20.11.1951
Efri deild: 31. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. N. hefur athugað málið og komizt að þeirri niðurstöðu að leggja til, að það verði samþ. Enda þótt frv. þetta muni hafa töluverð útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð allt til ársins 1954, þá finnst okkur það sjónarmið eðlilegt, að ríkissjóður taki þessi útgjöld á sig, heldur en ástandið sé látið vera áfram eins og það er nú. En bændurnir á fjárskiptasvæðunum, þar sem allt hefur verið skorið niður og hafa orðið að kaupa nýjan stofn, geta nú ekki borgað þau lán, sem þeir hafa orðið að taka með 6–7% vöxtum. Mér er, kunnugt um, að bændurnir í Borgarfjarðarsýslu, sem fengu þessi bréf, urðu í haust að fá lán til þess að kaupa nýjan fjárstofn og að þeir urðu að greiða 6% í vexti auk framlengingargjalds. Í stað þess að neyða bændurna til þess að borga þessa háu vexti, þá finnst okkur nm., að ríkissjóður ætti sjálfur að borga hærri vexti, þar sem þar við bætist, að það er erfitt að fá lán og það er á valdi ríkisstj. á hverjum tíma, hve mikið hún notar sér heimildina til að greiða bæturnar í bréfum, og að því leyti hefur hún það á valdi sínu, hve vaxtagreiðslan verði há. Sé þannig ástatt, að ríkisstj. treysti sér ekki til að standast þessi miklu vaxtaútlát af skuldabréfunum, þá verður hún að greiða bæturnar á annan hátt, þ.e. í peningum.

Að svo mæltu legg ég til fyrir hönd n., að frv. verði samþ. óbreytt.