15.11.1951
Efri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

3. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er lagt fyrir Alþ. til þess að fá staðfestingu á bráðabirgðalögum frá 6. júlí 1951, sem ríkisstjórnin þá gaf út. Var þá talið auðséð, að skuldaskilasjóði reyndist ókleift að standa við skuldbindingar sínar án fjárhagslegrar aðstoðar við bátaútveginn. En til þess að jafna þau met þurfti skuldaskilasjóður að afla sér fjár með einu eða öðru móti. Ríkisstjórnin varð því að hlaupa undir bagga og þurfti því að fá samþykki til þess að taka lán til þess að lána aftur skuldaskilasjóði. Allt þetta mál heyrir að vísu sögunni til nú orðið. En ég held, að nefndin hafi ekki talið neinn vafa á því, að þessi ráðstöfun var rétt á þeim tíma, sem hún var gerð, og telji því rétt að samþykkja þessi brbl., sem hér um ræðir, og með því er ég að segja það, að nefndin leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.