06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

101. mál, þingsköp Alþingis

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið mikið rætt í Nd., þegar það lá þar fyrir. Efni þessa máls er það, að utanrmn. kýs 3 menn úr sínum hópi til þess að vera til ráðuneytis ríkisstjórninni í utanríkismálum. Með sama hætti skal n. kjósa 3 menn úr hópi varamanna sinna til vara. Undir þessa menn skal stjórnin ávallt bera utanríkismál, jafnt milli þinga sem á þingtíma.

Þar sem vitað er, að mál þetta er stutt af öllum þorra þm. og málið var mikið rætt í Nd., sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það hér, enda liggur það ljóst fyrir, en legg til, að frv. verði vísað til allshn. að þessari umr. lokinni.