04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

101. mál, þingsköp Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er hræddur um, að hæstv. atvmrh. sé farið að förlast minni, og vildi ég í tilefni þess, sem hann sagði, segja við hann nokkur orð.

Við sósíalistar erum ekki að biðja um að haft sé samstarf við okkur. Við erum einungis að krefjast þess réttar, sem kjósendur okkar hafa gefið okkur. Það er aðeins sú krafa, sem við setjum fram, þegar við sjáum, að það á að fara að útiloka okkur frá því að geta haft áhrif á þau mál, sem mesta þýðingu geta haft fyrir íslenzku þjóðina, sem eru samningarnir við Bandaríkin og önnur ríki, hvort sem það eru verzlunarsamningar eða skipun sendiherra meðal erlendra ríkja. Í því tilliti teljum við að eigi að fara að vilja Alþingis, og við eigum fullan rétt á að geta haft þar þau áhrif, sem okkur ber samkv. fjölda okkar. Þó að hæstv. ráðh. gefi digurbarkalegar yfirlýsingar nú, má hann gjarnan minnast þess, að hann hefði betur ráðfært sig við okkur sósialista í fleiri málum, því að þegar hann hafði samráð við okkur, gerði hann það eina, sem mun halda nafni hans á lofti í framtíðinni.

Þá vil ég segja það við hann út af þeim stöðugu uppnefningum, sem hann og hans skoðanabræður láta ganga, að við sósíalistar séum einræðisflokkur, — þá vil ég bara minna hann á, að við erum þó eini flokkurinn, sem ekki hefur það á samvizkunni að hafa brotið stjórnarskrá ríkisins. Ég á þar ekki við þau afglöp, sem framin voru í vor, þegar hernámssamningurinn var gerður við Bandaríkin, heldur á ég þar við þau stjórnarskrárbrot, sem gerð voru 1941, þegar kosningunum var frestað, en fór svo allt út um þúfur, af því að þeir gátu ekki komið sér saman um, hvernig ætti að haga bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Þeir flokkar, sem þá brutu stjskr. og tóku sér það umboð, sem þeir ekki höfðu, skreyta sig nú mest með lýðræði og öðrum stássfjöðrum. — Og ég held, að það væri nær fyrir þessa flokka að gala lægra um það, að við sósíalistar þurfum að taka sinnaskiptum, því að ég veit ekki betur en að við höfum varla haft tíma til að komast frá samningaborðinu frá öðrum til þess að fara að semja við hinn, svo fúsir hafa þeir verið að semja við okkur.

Þá vil ég leyfa mér að rif ja upp fyrir honum nokkur þau atriði, sem hann virðist mest vera farinn að ryðga í í sambandi við viðskiptamálin. — Hann var að tala um samningana 1946 við Rússa. Man hann ef til vill eftir því, að viðskiptin við þá hófust ekki fyrr en 1946, og man hann kannske eftir því, að það var síldarlýsið, sem var viðkvæmasta málið? Man hann eftir því, að það hafði verið svo, að Unileverhringurinn brezki hafði keypt af okkur allt síldarlýsið á 38 £ tonnið? Og man hann kannske eftir því, að í febrúar 1945 var ákveðið að selja líka framleiðsluna 1945 á sama verði, eftir að hann hafði ráðfært sig við þá menn, sem þar höfðu um að segja? Framsfl. lýsti ánægju sinni yfir því, að það skyldi hafa tekizt að selja alla framleiðsluna á þessu sama verði, og ég hef áður minnt hann á, að ég var einn á móti þessu í utanrmn., en allir aðrir höfðu þegar þá sannfæringu, að allar afurðir okkar hlytu að falla. Hæstv. ráðh. hafði gengið inn á það að selja á sama verði, og bæði Framsfl. og Sjálfstfl. fögnuðu þessu happi, sem þeir álitu, þar sem þeir höfðu áður lýst því yfir, að allar okkar afurðir hlytu að falla, og Framsfl. reyndar hlakkað yfir um árabil og Tíminn verið látinn básúna út um allar jarðir, og hið sama höfðu aðrir andstæðingar nýsköpunarstjórnarinnar gert, þar sem var Björn Ólafsson og heildsalablaðið Vísir.

En hvernig voru svo þessar verðlækkanir? Jú, þær komu fram í stórhækkuðu afurðaverði. En hverjar voru svo ástæðurnar, hvað Unileverhringinn snerti? Þær voru nú þannig, að Unilever vildi halda verðinu niðri og hindra jafnframt, að feitmeti gæti borizt til Austur-Evrópulandanna, og það vildi hann gera af því, að alþýða þessara landa hafði þá þjóðnýtt atvinnutækin og hann hafði ákveðið, að það skyldi ekki berast til hennar feitmeti, þó að hún sylti eftir stríðið. Þetta var það, sem olli því, að Unileverhringurinn vildi ekki láta af þeirri kröfu að kaupa allt lýsið. Og í þessu sambandi vil ég leyfa mér að leiða hæstv. ráðh. það fyrir sjónir, að hann fór utan, og svo fór að lokum, að okkur tókst að tvöfalda verðið á okkar lýsi. Þetta var nú allt verðfallið, sem varð eftir stríðið. — En þetta var ekki látið viðgangast hegningarlaust af þeirri stofnun, sem átti að sjá um, hvernig feitmeti væri skipt á milli landanna í heiminum, — mig minnir, að hún héti Combined Food-Board. Og hverjar voru svo gagnráðstafanir hennar? Jú, hún setti Ísland í bann. Hún setti bann við því, að smjörlíkisfeiti væri flutt til landsins. Það voru þær refsingar, sem Íslendingar urðu að þola fyrir það, að þeir seldu síldarlýsið til Austur-Evrópu.

Og ef ég á að ýta betur við minni hæstv. ráðh., þá man hann kannske eftir því, að þessu banni var ekki aflétt — það stóð árið 1946 og fram í september það ár — fyrr en nokkrum dögum áður en Keflavíkursamningurinn var gerður, því að það þótti ekki vænlegt til árangurs, ef þetta ákvæði ætti að standa áfram. Og bróðir hæstv. ráðh., Thor Thors, var búinn að gera ítrekaðar tilraunir til þess að fá þessu aflétt, og honum tókst það loksins, nokkrum dögum áður en sá samningur var gerður. — Ég vil bara minna hæstv. ráðh. á þetta, úr því að hann var að bera brigður á, að það væri venja að vísa slíkum málum til utanrmn.

Þá upplýsti hæstv. ráðh. það, að nú væri fyrirkomulagið ekki lengur svona, heldur væri það svo, að framleiðendurnir gætu selt þetta allt sjálfir erlendis. Nú mætti kannske minna hæstv. ráðh. á, hvernig þeir fá að selja þetta. Það er í fyrsta lagi þannig, að ríkisstj. ákveður verðið, og í öðru lagi, hvað mikið magn þeir mega selja. Það er því þannig, að framleiðendurnir verða að sækja um það, hvað mikið þeir mega selja og fyrir hvaða verð. Hæstv. ráðh. talaði um það, að þarna þyrfti að vera eins konar samband á milli framleiðenda og þeirra, sem um sölu framleiðslunnar sæju, og sjá þá allir, að það mundi koma í hlut utanrmn. að segja þar um sitt álit, bæði að því er snerti verð og sölumöguleika. Þetta eru þau mál, sem jafnan ættu að heyra undir utanrmn.

Hæstv. ráðh. taldi upp ýmis sambönd, svo sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem hefðu sína fulltrúa við söluna og þeir gætu ráðgazt við. En hver er það, sem borgar „undirballansinn“ af þessari sölu? Á hverra baki bitnar það? Það bitnar á alþýðunni, og það er rétt, að það séu hennar fulltrúar, sem fái að hafa einhverja hlutdeild um, hvernig sölunni er háttað. Eða er það skoðun hæstv. ráðh., að almenningur eigi þarna ekki að hafa neinn rétt? Á þetta að vera einkaréttur einstakra manna? Ég held, að þeir menn, sem eru alltaf með lýðræðið á vörunum og eru að skreyta sig með því, ættu að færa svolítið af þessu lýðræði sínu inn í atvinnulífið. Og það virðist a.m.k. sem Framsfl. þyki, að þetta gerði ekki mikið til hvað saltfisksútflutninginn snerti, að minnsta kosti ef hann gæti þá náð í svolitla einokun sjálfur.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að ég hefði borið fram frv. um, að menn ættu að hafa alveg frjálsar hendur um það, hvað þeir flyttu úr landi og hvað þeir keyptu í staðinn. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti að fylgjast betur með. Í því frv., sem ég lagði fyrir þingið (það er 12. mál), er gert ráð fyrir hömlum hvað það snertir, hvað menn megi flytja inn, og hæstv. ráðh. getur sannfærzt um þetta, ef hann bara nennir að hafa fyrir því að kynna sér 2. og 4. gr. þess. Það er einmitt tekið fram um þær kvaðir, sem á menn verði lagðar hvað innflutning snertir, og er þar miðað við það, að menn hlíti lögmálum hinnar frjálsu samkeppni. Spurningin er aðeins, hvort þau máttarvöld, sem hafa einokun á útflutningnum, þora að horfast í augu við það, að það sé frjáls samkeppni um söluna. — Hæstv. atvmrh. minntist í þessu sambandi á skiptin á íslenzka fiskinum og ungverska hveitinu. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Þykir honum ekki nóg að láta viðgangast, að sífellt sé logið í afturhaldsblöðunum um þetta mál, þótt hann sé ekki sjálfur að þylja þau ósannindi hér á Alþ.? Hann veit ósköp vel sjálfur sannleikann í þessu máli. Í Morgunblaðinu hefur einn af hans beztu trúnaðarvinum hrakið blekkingar þær, sem Tíminn, Alþýðublaðið og Vísir (ég held, að Morgunblaðið hafi ekki tekið þátt í því) hafa þyrlað upp um þetta mál. Hvað sýndi ekki Ólafur Jónsson fram á með útreikningum sínum í Morgunblaðinu? Sýndi hann ekki fram á, að fyrir eitt þúsund tonn af freðfiski fengust 2 þúsund tonn af hveiti í Ungverjalandi, en fyrir sama magn, sem selt hefði verið til Bandaríkjanna fyrir frjálsa dollara, 1600 tonn af kanadísku hveiti, eða um 400 tonnum minna en í Ungverjalandi, og það er enginn annar mælikvarði til á verðgildi afurðanna en vörumagn það, sem fæst fyrir þær? Það, sem við höfum til að kaupa vöruna fyrir, er ákveðið magn af fiski, og það eina, sem við þurfum að hugsa um, er, hvernig við getum fengið sem mest vörumagn fyrir hann. Ef það þykir skynsamlegt að selja eitt þús. tonn af freðfiski með 12% álagi á framleiðsluverð og kaupa fyrir andvirðið dýrt hveiti, þá er það ríkisstj., sem ræður, hvort það skuli gert eða ekki. Ef það þykir rétt að selja eitt þús. tonn af freðfiski til Bandaríkjanna á 30% undir framleiðsluverði og nota dollarana til að kaupa ódýrt hveiti í Kanada, þá er það einnig hún, sem ræður. En þegar íslenzkur þjóðarbúskapur er látinn ráða, er aðeins spurt að því, hvort fyrir þessi þús. tonn af freðfiski, sem íslenzkir menn hafa framleitt, fáist tvö þús. tonn af hveiti eða aðeins 1600 tonn. Og hvað hefði skeð, hefði verið hér um að ræða frjálsa verzlun og frjálsa samkeppni? Útflytjendur, sem hefðu selt freðfisk til Ameríku og keypt hveiti fyrir þar vestra, hefðu orðið að hækka verðið á hveitinn hér heima til þess að geta staðið undir framleiðslukostnaðinum. Ef þeir hefðu aftur á móti selt fiskinn til Ungverjalands, hefðu þeir getað lækkað verðið á hveitinu og getað þannig selt það í samkeppni hér heima. Ég býst við, að hæstv. atvmrh. skilji þetta og að það er hægt að blekkja fólkið með því að gefa upp mismunandi verð á hveitinu, en það er ekki hægt að hæla sér af slíkri blekkingarstarfsemi. Hæstv. atvmrh. veit vel, að það hefur verið hægt að selja allan freðfiskinn til Austur-Evrópulandanna á því verði, að allur bátagjaldeyririnn hefði orðið óþarfur. Það hefði engin vara lent í bátagjaldeyri, ef mönnum hefði verið leyft að selja freðfiskinn til Austur-Evrópu og Ísrael. Þetta veit hæstv. ráðh. ósköp vel. Af hverju fá ekki togararnir að annast sjálfir sölu á þeim fiski, sem þeir leggja hér upp? Af því að hraðfrystihúsin eru hrædd um, að þá verði komið upp um þau, að þá verði sýnt, að þau geta borgað meira fyrir fiskinn en þau gera. Hraðfrystihúsin þora ekki að borga nema 80% af framleiðsluverði fyrir fiskinn, vegna þess að ef þau borguðu meira fyrir hann, mundi koma í ljós, að það er hægt að selja allan fiskinn án bátagjaldeyrisins. Það mundi koma í ljós, að bátagjaldeyrinum var komið á til þess að borga undirballansinn af fisksölunni til Bretlands og Ameríku, til þess að borga upp 30% undirballansinn. Til þess að hringarnir, sem keyptu af okkur freðfiskinn fyrir verð, sem var 30% undir framleiðslukostnaði, gætu fengið sitt, var lagður á ólöglegur bátagjaldeyrir, sem þýðir allt að 60% álag á fjöldamargar vörur. Og hvað á svo að gera nú, eftir að þm. hafa verið sendir heim og eru ekki lengur ríkisstj. til óþæginda? Er meiningin að hækka bátagjaldeyrisálagið upp í 75%? Ætlar hæstv. ríkisstj. að leyfa sér að hækka þetta ólöglega gjald úr 60% upp í 75% án þess að spyrja Alþ. eða ráðfæra sig við þingmenn? Hæstv. atvmrh. vildi láta líta svo út sem samningar við útgerðarmenn væru nú að takast. Hann veit þó, að svo er ekki, og hann veit, að þótt togararnir leggi upp afla sinn nú, munu þeir hætta því, þegar kemur fram í janúar, og þá verður búið að senda þm. heim. Þá getur viðskmrh. farið upp í stjórnarráð og tilkynnt, að það sé ekkert atvinnuleysi til í landinu. Þá þorir ríkisstj. að segja verkamönnum, að það sé nóg fyrir þá að gera. En eitt þorir hæstv. ríkisstj. ekki, og það er að leyfa landsmönnum sjálfum að selja sínar afurðir og kaupa vörur inn í landið fyrir andvirði þeirra. Hvað er það, sem hæstv. ríkisstj. óttast? Ekki er það svartamarkaðsbrask, því að nú er nóg til af vörum í landinu til að koma í veg fyrir það. Hverra hagsmuni er hæstv. ríkisstj. að verja, sem veldur því, að hún vill ekki leyfa utanrmn. að fylgjast með þeim viðskiptasamningum, sem gerðir eru við erlend ríki? Ég held því, að hæstv. atvmrh. ætti ekki að setja sig á háan hest viðvíkjandi þessum málum. Ég held það væri viðkunnanlegra fyrir hann að viðurkenna, að það er nú verið að reyna að dylja fyrir Alþ., hvað eigi að gera í þessum málum, svo að það verði ekki til trafala fyrir ríkisstj. í þeirri sumpart ólöglegu einokunarstarfsemi í viðskiptamálunum, sem hún hefur rekið að undanförnu.

Ég læt svo þetta nægja sem svar til hæstv. atvmrh., en viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. Árn. (JörB) vil ég segja nokkur orð. — Hann taldi, að með brtt. meiri hl. væri tekið nokkurt tillit til sjónarmiðs hv. þm. Siglf. (ÁkJ). Ég get ekki séð, að sú brtt. fullnægi á nokkurn hátt því, sem virtist vaka fyrir hv. þm. Árn. Það er engu að síður rýrt vald utanrmn. sem slíkrar til að fylgjast með utanríkismálum. Vald hennar er engu síður rýrt stórkostlega sem og aðstaða Alþ. til að fylgjast með slíkum málum. Og ég vil vekja athygli á því, að brtt. meiri hl. kemur á engan hátt í stað minnar brtt. Mín brtt. fjallar um það, að á eftir 2. málsl. 2. mgr. komi svo hljóðandi málsgr.: „Ráðuneytið skal ávallt, jafnt milli þinga sem á þingtíma, bera undir utanríkismálanefnd verzlunarsamninga, er ríkið gerir, og skipanir í embætti í utanríkismálum.“ En brtt. meiri hl. er raunar aðeins umorðun á málsgr. frv., þannig að öllum utanríkismálum skal vísað til þessarar undirnefndar, en eftir sem áður er ekki skylt að vísa slíkum málum til allrar utanrmn. Þar er aðeins lagt til, að þessi þriggja manna nefnd skuli alltaf fjalla um mál, sem snerta Ameríku og aðrar erlendar þjóðir, þ.e., að hún skuli fjalla um öll þau mál, sem snerta hagsmuni Íslendinga, en Bandaríkin banna Íslendingum sjálfum að kíkka í. Ég held því, að þótt hv. 1. þm. Árn. vilji tryggja það, að ameríska nefndin fái öll mál til meðferðar, sem Ameríku snerta, þá ætti hann samt að geta gengið inn á mína brtt. og stuðlað þannig að því, að öll utanrmn. fái að fjalla um þau mál, sem Bandaríkin vilja ekki leyfa Íslendingum að hafa neitt með að gera.

Ég býst nú varla við að geta haft öllu fleiri orð um þetta mál, þar sem ég er nú langt kominn með að tala mig dauðan, en ég vildi mega vænta þess, að meiri hl. allshn. sýni meiri skilning á þeim afglöpum, sem hér hafa átt sér stað, heldur en hann hefur fram að þessu sýnt, og hann átti sig á því, að rétt sé að kippa þessum málum í betra horf, en það er enn hægt að koma í veg fyrir það, að afgreiðsla málsins verði deildinni til skammar. Ég vonast því til þess, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. brtt. mína á þskj. 320.