06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

101. mál, þingsköp Alþingis

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það er nú ekki vandi minn að lengja umr. við 1. umr., og hefur það verið venja, að menn láta sér nægja að heyra rök fyrir málum við 1. umr. Af þeim sökum mætti ætla, að mér þætti þetta mál öðrum málum merkilegra, þar eð ég kveð mér hljóðs nú við 1. umr. þess. Þetta mál má teljast merkilegt frá einu sjónarmiði séð, því að það sýnir ljóslega, hvaða hugsun formenn þriggja þingflokkanna, lýðræðisflokkanna, eins og þeir hafa tekið sér einkarétt að kalla sig, bera til þessa máls. Í annan stað hef ég ástæðu til að láta mig málið nokkru skipta, vegna þess að ég á sæti í utanrmn. af hálfu Sósfl. Mætti því ætla, að ég hefði ástæðu til að skipta mér alveg sérstaklega af þessu máll, vegna þess að það væri með því alveg sérstaklega stefnt að mér og mér hefði brugðið í brún sem nefndarmanni utanrmn. Ef aðstandendur frv. þessa líta svo á, þá er þó öllum ljóst, að utanrmn. hefur enginn trúnaður verið sýndur síðustu 5–6 árin og 16. gr. þingskapa verið þverbrotin. Reglan hefur í stuttu máli verið sú, að utanríkismál hefur ekki verið lagt fyrir utanrmn. fyrr en búið hefur verið að ganga frá því — allt klappað og klárt. Frá umr. um varnarsamninginn við Bandaríkin frá árinu 1946 er þess að minnast, er tveir ráðh. Framsfl. gagnrýndu, að utanrmn. hefði verið sniðgengin. Þau dæmi sýna, að það er ekki eingöngu Sósfl., sem sniðgenginn hefur verið, en það má segja, að slíkt hafi jafnan gilt um stjórnarandstöðuna, ef svo hefur boðið við að horfa. Ef stjórnarandstaðan hefur ekki verið trygg, þá hefur þetta verið reglan síðustu 5–6 árin, að nefndinni hefur ekki verið sýndur neinn trúnaður, a.m.k. ekki í viðskiptum við Bandaríkin. Þess vegna er ekki hægt að leggja trúnað á það, sem sagt er í grg. af flm. að þessari till., að það sé talið, að ríkisstj. hafi margt að ráðfæra sig við n., án þess að sýna kommúnistum óverðskuldaðan trúnað. Hins vegar hefur nú ríkisstj. alltaf átt þess kost að sýna þeim mönnum trúnað, sem í n. eiga sæti, eins og ummæli sumra framsóknarmanna sýna um undirbúning og gerð Keflavíkursamningsins og inngönguna í Atlantshafsbandalagið.

Í öðru lagi hefur því verið haldið fram af þessum flokkum, að skipun þings og þingnefnda væri réttmætust í beinu hlutfalli við kjósendafylgi flokkanna. Þetta hefur m.a. verið krafa Alþfl. Með þessu frv. er blað brotið og snúið við, og ekki á lengur að kjósa eftir styrkleikahlutföllum flokka, en það á að gefa minnsta flokknum á þingi einn mann í utanrmn. Það á að snúa við blaðinu, en Sósfl. er vis til þess að hefna þess í kosningum í héraði, sem á hann er hallað á Alþingi. Það á að gefa Alþfl. einn mann í 3 manna nefnd.

Öll meðferð þessa máls hefur verið á þann veg, að undrum sætir. Málinu hefur verið breytt frá því að það kom fyrst fram, en þá var ætlunin, að 7 menn kysu 6 úr hópi sínum, þannig að einn sæti eftir. Síðan var þessu breytt þannig, að nú skulu kosnir 3 og 3. Það hafði og láðst að setja í frv., að bera skuli utanríkismál undir nefndina. Þessu hefur nú verið breytt eftir ábendingu sósialista.

Efni frv. þessa er í meginatriðum það, að nefndarmönnum utanrmn. er fækkað úr 7 í 3. Ef borin eru saman núverandi ákvæði um skipan utanrmn. og þau ákvæði, sem nú á að lögskipa, verður þetta ljóst. En hver er svo ástæðan? Þetta mál sýnir fyrst og fremst sérstaka einingu um að einangra sósíallsta. Að öðrum þræði brigzla þessir flokkar hver öðrum um samvinnu við kommúnista. Hins vegar getur afstaða flokkanna breytzt. Það er ekki að vita, að þessir flokkar starfi saman að eilífu. Það kynni að eiga eftir að endurtaka sig, að fulltrúar Framsóknar yrðu settir utangarðs. Sagan frá árunum 1945, 1946 og 1949 gæti endurtekið sig, að þeir yrðu settir utangarðs, af því að þeir þættu ótryggir. Hv. framsóknarmenn hafa komið auga á það fyrir ábendingar sósíalista í Nd., að í þessu væri engin trygging fólgin fyrir Framsfl., vegna þess að það væri engin skylda til þess að bera málin undir þessa þrjá. Og þetta eiga þeir að þakka ábendingum frá andstæðingum þessa máls, sem frv. er sérstaklega beint gegn.

Það er sagt, að tilgangur þessa frv. sé að útiloka sósíalista frá því að hafa hönd í bagga um viðskipti okkar við Bandaríkin. En eru þessi mál ekki til lykta leidd? Við höfum her í landinu bæði í friði og ófriði. Er þá nokkuð nýtt í vændum í þessum efnum, sem ástæða er til að kveðja utanrmn. ekki til, og það því fremur sem búið er að skapa þá reglu um þessi mál að bera þau ekki undir n. yfirleitt? Hver er þá að tryggja sér aðstöðu hér? Það eru Sjálfstfl. og Alþfl., sem eru hér að treysta meirihlutavald sitt. Framsfl. hefur látið snúa á sig og ekki séð við þeim klóku mönnum, sem hann hefur átt við í þessu máli. Hann á einn mann af þremur í n., en hann á það á hættu nú sem áður, að málin verði ekki borin undir n.

Ég býst við, að ákveðið sé, að þetta frv. eigi að ganga fram eins og það er. Mun ég því ekki tefja það sérstaklega nú, en ræða það í einstökum atriðum við 2. umr.