13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

101. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Ég skal fyrst víkja að afstöðu sósfalista til utanríkismála í febrúar 1945 og afstöðu Thor Thors sendiherra til sama máls. Ég átti þá ekki sæti á þingi og veit því ekki, hvað gerðist á lokuðum fundum Alþingis þá, en mér hafa verið sagðar aðrar sögur af afstöðu sendiherrans þá en hæstv. dómsmrh. vill vera láta. Nú skulum við ganga út frá, að hans skoðun sé rétt, að hann hefði viljað fallast á það, sem nokkur ríki höfðu komið sér saman um, að segja Japönum og Þjóðverjum stríð á hendur. Nú var spurningin, hvort Ísland ætti að fara að gera slíkt, en hvað lagði Thor Thors þá til málanna? Hann lagði til, að Íslendingar skrifuðu undir. En ef nú sósialistar hafa haft sömu afstöðu, hvaða munur er þá á afstöðu sósíalista og sendiherrans? Afleiðingarnar hefðu verið þær sömu og hæstv. utanrrh. heldur fram. Og hann heldur því fram, að Rússar hefðu fengið íhlutun um íslenzk mál. Er það þá ekki þung sök? En slíkt er nú ekki og var ekki um að ræða, nema þá í huga hans. Það er nú flest reynt að hafa að vopni gegn okkur sósíalistum, og þeir, sem nota slíkan áburð sem hæstv. ráðh. hefur borið á sósíalista, þeir virðast nú ekki vera vandir að virðingu sinni. Það er þetta, sem þríflokkarnir eru sammála um, að beita slíkum rökum á móti stefnu sósíallsta. Flm. þessa frv. segja, að þeir hafi ætlað að vinna saman gegn sósíalistum, en þeir eru nú ekki fyrr farnir að ganga undir þetta jarðarmen en þeir sparka hver í annan.

Hæstv. ráðh. játaði, að tilgangurinn með frv. þessu væri sá að svipta sósíalista rétti til þess að fylgjast með utanríkismálum, sem þeir hafa þó rétt til samkvæmt þingfylgi sínu. Hvaða mál eru það, sem heyra undir utanrmn.? Jú, undir utanrmn. skal leggja öll utanríkismál, jafnt á þingi og á milli þinga. Nú er ekkert um það, að viðskiptasamninga né skipun sendiherra og annarra sendimanna ríkisins skuli leggja fyrir nefndina. Nú væri fróðlegt að heyra, hvaða utanríkismál þessir herrar telja að heyri undir Alþingi. Það væri fróðlegt að heyra, um hvað þessir 7 eiga að fjalla. Utanrmn. hefur hingað til verið sniðgengin og ekki verið lögð undir hana mál eins og t.d. Keflavíkursamningurinn eða varnarsamningurinn við Bandaríkin. Það virðist þó álit ráðh., að slík mál ætti að bera undir n. í heild sinni. Hæstv. ráðh, hefur haft þá reglu að sniðganga n. eins og honum hefur sýnzt. Það er þetta, sem er hinn mesti háski, að verið er að brjóta lög og lýðræðisreglur. Hæstvirtur ráðh. talar um trúnað. Ég býst nú ekki við, að n. verði neinn trúnaður sýndur, en allir þm. ættu að óska þess, að lög um þingsköp væru í heiðri höfð.

Hæstv. ráðh. vék í ummælum sínum um varnarsamninginn varðandi Þýzkaland að ummælum, sem höfð eru eftir Eisenhower hershöfðingja. Hann hefur ummæli sín eftir öðrum heimildum en ég gat um. Ég kann nú ekki við að vera að lesa upp á ensku í þinginu, en ég skal sýna hæstv. ráðh. heimildina, en ég hef ekki Times frá 14. ágúst í höndum, en ég hef hér annað blað, og kann Eisenhower þá að hafa leiðrétt ummæli sín í því blaði. Það er varðandi skyldu Bandaríkjanna um hernám Þýzkalands, að hún falli niður, en samkvæmt Keflavíkursamningnum átti hann að falla úr gildi þegar sú skylda Bandaríkjanna félli niður. Þeir samningar, sem nú hafa verið gerðir, eru sagðir gerðir vegna yfirvofandi styrjaldarhættu. Það er ekki útlit fyrir því, að styrjöld brjótist út í náinni framtíð, og eru það því falsrök.

Ég ætla ekki að ræða þetta frekar nú. Ég og hæstv. dómsmrh. getum karpað um þetta fram og aftur, og mun til lítils vera að rökræða við hann frekar hér. En ekki hefði ég á móti að ræða þessi mál við hann utan þings. Ég skal svo ekki tefja umr. lengur.