04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

101. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Meiri hl. allshn. hefur ekki enn átt þess kost að sjá brtt. hv. 2. þm. Reykv., þar sem henni var ekki útbýtt fyrr en á þessum fundi, og get ég þess vegna ekki lýst neinu yfir fyrir hönd n. um afstöðu hennar, en hins vegar vil ég segja það út af ræðu hans, að utanrmn. verður sízt verr skipuð, eftir að þessi breyting hefur farið fram, og að hún er á engan hátt til meins. Eina breytingin er sú, að það eru færri menn, sem um þessi mál fjalla, en áður tíðkaðist. — Það, sem hann lagði aðalláherzlu á, var það, hvaða málum ætti að vísa til n. Í þessu frv. er ekki einn stafur um það að breyta því fyrirkomulagi, sem þar hefur verið haft á; hitt er það eina, að þar verða færri menn en áður. Þetta frv. gefur ekki til kynna, að neinar breytingar verði í þeim efnum, og þarf ég ekki að fjölyrða um það. Það má halda þeirri venju, sem tíðkazt hefur, þó að þetta frv. verði samþykkt.