af hans flokki syngja alltaf, að ef sveitirnar sleppi, þá geri ekkert til, þó að lagt sé á bæjarfélögin. Mér finnst það mjög varhugavert að gefa út þessa heimild án þess að binda þetta nakkuð með l.

Ég skil þetta frv. þannig, að með því að afla sveitar- og bæjarfélögunum þannig tekjuaukningar, þá mætti það verða til þess að draga eitthvað úr hinum allt of háu útsvörum, og til þess að sveitarfélögin fái eitthvert aðhald í þessu efni, flyt ég þessa brtt. mína. Hitt er svo annað mál, hvað rétt sé að ákveða fasteignamatið við endurskoðun, en hér er aðeins verið að tala um aukagjald ofan á allt hitt. Hér er sem sagt um það að ræða, að Framsfl. er að rétta sveitarfélögunum hjálparhönd til þess að ná húskofum fólksins, eftir að búíð er að kúga fram neitun á sanngjarnri kröfu um að fá hlutdeild í söluskattinum til þess að létta undir með þessum aðilum. Það er sami flokkurinn sem kúgar fram þá neitun og ætlar að koma á þessari auknu álagningu.